Handbók ökuprófa
2. Þjónusta prófa
Gerðar eru kröfur varðandi innri og ytri aðstæður við framkvæmd prófa.
Efni kaflans
Til að fá að gangast undir próf, bóklegt eða verklegt, þarf að fullnægja ýmsum skilyrðum svo sem að gild próftökuheimild sýslumanns liggi fyrir, að nám sé samkvæmt reglugerð og námskrá og að tilskildum aldri sé náð. Prófdómari skal, áður en próf hefst, kanna skilríki próftaka. Þegar krafa er um ökunám skal ennfremur kanna ökunámsbók, ef ökunám er ekki í samræmi við reglur skal liggja fyrir undanþáguheimild frá Samgöngustofu. Ef ökukennari eða próftaki fer fram á undanþágu frá reglum um ökupróf skal ökukennari beina málinu, með skýringum á ástæðum, til Samgöngustofu til afgreiðslu.
2.4.1 Réttindi og aldur
Flokkur | Veitir réttindi á: | Aldur |
AM | létt bifhjól, á tveimur eða þremur hjólum, hámarkshraði 45 km | 15 |
A1 | bifhjól: (a) á tveimur hjólum, afl ≤ 11 kW, slagrými ≤ 125 sm³ og hlutfall afls/þunga ≤ 0,1 kW/kg og (b) á þremur hjólum, afl ≤ 15 kW | 17 |
A2 | bifhjól: á tveimur hjólum, afl ≤ 35 kW og hlutfall afls/þunga ≤ 0,2 kW/kg og ekki leitt af bifhjóli með yfir tvöfalt afl | 19 |
A | bifhjól á tveimur eða þremur hjólum | 24* |
B | bifreið með leyfða heildarþyngd ≤ 3.500 kg, gerða fyrir ≤ 8 farþega auk ökumanns | 17 |
Ba | bifreið til farþegaflutningar í atvinnuskyni í B-flokki | 20 |
BE | bifreið í B-flokki með eftirvagn/tengitæki ≤ 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd | 18 |
C1 | bifreið, gerð fyrir ≤ 8 farþega auk ökumanns, leyfð heildarþyngd > 3.500 kg og ≤ 7.500 kg, með eftirvagn/tengitæki ≤ 750 kg að leyfðri heildarþyngd | 18 |
C1a | bifreið til vöruflutninga í atvinnuskyni í C1-flokki | 18 |
C1E | bifreið í (a) C1-flokki með eftirvagn/tengitæki > 750 kg að leyfðri heildarþyngd, leyfð heildarþyngd vagnlestar ≤12.000 kg og (b) B-flokki með eftirvagn/tengitæki > 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd, leyfð heildarþyngd vagnlestar ≤12.000 kg | 18 |
C | bifreið með leyfða heildarþyngd > 3.500 kg, gerða fyrir ≤ 8 farþega auk ökumanns með eftirvagn/tengitæki ≤ 750 kg að leyfðri heildarþyngd | 21 |
Ca | bifreið til vöruflutninga í atvinnuskyni í C-flokki | 21 |
CE | bifreið í C-flokki með eftirvagn/tengitæki > 750 kg að leyfðri heildarþyngd | 21 |
D1 | bifreið, ekki lengri en 8 m, gerða fyrir ≤16 farþega auk ökumanns með eftirvagn/tengitæki ≤ 750 kg að leyfðri heildarþyngd | 21 |
D1a | bifreið til farþegaflutninga í atvinnuskyni í B- og D1-flokki | 21 |
D1E | bifreið í D1-flokki með eftirvagn/tengitæki > 750 kg að leyfðri heildarþyngd | 21 |
D | bifreið gerð fyrir > 8 farþega auk ökumanns | 23 |
Da | bifreið til farþegaflutningar í atvinnuskyni í B-, D1 ogD-flokki | 23 |
DE | bifreið í D-flokki með eftirvagn/tengitæki > 750 kg að leyfðri heildarþyngd | 23 |
T | dráttarvél með þeim eftirvögnum sem hún má draga | 16 |
* en þó þeim sem orðinn er 21 árs, hafi hann í a.m.k. tvö ár haft ökuskírteini fyrir A2-flokk.
2.4.2 Skilyrði bóklegra prófa
Bóklegt próf má ekki fara fram fyrr en tveimur mánuðum áður en próftaki fullnægir aldursskilyrði til að öðlast ökuréttindi í viðkomandi flokki.
Kennslustund (kest) er miðuð við 45 mínútur. Fyrir B-flokk gildir að próftaki þarf að hafa tekið 22 kest. í ökuskóla ásamt námi í ökugerði. Ef námi í ökugerði er ekki lokið þá 24 kest. í ökuskóla. Próftaki þarf ennfremur að hafa lokið 12 verklegum kest. hjá ökukennara ásamt námi í ökugerði. Ef námi í ökugerði er ekki lokið þá 14 verklegir ökutímar hjá ökukennara.
2.4.3 Skilyrði verklegra prófa
Verklegt próf má fara fram allt að tveimur vikum áður en umsækjandi fullnægir aldursskilyrðum til að öðlast ökuréttindi í viðkomandi flokki.
Umsækjandi skal hafa staðist verklegt próf áður en sex mánuðir eru liðnir frá því hann stóðst bóklegt próf. Bóklegt próf úr grunnnámi (skólapróf), ÖR-próf og próf í ferðafræði (FF) og stórum ökutækjum (SÖ) heldur þó gildi sínu í 12 mánuði. Auk þess verður aksturskennslu að vera lokið og í samræmi við námskrár. Fullnægjandi vottun ökukennara, ökuskóla og ökugerða (eftir því sem við á) verður að koma fram í ökunámsbók og upplýsingar um verklega ökutíma verða að koma fram með fullnægjandi hætti. Fari verklegt próf í D1a-, DE eða D-flokki fram utan Reykjavíkur eða Akureyrar skulu a.m.k. tveir ökutímar hafa farið fram á þessum stöðum.
Ef próftaki hefur ekki vottun um tilskilið nám skal undanþága frá Samgöngustofu fylgja og skal hún heftuð við afrifublað ökunámsbókar/ökunámsbók eftir því sem við á til Samgöngustofu eða vera skráð með rafrænum hætti í stafræna ökunámsbók.
Fyrir próf í C-, C1-, D- og D1-flokki og til farþegaflutninga á fólksbifreið (B-flokki) í atvinnuskyni skal próftaki sýna fullnaðarskírteini fyrir B-flokk nema þegar próf eru vegna endurveitingar ökuskírteinis.
Fyrir próf í BE-, CE-, C1E-, DE- og D1E-flokki skal próftaki eftir því sem við á sýna fullnaðarskírteini fyrir B-flokk eða ökuskírteini fyrir C-, C1-, D- eða D1-flokk.
2.4.4 Sjálfskipt ökutæki
Ökutæki sem notað er við verklegt próf má vera beinskipt eða sjálfskipt eftir vali próftaka. Við staðið próf skal prófdómari tilgreina með áritun á umsóknareyðublað hvort ökutækið hafi verið beinskipt eða sjálfskipt.
Takmörkun við sjálfskiptingu er ekki sett í ökuskírteini ef sjálfskipt ökutæki er notað við verklegt próf í
1. BE-, C1E-, CE-, D1E- og DE-flokki, við próf til farþegaflutninga í atvinnuskyni fyrir B-, D1- og D-flokk og til vöruflutninga í atvinnuskyni fyrir C1- og C-flokk enda hafi umsækjandi ökuskírteini fyrir þá flokka sem fengið er á grundvelli ökuprófs þar sem próf í aksturshæfni hefur verið tekið á ökutæki með beinskiptingu.
2. C-,C1-,D- og D1-flokki enda hafi umsækjandi ökuskírteini sem fengið er á grundvelli ökuprófs þar sem próf í aksturshæfni hefur verið tekið á ökutæki með beinskiptingu í a.m.k. einum af eftirtöldum flokkum: B-, BE-, C-, CE-, C1-, C1E-, D-, DE-, D1- eða D1E-flokki.
Við skipti á erlendu ökuskírteini og endurveitingu ökuskírteinis eftir sviptingu skal próf fara fram á beinskipt ökutæki nema gefa eigi út skilyrt skírteini (sjálfskipting).
2.4.5 Önnur skilyrði verklegra prófa
Ökutæki sem notað er í prófi þarf að vera tryggt og skráð til ökukennslu nema létt bifhjól, dráttarvél og sérútbúið ökutæki fólks með fötlun. Ökutæki þarf að vera með gilda skoðun án endurskoðunar, þrifalegt, í lagi og tilbúið til aksturs. Skoðunarvottorð og skráningarskírteini skal geymt á aðgengilegum stað í ökutæki. Allar merkingar á ökutæki sem gefa til kynna að um kennsluökutæki sé að ræða verður að fjarlægja/hylja áður en próf fer fram.
Ökutæki þarf að uppfylla ákveðnar lágmarkskröfur varðandi stærð, afl og búnað til að próftaki geti sýnt að hann ráði við venjulegar umferðaraðstæður af fyllsta öryggi. Ökutæki skal tilheyra þeim flokki ökuréttinda sem prófað er til.
Fari verklegt próf fram á bifreið sem er ekki búin ökurita skal það tilgreint með „ekki í atvinnuskyni“ á umsókn með niðurstöðu prófs (tákntalan 95 fer þá ekki í ökuskírteini).
Sjá kröfur til ökutækja í IV. viðauka reglugerðar um ökuskírteini
Atriði sem gera skal athugasemdir við | Atriði sem kalla á frestun prófs |
öryggisbúnað vantar s.s. viðvörunarþríhyrning, sjúkrakassa, slökkvitæki, brothamra fyrir rúðugler eða exi í rútu | ljósabúnaður óvirkur fyrir aðalljós, hemlaljós eða stefnuljós |
mælar eða gaumljós biluð fyrir hleðslu, smurþrýsting, háljós, stefnuljós eða hemlaloftþrýsting. Peru vantar í ljósabúnað | hraðamælir bilaður |
mynsturdýpt hjólbarða undir slitmörkum hjólbarðar negldir utan tímabils (nema aðstæður krefjist þess) | hjólbarðar óöruggir miðað við aðstæður, t.d. sumardekk í snjó og hálku |
hægri hliðarspegil vantar | kennslubúnaði áfátt s.s. hemlar óvirkir eða baksýnisspegil/augnspegil vantar eða er óvirkur |
hjólhlífar vörubíla og eftirvagna skemmdar eða vantar | rúðuþurrkur eða miðstöð óvirk við aðstæður sem gera notkun nauðsynlega fyrir umferðaröryggi |
erfitt að komast að varadekki og fleira vegna farangurs | vantar felgubolta, festing hjóla óörugg |
leigubíll eða rúta illa þrifin | farmur á vörubílum og eftirvögnum of lítill |
hlífðarbúnaði próftaka áfátt í bifhjólaprófi | próftaki í bifhjólaprófi ekki varinn á fullnægjandi hátt s.s. í þunnum fötum eða lélegum skóm eða að fjarskiptatæki virka ekki |
Taki prófdómari eftir öðrum atriðum sem að hans mati geta valdið hættu eða dregið úr umferðaröryggi ber honum að fresta prófi og tilkynna ábyrgðarmanni ökuprófa.
Ökukennari fær í hendur ljósrit af athugasemd og ber honum að koma hlutum í lag fyrir næsta próf, annars fer það ekki fram.
Þegar prófi er frestað telst það ekki til próftilraunar og getur próftaki því reynt við próf við fyrsta tækifæri.
Nota skal eyðublaðið; Athugasemdir prófdómara vegna ástands eða búnaðar prófbifreiða
2.4.6 Próf á sérbúið ökutæki fyrir ökumann með hreyfihömlun
Bifreið, sem sérstaklega er búin fyrir hreyfihamlaðan ökumann, má próftaki nota við verklegt próf að fengnu samþykki Samgöngustofu.
Um hemla og spegla gildir hið sama og fyrir B-flokk. Ef bifreiðin er með handstýrðum hemlabúnaði til að nota með hægri hendi fellur brott áskilnaður um hemlafetil við sæti ökukennara ef einnig er unnt án erfiðleika að nota handstýrða hemlabúnaðinn úr sæti ökukennarans.
2.4.7 Aðkoma ökukennara
Ökukennara er ekki heimilt að vera viðstaddur bókleg eða verkleg próf eða að koma fram sem aðstoðarmaður við framkvæmd prófa nema með samþykki deildarstjóra ökuprófa. Honum er þó heimilt að taka þátt í framkvæmd á verklegu prófi í AM-, A1-, A2- og A-flokki samkvæmt próflýsingu.