Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók um notkun lesfimi- og stuðningprófa Matsferils

Lesfimiprófið er fyrsta samræmda stöðu- og framvinduprófið sem fer inn í nýtt stafrænt viðmót Matsferils. Þrátt fyrir að notkun prófsins hafi verið og sé valkvæð hefur það að jafnaði verið lagt fyrir um 90% grunnskólanema á landinu enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun lestrarfærni nemenda. Stuðningsprófin, eða orðleysulestur og mat á sjónrænum orðaforða, verða einnig aðgengileg í Matsferli enda eiga niðurstöður þeirra að veita nánari skýringu á stöðu undirstöðuþátta í lestri ef gengi á lesfimiprófi er undir æskilegum mörkum.

    Niðurstöður lesfimi- og stuðningsprófa

    Megintilgangur þess að leggja próf fyrir nemendur er að fá upplýsingar um árangur af kennslu, hver staða nemenda er og hver næstu skref þurfa að vera í lestrarnámi þeirra. Eitt meginmarkmið framsetningar á niðurstöðum lesfimi- og stuðningsprófanna er að uppfylla þennan tilgang með því að veita ítarlegri upplýsingar um stöðuna en áður svo hægt sé að skipuleggja lestrarkennslu einstakra nemenda, bekkjar eða á skólavísu með árangursríkum hætti. Hringrás mats og kennslu lýsir ferlinu skýrt en niðurstöður mats leggja grunninn að öðrum þáttum hringrásarinnar.

    Það er mikilvægt fyrir skóla að hafa í huga að með notkun matstækja skapast siðferðileg skylda til að bregðast við niðurstöðum með skýrum og afgerandi hætti. Því ber kennurum að læra vel á matstækin, þekkja hugsmíðina sem liggur að baki hverju prófi, vanda framkvæmd og túlkun, og vera vel í stakk búnir til að bregðast við niðurstöðum. Hlutverk skólastjórnenda er að skapa góð skilyrði til lestrarkennslu og lestrarnáms í gegnum leiðandi samtal á grundvelli gagna sem liggja fyrir um stöðuna hverju sinni. Þetta þarf að skila sér í samræmdum aðgerðum sem eiga að lúta að því að allir nemendur eigi möguleika á að ná framúrskarandi árangri á sínum forsendum.

    Hægt verður að sjá niðurstöður lesfimi- og stuðningsprófanna í Matsferli aftur til ársins 2019. Þá var B útgáfa lesfimiprófanna, sem áður var lögð fyrir í janúar, tekin út svo einfaldara væri að endurspegla þróun lestrar hjá nemendum á milli mælinga.