Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók um notkun lesfimi- og stuðningprófa Matsferils

Lesfimiprófið er fyrsta samræmda stöðu- og framvinduprófið sem fer inn í nýtt stafrænt viðmót Matsferils. Þrátt fyrir að notkun prófsins hafi verið og sé valkvæð hefur það að jafnaði verið lagt fyrir um 90% grunnskólanema á landinu enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun lestrarfærni nemenda. Stuðningsprófin, eða orðleysulestur og mat á sjónrænum orðaforða, verða einnig aðgengileg í Matsferli enda eiga niðurstöður þeirra að veita nánari skýringu á stöðu undirstöðuþátta í lestri ef gengi á lesfimiprófi er undir æskilegum mörkum.

    Lesfimipróf MMS

    Lesfimipróf Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu er staðlað einstaklingspróf sem veitir upplýsingar um stöðu nemanda í lesfimi og sýna framvindu nemenda í lestri. Niðurstöður prófanna eru túlkaðar út frá túlkunarramma sem byggir á þróun lestrarfærni grunnskólanemenda og hversu mikilli færni þeir þurfa að búa yfir til að geta skilið efni texta.

    Nákvæmur, áreynslulaus og sjálfvirkur lestur, þar sem lesarinn er því sem næst ómeðvitaður um lestrarferlið, er mikilvæg forsenda þess að hann geti einbeitt sér að innihaldi textans og skilið hann (LaBerge og Samuels,1974). Líkan Tunmers og Hoovers (2019) lýsir þessu vel en það skiptist í tvo meginþætti; málskilning og sjónrænan orðaforða sem er forsenda sjálfvirkrar og nákvæmrar umskráningar. Málskilningurinn nær meðal annars yfir öll orð sem einstaklingur hefur skilning á og því ríkulegri sem orðaforði hans er því meiri líkur eru á að hann eigi auðvelt með því að skilja texta. Sjónræni orðaforðinn nær yfir öll orð sem hann getur lesið nákvæmlega, áreynslulaust og skilið fyllilega. Tengsl lesskilnings og góðrar lesfimi eru því náin og áhersla á góða lesfimi, eða góðan leshraða ekki úr lausu lofti gripin. Það er því mikilvægt að fylgjast vel með þróun lesfimi hjá nemendum því hún er ein af meginstoðum læsis. Sé hún ekki nægileg getur það sett hömlur á möguleika nemenda til að komast yfir lesefni, nýta sér lestur til skilnings á árangursríkan hátt í námi og njóta lestrar.