Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók um notkun lesfimi- og stuðningprófa Matsferils

Lesfimiprófið er fyrsta samræmda stöðu- og framvinduprófið sem fer inn í nýtt stafrænt viðmót Matsferils. Þrátt fyrir að notkun prófsins hafi verið og sé valkvæð hefur það að jafnaði verið lagt fyrir um 90% grunnskólanema á landinu enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun lestrarfærni nemenda. Stuðningsprófin, eða orðleysulestur og mat á sjónrænum orðaforða, verða einnig aðgengileg í Matsferli enda eiga niðurstöður þeirra að veita nánari skýringu á stöðu undirstöðuþátta í lestri ef gengi á lesfimiprófi er undir æskilegum mörkum.

    Niðurstöður lesfimi- og stuðningsprófa

    Megintilgangur þess að leggja próf fyrir nemendur er að fá upplýsingar um árangur af kennslu, hver staða nemenda er og hver næstu skref þurfa að vera í lestrarnámi þeirra. Eitt meginmarkmið framsetningar á niðurstöðum lesfimi- og stuðningsprófanna er að uppfylla þennan tilgang með því að veita ítarlegri upplýsingar um stöðuna en áður svo hægt sé að skipuleggja lestrarkennslu einstakra nemenda, bekkjar eða á skólavísu með árangursríkum hætti. Hringrás mats og kennslu lýsir ferlinu skýrt en niðurstöður mats leggja grunninn að öðrum þáttum hringrásarinnar.

    Staða bekkjar í lesfimi er einnig sett fram á mynd þar sem meðaltal hans er gefið upp í mælitölu sem í þessu tilviki er 11. Landsmeðaltalið er alltaf sett á mælitöluna 10. Staða bekkjarins er því aðeins yfir landsmeðaltali á þessu prófi.

    Minni punktarnir tákna einstaka nemendur og stöðu þeirra samanborið við meðaltal bekkjar. Með því að færa músarbendilinn yfir gráan punkt og smella á hann eru kennarar leiddir inn á einstaklingsniðurstöður nemanda.

    Þrátt fyrir að frammistaða bekkjar sé yfir landsmeðaltali þarf að huga sérstaklega að nemendum sem fá mælitölurnar 5-7 sem í þessum bekk eru þrír. Einnig þarf að fylgjast vel með nemendum sem fá mælitölurnar 8 og 9 þar sem þeir eru í neðri mörkum meðaltals og enn að ná góðum tökum á lestri. Alltaf skal stefnt að því að nemendur nái mörkum efra meðaltals í lesfimi og helst mælitölunni 13 eða hærra.