Handbók um notkun lesfimi- og stuðningprófa Matsferils
Þjónustuaðili:
Lesfimiprófið er fyrsta samræmda stöðu- og framvinduprófið sem fer inn í nýtt stafrænt viðmót Matsferils. Þrátt fyrir að notkun prófsins hafi verið og sé valkvæð hefur það að jafnaði verið lagt fyrir um 90% grunnskólanema á landinu enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun lestrarfærni nemenda. Stuðningsprófin, eða orðleysulestur og mat á sjónrænum orðaforða, verða einnig aðgengileg í Matsferli enda eiga niðurstöður þeirra að veita nánari skýringu á stöðu undirstöðuþátta í lestri ef gengi á lesfimiprófi er undir æskilegum mörkum.
Lesfimipróf MMS
Lesfimipróf Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu er staðlað einstaklingspróf sem veitir upplýsingar um stöðu nemanda í lesfimi og sýna framvindu nemenda í lestri. Niðurstöður prófanna eru túlkaðar út frá túlkunarramma sem byggir á þróun lestrarfærni grunnskólanemenda og hversu mikilli færni þeir þurfa að búa yfir til að geta skilið efni texta.
Lesfimiprófið er einstaklingspróf þar sem nemandi les upphátt af blaði í tvær mínútur fyrir kennara sem fylgist með og skráir hversu nákvæmur lesturinn er. Prófið metur tvo eiginleika lesfiminnar af þremur eða sjálfvirkni og nákvæmni lestrar. Þrátt fyrir að hrynrænir þættir séu ekki metnir á lesfimiprófinu hefur myndast hefð fyrir því, bæði hérlendis og erlendis, að kalla slík próf „lesfimipróf“ þó svo að réttara væri að segja að lesfimiprófin séu fyrst og fremst mat á sjálfvirkni lestrar.
Í þessu sambandi hefur verið bent á að hrynrænir þættir séu aukaafurð af góðum og sjálfvirkum lestri og málskilningi, merki um að nemandinn hafi gott vald á lestri, og hafi því í sjálfu sér ekkert umframgildi við mat á lesfimi (Biancarosa og Shanley, 2016). Einnig hefur reynst erfiðara að meta hrynræna þætti þar sem samræmi á milli matsmanna er oftast lítið sem rýrir trúverðugleika matsins. Þetta þýðir þó alls ekki að kennarar eigi að sleppa því að huga að hrynrænum þáttum í lestrarkennslu og þjálfun þar sem þeir gegna því mikilvæga hlutverki að koma réttri merkingu texta til skila og geta verið mælikvarði á það að hvaða marki nemandinn skilur það sem hann les. Það geta þeir gert með því að nota matsramma sem finna má í Matsramma fyrir lesfimi: Leiðbeiningar um notkun og fjallað er um í næsta kafla (Guðbjörg R. Þórisdóttir, 2021).
