Handbók um notkun lesfimi- og stuðningprófa Matsferils
Þjónustuaðili:
Lesfimiprófið er fyrsta samræmda stöðu- og framvinduprófið sem fer inn í nýtt stafrænt viðmót Matsferils. Þrátt fyrir að notkun prófsins hafi verið og sé valkvæð hefur það að jafnaði verið lagt fyrir um 90% grunnskólanema á landinu enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun lestrarfærni nemenda. Stuðningsprófin, eða orðleysulestur og mat á sjónrænum orðaforða, verða einnig aðgengileg í Matsferli enda eiga niðurstöður þeirra að veita nánari skýringu á stöðu undirstöðuþátta í lestri ef gengi á lesfimiprófi er undir æskilegum mörkum.
Niðurstöður lesfimi- og stuðningsprófa
Megintilgangur þess að leggja próf fyrir nemendur er að fá upplýsingar um árangur af kennslu, hver staða nemenda er og hver næstu skref þurfa að vera í lestrarnámi þeirra. Eitt meginmarkmið framsetningar á niðurstöðum lesfimi- og stuðningsprófanna er að uppfylla þennan tilgang með því að veita ítarlegri upplýsingar um stöðuna en áður svo hægt sé að skipuleggja lestrarkennslu einstakra nemenda, bekkjar eða á skólavísu með árangursríkum hætti. Hringrás mats og kennslu lýsir ferlinu skýrt en niðurstöður mats leggja grunninn að öðrum þáttum hringrásarinnar.

Við endurskoðun og flutning lesfimi- og stuðningsprófanna í Matsferil verða gömlu viðmiðin frá 2016 felld úr gildi. Þau byggðu á væntingum um árangur en í staðinn kemur nýr túlkunarrammi sem byggir á þeim gögnum sem hafa safnast undanfarin ár og gefa réttari mynd af þróun lesfimi nemenda í grunnskóla. Túlkunin vísar nú í frammistöðu nemenda í lesfimi miðað við jafnaldra og tengsl lesfiminnar við lesskilning, þ.e.a.s. að hvaða marki má áætla að nemandi geti skilið texta út frá því hversu góð lesfimi hans er. Niðurstöður stuðningsprófanna verða áfram settar fram í mælitölum (e. standard score) en túlkunarramminn verður sá sami fyrir öll prófin.
Niðurstöður lesfimiprófs eru nú einnig birtar á mælitölu sem veitir upplýsingar um stöðu nemenda miðað við jafnaldra. Hverri mælitölu fylgir lýsing þar sem fjöldi lesinna orða á mínútu er gefinn upp, almenn lýsing á því sem einkennir nemendur á tiltekinni mælitölu og tillaga að næstu skrefum í kennslu. Notkun mælitalna kann í fyrstu að vera kennurum framandi en hún hefur ýmsa kosti í för með sér.
Mælitölur eru notaðar til að gefa niðurstöðum prófa skýrari merkingu, með því að lýsa stöðu nemanda miðað við jafnaldra. Mælitölurnar á lesfimiprófinu eru settar fram á kvarða á bilinu 1-19 þar sem lág gildi tákna litla færni og hærri gildi gefa til kynna meiri færni. Mælitölur eru túlkaðar þannig að miðja kvarðans, sem táknar meðalframmistöðu jafnalda, er notuð til þess að segja til um hvort staða nemanda í lesfimi sé góð (nýtir sér lestur í daglegu lífi í samræmi við kröfur fyrir aldur) eða staða nemanda í lesfimi sé slök (skortir færnina sem jafnaldrar hans hafa). Meðaltal kvarðans er 10 og staðalfrávikið er 3. Þetta þýðir að flestir nemendur fá mælitölu á bilinu 8-12 (meðalframmistaða jafnaldra). Til að auðvelda notendum túlkun á niðurstöðum þá eru gefnar upp fjórar lýsingar sem eru einkennandi fyrir nemendur sem falla á tiltekið bil.
Annar kostur við notkun mælitalna er sá að þær gera okkur kleift að bera saman frammistöðu nemenda á ólíkum prófum með því að nota sama mælikvarða og túlkunarramma. Þetta mun til dæmis auðvelda kennurum að bera saman niðurstöður lesfimi- og lesskilningsprófa, átta sig betur á samspili þessara lykilþátta læsis og hvar styrk- og veikleikar nemenda liggja. Með því að notast við mælitölur fæst réttmætari og nákvæmari mynd af stöðu nemenda.

Reyndir notendur lesfimprófsins spyrja sig eðlilega að því hvar sé hægt að staðsetja gömlu viðmiðin á nýjum túlkunarkvarða. Stutta svarið er það að viðmið 1 er milli mælitölu 7 og 8 en við framsetningu á niðurstöðum fyrir nemanda og bekki er gert ráð fyrir að kennarar og skóli hugi sérstaklega vel að nemendum sem lenda undir meðaltali með mælitölur 5-7, eða eru í neðstu mörkum kvarða með mælitölur 1-4. Viðmið 2 er milli mælitölu 12 og 13 og ættu allir nemendur að stefna að því að fá mælitöluna 13 eða yfir. Nemendur með slíka færni búa að jafnaði yfir góðum lesskilningi ef orðaforði þeirra er góður.
Nýi túlkunarramminn er byggður á þeim gögnum sem hafa safnast á liðnum árum eins og áður segir og endurspeglar þróun lesfimi hjá grunnskólanemum frá upphafi til loka grunnskólagöngu. Hann sýnir frammistöðu nemenda og vöxt í vegnum orðum á mínútu á hverju mælitölubili milli september, janúar og maí fyrir alla árganga. Því lægri sem mælitalan er innan bils því færri orð les nemandinn á mínútu en nákvæmari upplýsingar um lesin orð á mínútu, og breytingar á milli mælinga, er hægt að sjá í framsetningu á niðurstöðum fyrir einstaka nemendur eða hópa. Það eru þó ekki lesin orð á mínútu sem skipta höfuðmáli heldur lýsingin á stöðu nemenda í lestri miðað við jafnaldra sem fylgir hverri mælitölu og hver viðbrögðin eiga að vera út frá stöðu þeirra hverju sinni.
Hér er dæmi um túlkun á niðurstöðum fyrir 3. bekk og hér má finna túlkunarrammann fyrir lesfimipróf allra árganga.

Sérstök athygli er vakin á þeim mun sem getur orðið á frammistöðu nemenda milli maímælingar í 2. bekk og septembermælingar í 3. bekk. Sá munur skýrist af því að 3. bekkjar prófið er töluvert þyngra heldur en prófið fyrir 2. bekk. Þar sem flókið er að eyða slíkum mun við gerð útreikninga á prófniðurstöðum er farin sú leið að setja inn á myndina fyrirvara sem skýrir hvers vegna „dýfan“ verður. Það þarf ekki að vera að nemanda fari aftur eða hann standi í stað milli mælinga heldur getur munurinn skýrst af þyngd prófanna.
Eins og áður segir eru það ekki lesin orð á mínútu sem skipta höfuðmáli heldur mælitalan ásamt lýsingu á stöðu nemanda. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá hvernig frammistaða nemandans helst enn á sama litabili (við meðaltal) þrátt fyrir þann þyngdarmun sem er á prófunum.









