Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók um notkun lesfimi- og stuðningprófa Matsferils

Lesfimiprófið er fyrsta samræmda stöðu- og framvinduprófið sem fer inn í nýtt stafrænt viðmót Matsferils. Þrátt fyrir að notkun prófsins hafi verið og sé valkvæð hefur það að jafnaði verið lagt fyrir um 90% grunnskólanema á landinu enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun lestrarfærni nemenda. Stuðningsprófin, eða orðleysulestur og mat á sjónrænum orðaforða, verða einnig aðgengileg í Matsferli enda eiga niðurstöður þeirra að veita nánari skýringu á stöðu undirstöðuþátta í lestri ef gengi á lesfimiprófi er undir æskilegum mörkum.

    Niðurstöður lesfimi- og stuðningsprófa

    Megintilgangur þess að leggja próf fyrir nemendur er að fá upplýsingar um árangur af kennslu, hver staða nemenda er og hver næstu skref þurfa að vera í lestrarnámi þeirra. Eitt meginmarkmið framsetningar á niðurstöðum lesfimi- og stuðningsprófanna er að uppfylla þennan tilgang með því að veita ítarlegri upplýsingar um stöðuna en áður svo hægt sé að skipuleggja lestrarkennslu einstakra nemenda, bekkjar eða á skólavísu með árangursríkum hætti. Hringrás mats og kennslu lýsir ferlinu skýrt en niðurstöður mats leggja grunninn að öðrum þáttum hringrásarinnar.

    Með því að útbúa mynd sem sýnir framvindu nemanda geta kennarar séð hvort framfarir hans í lestri séu eðlilegar og gripið inn í ef ferill hans verður, af einhverjum ástæðum, flatur eða tekur dýfu niður á við.

    Hægt er að sjá framvindu nemanda frá og með fyrsta lesfimiprófinu sem hann tekur á x-ás myndarinnar en á y-ásnum er kvarði með lesnum orðum á mínútu. Litir myndarinnar vísa í lýsingar á almennri stöðu nemenda á tiltekinni mælitölu. Hvert próf eða mæling er táknuð með svörtum punkti og eru þeir tengdir saman með heilli línu innan sama skólaárs og þegar um sömu prófútgáfu er að ræða. Hvítu punktarnir og brotalínan sýna landsmeðaltal árgangs. Með því að færa músarbendilinn yfir svörtu punktana fást nánari upplýsingar um frammistöðu nemandans, t.d. lesin orð á mínútu á tiltekinni mælingu og samanburður við landsmeðaltal.