Handbók um notkun lesfimi- og stuðningprófa Matsferils
Þjónustuaðili:
Lesfimiprófið er fyrsta samræmda stöðu- og framvinduprófið sem fer inn í nýtt stafrænt viðmót Matsferils. Þrátt fyrir að notkun prófsins hafi verið og sé valkvæð hefur það að jafnaði verið lagt fyrir um 90% grunnskólanema á landinu enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun lestrarfærni nemenda. Stuðningsprófin, eða orðleysulestur og mat á sjónrænum orðaforða, verða einnig aðgengileg í Matsferli enda eiga niðurstöður þeirra að veita nánari skýringu á stöðu undirstöðuþátta í lestri ef gengi á lesfimiprófi er undir æskilegum mörkum.
Lestrarkennslan
Lestrarkennslan sjálf er veigamesti og flóknasti hlutinn í hringrás mats og kennslu. Þar reynir mikið á fagmennsku og þekkingu kennara, til dæmis vegna þess að staða nemenda í lestri innan bekkjar getur verið ólík og þarfir eða áskoranir í lestrarnámi mismiklar. Því er mikilvægt að hafa í huga að það er sjaldnast einn kennari sem kemur að eða ber ábyrgð á lestrarnámi og læsi nemenda heldur er mikilvægt að virkt samtal sé um stöðu nemenda í lestri og að stígandi í læsisnámi nemenda sé tryggð í gegnum öfluga læsisstefnu skóla.
Hægt er að ræða um ytra og innra skipulag sem lýtur að heildarskipulagi læsiskennslu í skóla. Ytra skipulagið miðar að því að útskrifa nemendur með góða lestrarfærni og vel læsa á næsta skólastig. Innra skipulag snýr að fyrirkomulagi lestrarkennslu inni í bekk og tekur mið af stöðu bekkjar og viðfangsefnum í lestrarkennslu hverju sinni eða milli þess sem mat fer fram.
Ytra skipulag lestrarkennslu er gjarnan tíundað í læsisstefnu skóla og ætti að endurspegla góðan skilning á þróun lestrarfærni og læsis þar sem stigvaxandi þyngd viðfangsefna á hverju skólastigi er í takt við kröfur sem gerðar eru til lestrarkunnáttu í námi. Gott ytra skipulag eða góð læsisstefna, sem endurspeglar nauðsynlega stígandi og samfellu í lestrarkennslu, getur verið kennurum mikilvægt leiðarljós varðandi markmið og viðfangsefni í lestrarkennslu á hverju stigi. Hún getur einnig veitt nemendum og forsjáraðilum góða heildarmynd af því hvað góð lestrarkunnátta og gott læsi felur í sér eða hvers konar hæfni nemandinn á að búa yfir við lok grunnskóla.
Í Matsferli geta skólastjórar séð meðaltöl allra árganga sinna og borið t.d. saman við landsmeðaltal. Þetta eru dýrmætar upplýsingar sem veita skólum tækifæri til að rýna í eigin starfshætti varðandi fyrirkomulag lestrarkennslu. Mikilvægt er að stjórnendur og kennarar rýni saman í niðurstöður undir formerkjum lærdómssamfélags og deili hugmyndum, aðferðum og ábyrgð á frammistöðu allra nemenda skólans. Rýnin getur dregið fram nauðsyn þess að gera ákveðnar breytingar sem þurfa að rata inn í læsisstefnu skólans við endurskoðun hennar en mikilvægt er að stefnan sé lifandi plagg sem endurspeglar áherslur hverju sinni og sé í raun hið fasta leikskipulag sem allt starfsfólk skóla sameinast um að fylgja vel eftir í þágu nemenda.
Söfnun upplýsinga með notkun lesfimi- og stuðningsprófanna gerir skólum kleift að hafa yfirsýn og kortleggja stöðu bekkjar, árgangs, stigs eða heildarstöðu nemenda skólans í lestri. Við greiningu á niðurstöðum fást upplýsingar sem leggja má meðal annars til grundvallar þegar áætla þarf umfang lestrarstuðnings innan stoðþjónustunnar, forgangsraða fjármagni og mannauði, og þegar móta á framtíðaráherslur í starfsþróunaráætlun skóla. Þetta er hægt að gera í kjölfar hverrar fyrirlagnar og með því að taka niðurstöður saman með þessum hætti, til dæmis. í maí, er hægt að sjá hver þörfin er á nýju skólaári.
Skipulagið sem birtist á myndinni hér fyrir neðan byggir á hlutfalli nemenda á hverju mælitölubili í 3. bekk í september. Það skýrir stöðu nemenda og hlutverk og ábyrgð skóla og heimilis varðandi kennslu, þjálfun og eftirfylgni fram að næsta lesfimiprófi. Með því að setja inn fjölda og hlutfall nemenda á hverju bili og taka niðurstöður saman fyrir bekk/árgang/skóla er hægt að átta sig á og fylgjast með þróun stöðunnar á milli mælinga og ára innan skólans. Þannig fæst t.d. góð hugmynd varðandi það hvert umfang lestrarstuðnings þarf að vera og hægt að forgangsraða bjargráðum í samræmi við það.

Við skipulagningu stoðþjónustu getur verið gott að eyrnamerkja ákveðinn kennslustundafjölda lestrarstuðningi sem er hugsaður fyrir nemendur sem glíma við lestrarerfiðleika. Í lestrarstuðningi er gert ráð fyrir að unnið sé með nemendur á öllum stigum í lotum yfir skólaárið, ýmist út frá einstaklingsþörfum eða í litlum hópum en fyrirkomulagið þarf alltaf að taka mið af aldri og eðli vanda nemenda.
Til að tryggja góða nýtingu ættu skólar að setja fram ákveðin skilyrði eða lýsingu varðandi nemendur sem fá lestrarstuðning. Skýrar línur í þeim efnum koma nemendum, forsjáraðilum og öllum þeim sem koma að lestrarkennslu til góða. Þannig er komið í veg fyrir að nemendum sé vísað að óþörfu í lestrarstuðning, komið í veg fyrir ofvöxt stoðþjónustu og bjargráðum forgangsraðað í takt við raunverulega þörf.
Góð og vönduð lestrarkennsla í bekk er árangursríkasta leiðin til að hjálpa langflestum nemendum og ætti lestrarstuðningur eingöngu að vera fyrir nemendur sem glíma við vanda sem ekki verður mætt inni í bekk. Þessir nemendur geta þó alla jafna haft ávinning af því að taka þátt í lestrarkennslu með bekkjarfélögum þar sem þeir geta notið stuðnings lengra kominna nemenda í gegnum aðferðir eins og K-PALS, G-PALS og PALS, kórlestur og endurtekinn lestur svo dæmi séu tekin.
Möguleikar lítilla skóla til að bjóða upp á öfluga stoðþjónustu, og þar af leiðandi lestrarstuðning, eru oft takmarkaðri en stærri skólanna en á móti kemur að þar eru árgangar oft litlir og fáir nemendur í bekk. Það gerir kennurum kleift að koma vel til móts við einstaklingsbundnar þarfir nemenda en áskoranirnar geta engu að síður verið margar og því er sveigjanleiki í kennslufyrirkomulagi og góð samvinna kennara ákaflega mikilvæg. Kennsla nemenda með lestrarerfiðleika er vissulega krefjandi en það er skylda kennara og annars fagfólks í skólum að bregðast rétt við stöðu nemenda og leita aðstoðar annarra ef þekking eða hæfni er ekki til staðar innan skólans.
Einn tilgangur námsmats er að hjálpa kennurum að ákvarða næstu skref í kennslu á grundvelli gagnanna sem þeir hafa aflað um stöðu nemenda. Á fyrstu stigum lestrarnáms er meginviðfangsefni nemandans að ná tökum á hljóðaaðferðinni, að leggja grunninn að aukinni lesfimi, að læra að lesa. Ef vel er að verki staðið og gögn lesfimi- og stuðningsprófa Matsferils notuð markvisst til grundvallar á skipulagi lestrarkennslu og vali á viðfangsefnum er mögulegt að útskrifa langflesta nemendur yfir á miðstigið með góða, aldurssvarandi færni.
Í túlkunarrammanum fyrir lesfimiprófið er gert ráð fyrir því að nemendur bæti leshraða sinn jafnt og þétt allan grunnskólann enda verða áskoranirnar í námi sífellt meiri eftir því sem námi vindur fram og þörfin fyrir góða lestrarkunnáttu æ ríkari. Það er því nauðsynlegt að nota niðurstöður á markvissan hátt fyrir alla árganga og taka niðurstöður á mið- og unglingastigi jafn alvarlega og á yngsta stigi. Að öðrum kosti skerðast möguleikar margra nemenda til að geta nýtt sér lestur til náms eða ánægju með árangursríkum hætti.
Lesfimi- og stuðningsprófin snúast fyrst og fremst um að leggja mat á stöðu tæknilegrar hliðar læsis. Eins og fram kemur í kaflanum um tengsl lesfimi og lesskilnings er markmið alls lestrar að skilja það sem lesið er og að geta nýtt sér upplýsingar í samræmi við tilgang lestrar hverju sinni. Efling lesskilnings er því annað meginviðfangsefni allrar lestrarkennslu og mikilvægt að hugað sé að honum allt frá upphafi. Duke, Ward og Pearson (2021) benda á að lestrarkennsla og kennsla í beitingu lesskilningsaðferða þurfi að fara saman frá upphafi lestrarnáms og að nemendur þurfi að geta lært snemma að beita einföldum aðferðum, t.d. að bregðast rétt við þegar lesskilning þrýtur, að læra aðferðir reyndra lesara í glímu við texta og að efla málskilning með umræðum um texta og úrvinnslu í gegnum ritun. Í orðaforða- og lesskilningshluta Læsisvefsins er að finna fjöldamargar aðferðir sem nota má til að efla lesskilning nemenda.
Eftir því sem viðfangsefni og kröfur í námi verða fleiri og meiri verður tilgangur lestrar margbreytilegri og textategundirnar sem nemandinn þarf að glíma við æ fjölbreyttari. Hann þarf því að læra aðferðir sem hjálpa honum að tileinka sér efni námsgreina með árangursríkum hætti og mikilvægt að kennsla og beiting aðferða fari ekki fram í tómarúmi heldur í tengslum við raunveruleg viðfangsefni innan greinanna. Þannig lærir nemandinn að nýta sér lestur til náms. KVL eða KVL+, Frayer líkanið og Venn kort eru aðferðir sem gera ráð fyrir skipulegri nálgun við lestur og úrvinnslu á efni texta og styðja við lestur til náms.
Viðfangsefni heimalestrar eða lestrarþjálfunar þurfa að haldast í hendur við viðfangsefni lestrarkennslunnar og stöðu nemenda í lestri hverju sinni. Í fyrstu er lögð áhersla á að nemendur nái tökum á hljóðaaðferðinni og nái samhliða því tökum á lestri orðmynda sem leggja grunninn að góðri lesfimi með hliðsjón af eðlilegri þróun lestrar. Á sama tíma þarf að huga að því að nemendur komi sér upp góðu lestrarlagi sem tryggir að merking textans komist til skila en allt frá upphafi þarf að vinna með orðaforða- og lesskilningsaðferðir í merkingarbæru samhengi í öllum bóklegum námsgreinum. Hér gildir að þjálfa það sem þarfnast þjálfunar og því þarf, sérstaklega á fyrri stigum lestrarnáms, að hafa í huga stöðu nemenda og sníða þjálfunina að henni. Markmið þjálfunar og aðferðir þurfa því að vera fjölbreytt og lestrarkennarinn meðvitaður um það sem þjálfa þarf hverju sinni. „Korter og kvittað“ fyrir alla nemendur á því sjaldnast við en markmiðið með slíkri þjálfun hefur alla jafna verið nokkuð óljóst í hugum nemenda og oft ekki til þess fallið að ýta undir áhuga þeirra á lestri þar sem skráningin er fábreytt og úrvinnslan eftir lestur lítil eða jafnvel engin.
Eftir að nemandinn hefur náð góðum tökum á lestri og lesfimin orðin öflug þarf að styðja kröfuna um heimalestur með góðum rökum og tryggja að hún hafi gildi fyrir nemandann, að hann hafi val, gott aðgengi að fjölbreyttum bókakosti og möguleikum á úrvinnslu. Einnig er mikilvægt að tengja kröfuna um heimalestur við lestur í námsgreinum en texti námsgreina getur oft verið flókinn og innihaldið mörg ný orð og greinabundin hugtök sem þarf að kafa í. Í þessu samhengi kemur þjálfun í beitingu lesskilningsaðferða að gagni sem viðfangsefni í heimalestri.
Á Læsisvefnum er að finna efnið Spurt og svarað um lestrarþjálfun og Lesfimiþjálfun og eldri nemendur. Þar eru ýmsar gagnlegar ábendingar fyrir bæði kennara og forsjáraðila sem geta nýst við lestrarþjálfun eða heimalestur.
Læsisvefnum er ætlað að vera verkfærakista kennara og hefur hann að geyma ýmsar upplýsingar, aðferðir og bjargir sem nýtast kennurum við skipulag og val á viðfangsefnum í læsiskennslu, t.d. í kjölfar mats á lestri. Aðferðirnar, sem valdar hafa verið inn á vefinn, eru nær allar byggðar á niðurstöðum rannsókna og getur notkun þeirra lagt grunninn að fjölbreyttri og árangursríkri læsiskennslu á öllum stigum grunnskólans. Efnið á vefnum er flokkað í samræmi við meginþætti læsis og er ætlað að auðvelda kennurum að finna það sem þeir leita að hverju sinni.
Við framsetningu aðferða á vefnum er leitast við að setja þær í skýrt samhengi og útskýra vel í hverju gildi aðferðarinnar liggur. Einnig eru sett fram þau markmið sem aðferðin getur uppfyllt og gögn sem þarf við framkvæmdina sem lýst er í skrefum. Í mörgum tilvikum fylgja bjargir í formi veggspjalda eða annars sem hægt er að nota á meðan á innlögn og þjálfun stendur. Margar aðferðanna eru einfaldar í framkvæmd en hafa þarf í huga að engin aðferð er svo einföld að það þurfi ekki að beita henni nokkrum sinnum til að bæði nemendur og kennari nái tökum á henni og full áhrif hennar komi fram. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að beiting aðferðar þarf að eiga sér stað á réttum tímapunkti í lestrarnámi til að vera árangursrík (Hattie, 2009). Með því að kynna sér og nota nýjar aðferðir markvisst í kennslu stækkar verkfærakistan smám saman og kennarinn verður sífellt færari um að koma betur til móts við þarfir nemenda sinna í lestrarnámi þeirra.

Það er samstarfsverkefni heimilis og skóla að gera nemendur læsa og tryggja að lestrarnám barna verði farsælt. Það er best gert með öflugu samstarfi allt frá upphafi formlegrar skólagöngu þar sem væntingar, hlutverk og ábyrgð beggja aðila er skýr en skólinn, sem er skipaður fagfólki með þekkingu á lestrarkennslu, leiðir alltaf samstarfið og leggur línurnar. Þannig bera forsjáraðilar ábyrgð á almennu læsisuppeldi og þjálfun á meðan hún þarf að fara fram en skólinn á því að kenna nemendum aðferðir og leiðir sem auka líkurnar á því að þeir öðlist næga lestrarfærni til að geta nýtt sér lestur til náms.
Á Íslandi er sterk hefð fyrir því að forsjáraðilar taki að sér að sinna heimalestri eða lestrarþjálfun barna, einkum á fyrstu stigum lestrarnáms, og því er mikilvægt að samtal eigi sér stað milli heimils og skóla um viðfangsefnið. Skólar þurfa að vera leiðandi í því samtali eins og áður segir og bjóða forsjáraðilum upp á fræðslu sem gerir þá vel í stakk búna til að sinna bæði þjálfunarhlutverki sínu og að efla almennt læsi barna sinna. Miðstöð menntunar og skólaþjónustu hefur gefið út efnið Samvinna um læsi en það er ætlað skólum sem vilja útbúa fræðslu fyrir foreldrahópinn sem er að stíga sín fyrstu skref í þjálfunarhlutverkinu. Í efninu er að finna ákveðna fyrirmynd að slíkri fræðslu sem skólar geta nýtt í samræmi við eigin áherslur og væntingar. Skólastjórnendur og kennarar eru hvattir til að nýta sér efnið, að hluta til eða öllu leyti, en með notkun þess myndast grundvöllur að samvinnu þar sem hlutverk og væntingar til samstarfsins eru skýrar.
