Handbók um notkun lesfimi- og stuðningprófa Matsferils
Þjónustuaðili:
Lesfimiprófið er fyrsta samræmda stöðu- og framvinduprófið sem fer inn í nýtt stafrænt viðmót Matsferils. Þrátt fyrir að notkun prófsins hafi verið og sé valkvæð hefur það að jafnaði verið lagt fyrir um 90% grunnskólanema á landinu enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun lestrarfærni nemenda. Stuðningsprófin, eða orðleysulestur og mat á sjónrænum orðaforða, verða einnig aðgengileg í Matsferli enda eiga niðurstöður þeirra að veita nánari skýringu á stöðu undirstöðuþátta í lestri ef gengi á lesfimiprófi er undir æskilegum mörkum.
Inngangur
Um leið og hönnun Matsferils hófst var ákveðið að nýta tækifærið og færa ýmislegt til betri vegar hvað prófin varðar, enda mikilvægt að þróa matstæki í samræmi við þær upplýsingar sem hafa fengist með notkun þeirra yfir langt tímabil. Fyrsta skrefið var að gera breytingar á því hvaða próftextar eru lagðir fyrir hvaða árganga og var sú breyting gerð haustið 2024. Tilgangurinn var sá að gera stígandina í framför milli árganga skýrari en áður og í betra samræmi við það hvernig lesfimi barna þróast. Það markmið náðist.
Önnur veigamikil breyting er sú að niðurstöður á lesfimiprófi eru nú ekki eingöngu settar fram í lesnum orðum á mínútu heldur einnig gefnar upp í mælitölu með skýrri lýsingu á stöðu nemanda eða hóps. Er sú breyting í samræmi við það hvernig niðurstöður á stuðningsprófum hafa verið settar fram. Notkun mælitalna gerir það mögulegt að túlka og bera saman niðurstöður ólíkra prófa og fá þannig gott yfirlit yfir almennt gengi í námi. Notkun mælitalna mun t.d. auðvelda kennurum að bera saman frammistöðu nemenda á lesfimi- og lesskilningsprófi og átta sig betur á samspili þessara lykilþátta læsis þar sem niðurstöður beggja prófa eru settar fram á sama kvarða.
Með þessari breytingu eru gömlu viðmiðin felld úr gildi og nýr túlkunarrammi tekinn upp, sem byggir á stöðu nemenda í lesfimi miðað við jafnaldra. Upplýsingarnar í rammanum eru settar fram á mælitölum en viðmið um lesin orð á mínútu eru einnig gefin upp á bilum fyrir september, janúar og maí fyrir alla árganga. Það ætti að auðvelda kennurum að venjast notkun mælitalna og fylgjast með því hvort færni nemenda í lestri sé að þróast með æskilegum hætti innan skólaárs.
Regluleg notkun lesfimi- og stuðningsprófa Matsferils veitir kennurum og nemendum góða yfirsýn yfir þróun læsis þar sem markviss notkun á niðurstöðum prófanna ætti að vera leiðarstef í lestrarkennslu. Þannig má tryggja að nemandinn fái viðfangsefni við hæfi, hvort sem það er þjálfun og stuðningur, eða meira krefjandi námsefni. Einnig eru upplýsingarnar úr prófunum mikilvægar fyrir stefnumótun skóla, til dæmi þegar forgangsraða þarf takmörkuðum gæðum og þegar ákvarða þarf áherslur í starfsþróun kennara svo dæmi séu tekin.