Handbók um notkun lesfimi- og stuðningprófa Matsferils
Þjónustuaðili:
Lesfimiprófið er fyrsta samræmda stöðu- og framvinduprófið sem fer inn í nýtt stafrænt viðmót Matsferils. Þrátt fyrir að notkun prófsins hafi verið og sé valkvæð hefur það að jafnaði verið lagt fyrir um 90% grunnskólanema á landinu enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun lestrarfærni nemenda. Stuðningsprófin, eða orðleysulestur og mat á sjónrænum orðaforða, verða einnig aðgengileg í Matsferli enda eiga niðurstöður þeirra að veita nánari skýringu á stöðu undirstöðuþátta í lestri ef gengi á lesfimiprófi er undir æskilegum mörkum.
Niðurstöður lesfimi- og stuðningsprófa
Megintilgangur þess að leggja próf fyrir nemendur er að fá upplýsingar um árangur af kennslu, hver staða nemenda er og hver næstu skref þurfa að vera í lestrarnámi þeirra. Eitt meginmarkmið framsetningar á niðurstöðum lesfimi- og stuðningsprófanna er að uppfylla þennan tilgang með því að veita ítarlegri upplýsingar um stöðuna en áður svo hægt sé að skipuleggja lestrarkennslu einstakra nemenda, bekkjar eða á skólavísu með árangursríkum hætti. Hringrás mats og kennslu lýsir ferlinu skýrt en niðurstöður mats leggja grunninn að öðrum þáttum hringrásarinnar.

Það er mikilvægt fyrir skóla að hafa í huga að með notkun matstækja skapast siðferðileg skylda til að bregðast við niðurstöðum með skýrum og afgerandi hætti. Því ber kennurum að læra vel á matstækin, þekkja hugsmíðina sem liggur að baki hverju prófi, vanda framkvæmd og túlkun, og vera vel í stakk búnir til að bregðast við niðurstöðum. Hlutverk skólastjórnenda er að skapa góð skilyrði til lestrarkennslu og lestrarnáms í gegnum leiðandi samtal á grundvelli gagna sem liggja fyrir um stöðuna hverju sinni. Þetta þarf að skila sér í samræmdum aðgerðum sem eiga að lúta að því að allir nemendur eigi möguleika á að ná framúrskarandi árangri á sínum forsendum.
Hægt verður að sjá niðurstöður lesfimi- og stuðningsprófanna í Matsferli aftur til ársins 2019. Þá var B útgáfa lesfimiprófanna, sem áður var lögð fyrir í janúar, tekin út svo einfaldara væri að endurspegla þróun lestrar hjá nemendum á milli mælinga.
Við endurskoðun og flutning lesfimi- og stuðningsprófanna í Matsferil verða gömlu viðmiðin frá 2016 felld úr gildi. Þau byggðu á væntingum um árangur en í staðinn kemur nýr túlkunarrammi sem byggir á þeim gögnum sem hafa safnast undanfarin ár og gefa réttari mynd af þróun lesfimi nemenda í grunnskóla. Túlkunin vísar nú í frammistöðu nemenda í lesfimi miðað við jafnaldra og tengsl lesfiminnar við lesskilning, þ.e.a.s. að hvaða marki má áætla að nemandi geti skilið texta út frá því hversu góð lesfimi hans er. Niðurstöður stuðningsprófanna verða áfram settar fram í mælitölum en túlkunarramminn verður sá sami fyrir öll prófin.
Hluti af endurskoðun lesfimi- og stuðningsprófanna var að endurbæta framsetningu og túlkun á niðurstöðum. Niðurstöður eru nú birtar á mælitölu (e. standard score) sem veita upplýsingar um stöðu nemenda miðað við jafnaldra. Hverri mælitölu fylgir lýsing þar sem fjöldi lesinna orða á mínútu er gefin upp, almenn lýsing á því sem einkennir nemendur á tiltekinni mælitölu og tillaga að næstu skrefum í kennslu. Notkun mælitalna kann í fyrstu að vera kennurum framandi en hún hefur ýmsa kosti í för með sér.
Mælitölur eru notaðar til að gefa niðurstöðum prófa skýrari merkingu. Þær hjálpa okkur að skilja stöðu nemanda miðað við jafnaldra. Staða nemanda í lesfimi getur verið góð og hann nýtt sér lestur í daglegu lífi í samræmi við kröfur fyrir aldur eða staða nemanda í lesfimi getur verið slök og hann skort færnina sem jafnaldrar hans hafa. Með því að notast við mælitölur fæst réttmætari og nákvæmari mynd af stöðu nemenda.
Annar kostur við notkun mælitalna er sá að þær gera okkur kleift að bera saman frammistöðu nemenda á ólíkum prófum með því að nota sama mælikvarða og túlkunarramma. Þetta mun til dæmis auðvelda kennurum að bera saman niðurstöður lesfimi- og lesskilningsprófa, átta sig betur á samspili þessara lykilþátta læsis og hvar styrk- og veikleikar nemenda liggja.
Mælitölur lesfimiprófsins eru settar fram á kvarða á bilinu 1-19 þar sem lág gildi tákna litla færni og hærri gildi gefa til kynna meiri færni. Til að auðvelda notendum túlkun á niðurstöðum þá eru gefnar upp fjórar lýsingar sem eru einkennandi fyrir nemendur sem falla á tiltekið bil.

Reyndir notendur lesfimprófsins spyrja sig eðlilega að því hvar sé hægt að staðsetja gömlu viðmiðin á nýjum túlkunarkvarða. Stutta svarið er það að viðmið 1 er milli mælitölu 7 og 8 en við framsetningu á niðurstöðum fyrir nemanda og bekki er gert ráð fyrir að kennarar og skóli hugi sérstaklega vel að nemendum sem lenda undir meðaltali með mælitölur 5-7 eða eru í neðstu mörkum kvarða með mælitölur 1-4. Viðmið 2 er milli mælitölu 12 og 13 og ættu allir nemendur að stefna að því að fá mælitöluna 13 eða yfir. Þessir nemendur búa að jafnaði yfir góðum lesskilningi ef orðaforði þeirra er góður.
Niðurstöður nemanda á lesfimiprófi Matsferils eru settar fram á þrenns konar hátt: Stöðu nemanda er lýst í texta, með mynd og loks er hægt að skoða framvinduna þar sem nýjasta mælingin er sett í samhengi við fyrri niðurstöður nemandans.
Fyrstu niðurstöður sem kennarar sjá er lýsing á stöðu nemanda í texta. Niðurstöðurnar eru birtar á mælitölu sem veita upplýsingar um stöðu nemanda miðað við jafnaldra. Mælitölunni fylgir lýsing þar sem fjöldi lesinna orða á mínútu er gefinn upp, lýsing á því sem einkennir stöðu nemenda á tiltekinni mælitölu og tillaga að næstu skrefum í kennslu.

Niðurstöður nemanda eru einnig settar fram í mynd og á henni má sjá hvernig niðurstöður á lesfimiprófi eru settar fram á mælitölukvarða þar sem y-ásinn sýnir mælitölur frá 1-19. Svarti punkturinn sýnir frammistöðu nemandans sem fékk mælitöluna 12 sem er færni í meðallagi. Brotalínan táknar landsmeðaltalið en það er alltaf á mælitölunni 10. Með því að færa músarbendilinn yfir svarta punktinn fást nánari upplýsingar um frammistöðu nemandans, t.d. lesin orð á mínútu og samanburður við landsmeðaltal.

Með því að útbúa mynd sem sýnir framvindu nemanda geta kennarar séð hvort framfarir hans í lestri séu eðlilegar og gripið inn í ef ferill hans verður, af einhverjum ástæðum, flatur eða tekur dýfu niður á við.
Hægt er að sjá framvindu nemanda frá og með fyrsta lesfimiprófinu sem hann tekur á x-ás myndarinnar en á y-ásnum er kvarði með lesnum orðum á mínútu. Litir myndarinnar vísa í lýsingar á almennri stöðu nemenda á tiltekinni mælitölu. Hvert próf eða mæling er táknuð með svörtum punkti og eru þeir tengdir saman með heilli línu innan sama skólaárs og þegar um sömu prófútgáfu er að ræða. Hvítu punktarnir og brotalínan sýna landsmeðaltal árgangs. Með því að færa músarbendilinn yfir svörtu punktana fást nánari upplýsingar um frammistöðu nemandans, t.d. lesin orð á mínútu á tiltekinni mælingu og samanburður við landsmeðaltal.

Niðurstöður hópa (bekkjar/árgangs) eru settar fram í mælitölum þar sem þær eru heppilegri þegar bera á saman niðurstöður ólíkra prófa. Framvinda bekkjar eða árgangs verður þó eftir sem áður gefin upp í meðaltali lesinna orða á mínútu með samanburði við landsmeðaltal. Ekki eru teknar saman niðurstöður bekkjar/árgangs fyrir stuðningsprófin þar sem þau eru greinandi próf og þar af leiðandi ekki lögð reglulega fyrir alla nemendur.
Staða hóps í lesfimi er sett fram sem hlutfall nemenda á hverju mælitölubili með samanburði við landið þar sem efri súlan sýnir hlutfallið á landsvísu. Á landsvísu fær 21% nemenda mælitölurnar 1-7 en þetta eru nemendur sem þurfa stuðning og eftirfylgni í lestrarnámi. 58% nemenda á landsvísu fá mælitölurnar 8-12 og eru á og við meðaltal og 21% nemenda fá svo mælitölurnar 13-19 sem er betri frammistaða en hjá jafnöldrum á landsvísu. Mikilvægt er að túlka meðaltöl fyrir litla hópa, með færri en 10 nemendur, með fyrirvara þar sem frammistaða einstakra nemenda getur haft mikil áhrif á meðaltal bekkjarins.
Neðri súlan sýnir stöðu bekkjar og hlutfall nemenda innan mælitölubila. Í þessum bekk er hlutfall nemenda sem fá mælitölurnar 1-7 á lesfimiprófilægra en á landsvísu eða 7,7%. Hlutfall nemenda sem sýnir betri frammistöðu en jafnaldrar er 23,7% og því hærra en á landsvísu. Staða bekkjarins er því betri en staðan á landsvísu.

Staða bekkjar í lesfimi er einnig sett fram á mynd þar sem meðaltal hans er gefið upp í mælitölu sem í þessu tilviki er 11. Landsmeðaltalið er alltaf sett á mælitöluna 10. Staða bekkjarins er því aðeins yfir landsmeðaltali á þessu prófi.
Minni punktarnir tákna einstaka nemendur og stöðu þeirra samanborið við meðaltal bekkjar. Með því að færa músarbendilinn yfir gráan punkt og smella á hann eru kennarar leiddir inn á einstaklingsniðurstöður nemanda.
Þrátt fyrir að frammistaða bekkjar sé yfir landsmeðaltali þarf að huga sérstaklega að nemendum sem fá mælitölurnar 5-7 sem í þessum bekk eru þrír. Einnig þarf að fylgjast vel með nemendum sem fá mælitölurnar 8 og 9 þar sem þeir eru í neðri mörkum meðaltals og enn að ná góðum tökum á lestri. Alltaf skal stefnt að því að nemendur nái mörkum efra meðaltals í lesfimi og helst mælitölunni 13 eða hærra.

Hægt er að skoða framvindu hóps í lesfimi fjórar mælingar aftur í tímann með því að velja framvinduflipann. Þessi framsetning gerir kennurum til dæmis kleift að sjá hlutfallslega breytingu eða hreyfingar á hverju mælitölubili milli mælinga.
Æskilegt er að hlutfallið lækki hjá nemendum sem fá mælitölurnar 1-7, að það takist að styrkja lestrarfærni þessara nemenda með góðum stuðningi og eftirfylgni og þoka þeim upp á næsta mælitölubil. Þá er einnig æskilegt að hlutfall nemenda sem fá mælitölur 13 eða hærri hækki því góð lesfimi eykur líkur á góðum lesskilningi.

Með því að skruna lengra niður í viðmótinu sem sýnir framvindu árgangs má sjá þróun meðaltals í lesnum orðum á mínútu hjá bekknum, allt frá því að nemendur voru í 1. bekk eða aftur til ársins 2019. Svörtu punktarnir, sem tengdir eru saman með heilli línu, sýna meðaltal lesinna orða á sama lesfimiprófinu innan skólaárs. Svarta línan er ekki samfelld þar sem um mismunandi texta er að ræða milli skólaára. Hvítu punktarnir og brotalínan sýna meðaltal lesinna orða og þróunina á landsvísu. Með því að færa músarbendilinn yfir svörtu punktana fást nánari upplýsingar um frammistöðu bekkjarins/árgangsins, t.d. lesin orð á mínútu á tiltekinni mælingu og samanburður við landsmeðaltal.

Í Matsferli eru niðurstöður einnar mælingar á lesfimi- og stuðningsprófunum birtar í yfirliti. Hægt er að sía niðurstöðurnar og raða upplýsingum í hverjum dálki. Stafrófsröð er sjálfgefin en hægt er að raða niðurstöðum líka eftir lægsta gildi. Þannig geta kennarar flokkað nemendur eftir mælitölubilum og t.d. auðveldlega séð hvaða nemendur, og þá hversu margir, glíma við vanda og þurfa stuðning.

Til að átta sig betur á því hvernig hægt er að nota niðurstöður lesfimi- og stuðningsprófanna til að skipuleggja kennslu getur verið gagnlegt að skoða dæmi. Hér fyrir neðan er dæmi úr 3. bekk en á þessu stigi í lestrarnámi hefur meðalnemandinn náð góðum tökum á hljóðaaðferðinni, sjónrænn orðaforði fer hratt vaxandi og forsendur til aukinnar lesfimi komnar hjá langflestum ef kennsla hefur verið góð og þjálfun næg og markviss. Þó eru alltaf einhverjir sem enn þurfa töluverðan stuðning og eftirfylgni en þeim ætti að fara fækkandi með hækkandi aldri nemenda ef rétt er á spilum haldið.
Í dæminu er stuðst við hlutfall nemenda á landsvísu á hverju mælitölubili. Á landsvísu fær 21% nemenda mælitöluna 1-7, 58% fær mælitöluna 8-12 og 21%mælitöluna 13 og yfir. Það þýðir að í 20 nemenda bekk eru að jafnaði fjórir nemendur sem fá mælitölurnar 1-7, 12 nemendur sem fá mælitölurnar 8-12 og fjórir nemendur sem fá mælitölurnar 13 og yfir.
Í þessu dæmi er að hluta til stuðst við raunverulegar niðurstöður nemenda í 3. bekk og fá fjórir nemendur mjög slakar niðurstöður á lesfimi- og stuðningsprófunum. Hér koma fram vísbendingar um töluverða erfiðleika en ekkert er vitað um magn eða fyrirkomulag stuðnings sem þessir nemendur hafa fengið. Fylgjast þarf vel með öðrum fjórum nemendum en aðrir eru á góðu róli miðað við aldur.
Hlutfall nemenda með tilteknar mælitölur í einum bekk getur vikið nokkuð frá hlutfallinu á landsvísu. Það getur til dæmis verið tímabundið háð háu hlutfalli nemenda með erlendan menningar- og tungumálabakgrunn eða óvenjuháu hlutfalli nemenda sem glímir við lestrarvanda. Síðast en ekki síst þarf að hafa í huga að einn stærsti áhrifaþátturinn á gengi nemenda eru gæði lestrarkennslu og möguleikar skóla til að veita nemendum stuðning í lestrarnámi frá upphafi skólagöngu.
Það verður ekki tæpt nægilega oft á því hversu mikilvægt það er að nýta upplýsingar úr niðurstöðum lesfimi- og stuðningsprófa, ásamt öðrum gögnum sem skólar hafa um nemendur sína, til að koma til móts við nemendur um leið og ljóst er í hvað stefnir.
