Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók fyrir námsefnishöfunda

Gæðaviðmið fyrir námsefni og leiðbeiningar um frágang texta og mynda.

Námsgagnasvið

    Leiðbeiningar um frágang texta og mynda

    Leiðbeiningarnar miða að því að tryggja vandaðan, samræmdan og faglegan frágang á námsefni, hvort sem um er að ræða prentað efni eða stafræna birtingu hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Höfundar, ritstjórar og þau sem vinna með texta og myndefni geta stuðst við þessar leiðbeiningar til að auðvelda alla vinnslu, frá ritun til hönnunar og útgáfu.

    Farið er yfir helstu atriði sem varða innslátt texta, uppsetningu mynda og annað sem hefur áhrif á útlit og framsetningu efnis. Með því að fylgja þessum leiðbeiningum verður efnið faglegra, aðgengilegra og einfaldara í hönnun og umbroti – sem flýtir fyrir ferlinu frá hugmynd að útgefnu efni.

    Hafa ber í huga varðandi myndir:

    Höfundaréttur

    Við val og notkun myndefnis í námsefni ber að gæta höfundaréttar og tryggja að allar heimildir séu lögmætar og viðurkenndar.

    • Höfundur eða Miðstöð menntunar og skólaþjónustu (MMS) skulu hafa fullan rétt til að birta og dreifa myndum sem notaðar eru í námsefni.

    • Ekki má teikna, birta eða endurgera persónur, fígúrur, vörulógó eða annað sem er tekið úr höfundavörðu efni (t.d. kvikmyndum, bókum eða tölvuleikjum) nema með skriflegu leyfi rétthafa.

    Forðast auglýsingar og vörutengingar

    Námsefni skal ekki innihalda auglýsingar, hvorki beinar né duldar. Forðast skal að nota myndefni eða textadæmi sem vísa með óbeinum hætti í vörumerki, fyrirtæki eða þjónustu. Dæmi um hvað skal forðast:

    • Ljósmyndir með áberandi vörulógóum, merkingum eða vörum í forgrunni/bakgrunni.

    • Verkefni eða texta þar sem kemur fyrir kynning á tiltekinni vöru eða þjónustu.

    • Nafngreindar sögupersónur sem tengjast þekktum vörum eða viðskiptamerkjum.

    Námsefni fyrir börn og ungmenni skal vera óháð hagsmunatengslum og laust við hvers kyns markaðsáhrif. Slík óhlutdrægni styrkir fagmennsku efnisins og verndar sjálfstæði nemenda sem lesenda og þátttakenda.

    Þegar myndefni er skilað á rafrænu formi fyrir prentun eða stafræna miðlun skal fylgja þessum leiðbeiningum:

    Litastillingar skjás

    Tryggja skal að skjárinn sé rétt litastilltur til að litanákvæmni haldist í prentun.

    Litakerfi mynda

    Litmyndum skal skila í RGB eða CMYK litakerfi.

    Ef myndir eru skannaðar af pappír skal bakgrunnur/myndin vera hreinsuð.

    Myndir skulu vera í Assign profile – Adobe RGB (1998).

    Ekki þarf að breyta RGB-myndum í CMYK, þar sem unnið er í RGB-vinnuflæði.

    Vista skal myndir með RGB-prófíl frá Iðunni og Samtökum iðnaðarins.

    Nánari upplýsingar um litastillingar má finna hér.

    Myndir í tveimur litum

    Myndir sem eiga að vera prentaðar í tveimur litum (blanda af tveimur litum) skal vista í DUOTONE-formati.

    Aukalit skal skilgreina sem Pantone-lit (nákvæmlega sama lit og verður notaður í umbroti).

    Svarthvítar myndir

    Svarthvítum myndum skal skila í TIFF-formati vistaðar sem grátóna (greyscale).

    Ef svarthvítar myndir fara í fjögurra lita prentun (CMYK), skal vista þær í RGB.

    Punktaupplausn (DPI)

    Myndir: Punktaupplausn skal vera 300 dpi og 150 dpi fyrir myndir á vefmiðla.

    Teikningar: Punktaupplausn skal vera 600 dpi.

    Prufuútkeyrsla

    Gott er að velja fáeinar myndir til prufuútkeyrslu, til að tryggja rétt gæði og litanákvæmni, áður en öllu efni er skilað.

    Skráarsnið

    .png: Fyrir myndir með gagnsæi eða skýrum línum.

    .jpg/.jpeg: Fyrir myndir með miklum litablæbrigðum.

    .svg: Fyrir einfaldar vektormyndir og tákn (sérstaklega gott fyrir vefmiðla).

    Heiti myndaskráa

    Best er ef nafn myndar lýsir myndinni, t.d. barn_med_bolta.jpg frekar en IMG_6789.jpg

    Best er að nota ekki íslenska stafi eða bil. Nota frekar - eða _