Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók um notkun lesfimi- og stuðningprófa Matsferils

Lesfimiprófið er fyrsta samræmda stöðu- og framvinduprófið sem fer inn í nýtt stafrænt viðmót Matsferils. Þrátt fyrir að notkun prófsins hafi verið og sé valkvæð hefur það að jafnaði verið lagt fyrir um 90% grunnskólanema á landinu enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun lestrarfærni nemenda. Stuðningsprófin, eða orðleysulestur og mat á sjónrænum orðaforða, verða einnig aðgengileg í Matsferli enda eiga niðurstöður þeirra að veita nánari skýringu á stöðu undirstöðuþátta í lestri ef gengi á lesfimiprófi er undir æskilegum mörkum.

    Lesfimipróf MMS

    Lesfimipróf Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu er staðlað einstaklingspróf sem veitir upplýsingar um stöðu nemanda í lesfimi og sýna framvindu nemenda í lestri. Niðurstöður prófanna eru túlkaðar út frá túlkunarramma sem byggir á þróun lestrarfærni grunnskólanemenda og hversu mikilli færni þeir þurfa að búa yfir til að geta skilið efni texta.

    Eins og áður segir metur lesfimipróf Matsferils sjálfvirkni og nákvæmni við lestur. Í leiðbeiningum með fyrirlögninni eru fyrirmælin til nemenda þegar prófið er lagt fyrir „Lestu eins hratt og vel og þú getur“. Orðið „vel“ vísar hér til lestrarnákvæmni þar sem hún, ásamt lesnum orðum á mínútu, liggur til grundvallar útreikningum á frammistöðu nemenda. Upplýsingar um sjálfvirkni umskráningar eru mjög mikilvægar en sjálfvirknin er ein af meginforsendum þess að lesari geti einbeitt sér að innihaldi texta og skilið hann. Sé skilgreiningin á lesfimi hins vegar höfð í huga er ljóst að lesfimiprófið metur aðeins tvo meginþætti hennar. Til að fá góða hugmynd af heildarstöðunni þurfa kennarar einnig að nota matsramma fyrir lesfimi sem býður upp á mat á hrynrænum þáttum til viðbótar. Saman veita lesfimiprófið og matsramminn góðar upplýsingar um stöðu lesfimi nemenda en notkun rammans býður jafnframt upp á útvíkkun í lestrarkennslu og þjálfun og getur gert hvort tveggja fjölbreytt og áhugavert. Matsrammann má finna á Læsisvefnum ásamt leiðbeiningum.