Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók um notkun lesfimi- og stuðningprófa Matsferils

Lesfimiprófið er fyrsta samræmda stöðu- og framvinduprófið sem fer inn í nýtt stafrænt viðmót Matsferils. Þrátt fyrir að notkun prófsins hafi verið og sé valkvæð hefur það að jafnaði verið lagt fyrir um 90% grunnskólanema á landinu enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun lestrarfærni nemenda. Stuðningsprófin, eða orðleysulestur og mat á sjónrænum orðaforða, verða einnig aðgengileg í Matsferli enda eiga niðurstöður þeirra að veita nánari skýringu á stöðu undirstöðuþátta í lestri ef gengi á lesfimiprófi er undir æskilegum mörkum.

    Niðurstöður lesfimi- og stuðningsprófa

    Megintilgangur þess að leggja próf fyrir nemendur er að fá upplýsingar um árangur af kennslu, hver staða nemenda er og hver næstu skref þurfa að vera í lestrarnámi þeirra. Eitt meginmarkmið framsetningar á niðurstöðum lesfimi- og stuðningsprófanna er að uppfylla þennan tilgang með því að veita ítarlegri upplýsingar um stöðuna en áður svo hægt sé að skipuleggja lestrarkennslu einstakra nemenda, bekkjar eða á skólavísu með árangursríkum hætti. Hringrás mats og kennslu lýsir ferlinu skýrt en niðurstöður mats leggja grunninn að öðrum þáttum hringrásarinnar.

    Niðurstöður hópa (bekkjar/árgangs) eru settar fram í mælitölum þar sem þær eru heppilegri þegar bera á saman niðurstöður ólíkra prófa. Framvinda bekkjar eða árgangs verður þó eftir sem áður gefin upp í meðaltali lesinna orða á mínútu með samanburði við landsmeðaltal. Ekki eru teknar saman niðurstöður bekkjar/árgangs fyrir stuðningsprófin þar sem þau eru greinandi próf og þar af leiðandi ekki lögð reglulega fyrir alla nemendur.

    Staða hóps í lesfimi er sett fram sem hlutfall nemenda á hverju mælitölubili með samanburði við landið þar sem efri súlan sýnir hlutfallið á landsvísu. Á landsvísu fær 21% nemenda mælitölurnar 1-7 en þetta eru nemendur sem þurfa stuðning og eftirfylgni í lestrarnámi. 58% nemenda á landsvísu fá mælitölurnar 8-12 og eru á og við meðaltal og 21% nemenda fá svo mælitölurnar 13-19 sem er betri frammistaða en hjá jafnöldrum á landsvísu. Mikilvægt er að túlka meðaltöl fyrir litla hópa, með færri en 10 nemendur, með fyrirvara þar sem frammistaða einstakra nemenda getur haft mikil áhrif á meðaltal bekkjarins.

    Neðri súlan sýnir stöðu bekkjar og hlutfall nemenda innan mælitölubila. Í þessum bekk er hlutfall nemenda sem fá mælitölurnar 1-7 á lesfimiprófilægra en á landsvísu eða 7,7%. Hlutfall nemenda sem sýnir betri frammistöðu en jafnaldrar er 23,7% og því hærra en á landsvísu. Staða bekkjarins er því betri en staðan á landsvísu.