Handbók fyrir námsefnishöfunda
Þjónustuaðili:
Gæðaviðmið fyrir námsefni og leiðbeiningar um frágang texta og mynda.
Námsgagnasvið
Gæðaviðmið fyrir námsefni
Gæðaviðmiðin eru sett fram til að styðja við höfunda, ritstjóra og aðra sem koma að gerð námsefnis fyrir íslenskt skólakerfi. Þau byggja á gildandi lögum um námsgögn, aðalnámskrá grunnskóla og menntastefnu til ársins 2030. Viðmiðin ná yfir allt ferlið frá hugmyndavinnu að fullbúnu námsefni og eru flokkuð í þrjá flokka: kennslufræðileg og fagleg atriði, efnistök og skipulag og svo framsetning og miðlun. Með því að fylgja þessum viðmiðum aukast líkur á að námsefnið verði hágæða, aðlaðandi og í samræmi við settar kröfur.
Viðmiðin eru flokkuð í þrjá meginflokka:
Kennslufræðileg og fagleg atriði
Efnistök og skipulag
Framsetning og miðlun
Í hverjum flokki eru 3–4 gæðaviðmið, lýsing á þeim og matskvarði. Þannig er hægt að meta efnið með markvissum hætti og sjá hvar styrkleikar liggja og hvar bæta má úr.
Efni kaflans
Námsefnið skal byggja á traustum kennslufræðilegum grunni og styðja við nám og kennslu á markvissan hátt. Það skal taka mið af námskrá, vera vandað frá faglegu sjónarhorni og miða að því að efla skilning og færni nemenda.
1.1 Samræmi við lög um námsgögn, aðalnámskrá og alþjóðleg viðmið
GÆÐAVIÐMIÐ: Námsefnið er í samræmi við gildandi lög um námsgögn, viðeigandi aðalnámskrá og viðurkennd alþjóðleg viðmið í námsefnisgerð. Nánari útskýring á kröfu: Námsefnið uppfyllir þær kröfur sem settar eru fram í lögum og aðalnámskrá. Það byggir á hæfniviðmiðum viðkomandi námsgreinar og tengist lykilhæfni og grunnþáttum menntunar á markvissan hátt. Með öðrum orðum er efnið í takt við hæfniviðmið og inntak aðalnámskrár. Auk þess er það í takt við alþjóðleg gæðaviðmið í námsefnisgerð, s.s. þau sem sett eru fram af Unesco og OECD. Slík viðmið leggja áherslu á að námsefni sé í samræmi við námskrár, mæti fjölbreyttum þörfum nemenda, styðji við virkt og markvisst nám og sé sett fram á skýran og aðgengilega hátt.
Matskvarði | Lýsing á matskvarða |
1 „Ófullnægjandi“ Efnið er ekki í samræmi við gildandi aðalnámskrá né lög. | |
2 „Sæmilega“ Efnið fylgir námskrá að hluta en vantar mikilvæga þætti. | |
3 „Vel“ Efnið er að mestu leyti í samræmi við námskrá en bæta má ákveðin atriði. | |
4 „Mjög vel“ Efnið er í alla staði í samræmi við námskrá og styður við hæfniviðmið á markvissan hátt. |
1.2 Samræmi við menntastefnu 2030
GÆÐAVIÐMIÐ: Námsefnið styður við markmið menntastefnu 2030 og fimm grunnstoðir hennar. Nánari útskýring á kröfu: Námsefnið stuðlar að hæfni nemenda til að takast á við áskoranir samtímans með menntastefnu 2030 að leiðarljósi. Áhersla er lögð á stoðirnar:
Jöfn tækifæri fyrir öll – Efnið stuðlar að jafnrétti í námi, er aðgengilegt fyrir nemendur óháð uppruna, kyni, færni eða félagslegum aðstæðum. Það tekur mið af fjölbreyttum námsþörfum og styður einstaklingsmiðað nám.
Kennsla í fremstu röð – Námsefnið byggir á nýjustu rannsóknum og bestu kennsluaðferðum. Það styður við fagmennsku kennara og eflir gagnrýna hugsun, sjálfstæð vinnubrögð og skapandi nálgun í námi.
Hæfni fyrir framtíðina – Efnið undirbýr nemendur fyrir áskoranir framtíðarinnar með áherslu á sjálfbærni, stafræna færni, nýsköpun, skapandi lausnaleit og þverfaglega nálgun. Það stuðlar að virðingu fyrir náttúru, fjölbreytileika lífs og mikilvægi umhverfisverndar, auk meðvitundar um ábyrga og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Námsefnið ætti að efla siðferðilega og samfélagslega ábyrgð nemenda í anda menntunar til sjálfbærrar þróunar og hvetja til lýðræðislegrar þátttöku og skilnings á samfélagslegum breytingum.
Vellíðan í öndvegi – Námsefnið stuðlar að jákvæðu námsumhverfi, eykur virkni og þátttöku nemenda og styður félagslega og tilfinningalega vellíðan. Það gefur rými fyrir samvinnu, samskiptafærni og áhugahvetjandi viðfangsefni.
Gæði í forgrunni – Efnið er vel uppbyggt, aðgengilegt, fjölbreytt og uppfyllir faglegar kröfur um nám og kennslu. Það stuðlar að skilningi, sjálfstæðri hugsun og gefur nemendum tækifæri til að tengja námið við eigin reynslu og samfélagið í heild.
Matskvarði | Lýsing á matskvarða |
1 „Ófullnægjandi“ Efnið er ekki í samræmi við markmið menntastefnu 2030 og styður ekki við grunnstoðir hennar. | |
2 „Sæmilega“ Efnið tengist að einhverju leyti menntastefnu 2030 en vantar markvissa nálgun til að styðja við grunnstoðir hennar. | |
3 „Vel“ Efnið er í samræmi við menntastefnu 2030 en vantar dýpri útfærslu á tilteknum þáttum, svo sem sjálfbærni, nýsköpun eða vellíðan nemenda. | |
4 „Mjög vel“ Efnið er markvisst þróað með menntastefnu 2030 að leiðarljósi og endurspeglar skýra áherslu á grunnstoðir hennar í kennsluháttum og viðfangsefnum. |
1.3 Mannréttindi og jafnrétti
GÆÐAVIÐMIÐ: Námsefnið leggur áherslu á mannréttindi og jafnrétti. Nánari útskýring á kröfu: Námsefnið er laust við fordóma, t.d. vegna búsetu, fötlunar, kyns, kynhneigðar, stéttar eða trúarbragða. Það vinnur gegn hvers konar viðhorfum sem ýta undir eða viðhalda misrétti eða kynþáttafordómum. Einnig er tekin afdráttarlaus afstaða gegn hvers kyns ofbeldi og kúgun.
Námsefnið fjallar um málefni minnihlutahópa af virðingu og í þeim tilgangi að nemendur úr öllum hópum geti samsamað sig efninu. Fjallað er með eðlilegum og uppbyggilegum hætti um fjölbreyttan bakgrunn fólks og aðstæður ólíkra nemenda.
Jafnrétti kynja er virt í námsefninu. Forðast er að hafa einhliða eða staðalímyndaða umfjöllun um kynin; jafnvægi er í kynjahlutfalli í texta og myndum. Börn og fullorðnir eru sýnd í fjölbreyttum hlutverkum, ekki eingöngu hefðbundnum kynjahlutverkum.
Þegar fjallað er um aðrar þjóðir eða ákveðna hópa fólks í efninu er gætt að því að forðast alhæfingar eða neikvæðar staðalímyndir. Umfjöllunin er málefnaleg og ýkjulaus, bæði í máli og myndum.
Matskvarði | Lýsing á matskvarða |
1 „Ófullnægjandi“ Efnið uppfyllir ekki þessa kröfu um jafnrétti og mannréttindi eða gerir það aðeins í mjög litlum mæli. Fordómar eða misrétti kunna að birtast í efninu. | |
2 „Sæmilega“ Efnið uppfyllir kröfuna að hluta en mikilvæga þætti vantar. Til staðar gætu verið sum atriði sem þarf að lagfæra til að eyða hugsanlegum skekkjum eða fordómum. | |
3 „Vel“ Efnið uppfyllir viðmiðið að mestu leyti og nær til flestra mikilvægra þátta varðandi mannréttindi og jafnrétti, þó að það megi bæta við smáatriðum eða skerpa á. | |
4 „Mjög vel“ Efnið uppfyllir viðmiðið í öllum atriðum og fer jafnvel lengra en krafist er. Það er til fyrirmyndar hvað varðar mannréttinda- og jafnréttissjónarmið og sýnir mjög mikil gæði á því sviði. |
1.4 Fræðileg nákvæmni og áreiðanleiki
GÆÐAVIÐMIÐ: Námsefnið byggir á viðurkenndum fræðilegum heimildum og nýjustu rannsóknum. Nánari útskýring á kröfu: Efnið er byggt á áreiðanlegum fræðilegum heimildum og nýjustu rannsóknum. Þetta þýðir að upplýsingarnar í námsefninu eru réttmætar, uppfærðar og byggðar á staðreyndum. Efnið fylgir viðurkenndum vísindalegum stöðlum og tekur mið af nýjustu þekkingu á viðfangsefninu. Ef notast er við úreltar eða óáreiðanlegar upplýsingar, eða ef efnið inniheldur villur, þá stenst það ekki þessa kröfu.
Matskvarði | Lýsing á matskvarða |
1 „Ófullnægjandi“ Efnið byggir á ónákvæmum eða úreltum heimildum. Fræðilegur grunnur er veikur eða ómarktækur. | |
2 „Sæmilega“ Efnið byggir að hluta til á viðurkenndum heimildum en vantar nýjustu upplýsingar og/eða hefur að geyma nokkrar villur eða úreltar staðreyndir. | |
3 „Vel“ Efnið byggir að mestu á áreiðanlegum og nýlegum heimildum. Þó mætti uppfæra eða bæta við nokkur smáatriði til að auka nákvæmni. | |
4 „Mjög vel“ Efnið byggir á nýjustu rannsóknum og áreiðanlegum fræðilegum heimildum. Fræðileg nákvæmni er til fyrirmyndar og engar úreltar upplýsingar finnast. |
Efni kaflans
Námsefnið skal vera skýrt uppbyggt og auðvelt í notkun. Röðun efnisþátta, flæði, samfella og tengsl milli kafla þurfa að styðja við árangursríkt nám. Verkefni, texti og myndefni skulu mynda heild þar sem stígandi er eðlileg og efnið aðgengilegt fyrir markhóp sinn.
2.1 Markmið og tilgangur
GÆÐAVIÐMIÐ: Markmið og tilgangur námsefnisins eru skýr. Nánari útskýring á kröfu: Markmið og tilgangur námsefnisins koma skýrt fram, t.d. í formála, inngangi eða kennsluleiðbeiningum, þar sem einnig kemur fram hverjum efnið er ætlað og hvaða hæfni eða þekkingu nemendur eiga að öðlast. Námsefnið sjálft er auðskilið og hefur greinilegan tilgang sem nemendur og kennarar átta sig strax á frá upphafi.
Matskvarði | Lýsing á matskvarða |
1 „Ófullnægjandi“ Markmið námsefnisins eru óskýr eða alls ekki til staðar. | |
2 „Sæmilega“ Markmið eru til staðar en gætu verið betur útskýrð eða skiljanlegri. Tilgangur efnisins kemur að hluta fram en ekki nógu greinilega. | |
3 „Vel“ Markmið eru skýr og hjálpa til við að afmarka námsefnið og bæta námsferlið. | |
4 „Mjög vel“ Markmið og tilgangur eru mjög skýr. Þau vekja áhuga og hvetja nemendur til virks náms og djúps skilnings á efninu. |
2.2 Skipulag námsefnis
GÆÐAVIÐMIÐ: Uppbygging námsefnis er vel skipulögð og í góðu samhengi. Nánari útskýring á kröfu: Efnið er vel uppbyggt þannig að hver kafli eða námseining tengist eðlilega því sem á undan kemur og því sem á eftir fer. Röð kafla eða verkefna fylgir rökréttri framvindu (stígandi) sem auðveldar nemendum að byggja ofan á fyrri þekkingu. Upplýsingar um heildaruppbyggingu námsefnisins og tengsl milli hluta þess koma fram á einfaldan og skiljanlegan hátt, þannig að bæði kennarar og nemendur geti auðveldlega áttað sig á strúktúr efnisins.
Matskvarði | Lýsing á matskvarða |
1 „Ófullnægjandi“ Skipulag efnisins er óskýrt og ruglingslegt. Framvinda eða röð efniseininga virðist tilviljanakennd og erfitt er að sjá samhengi. | |
2 „Sæmilega“ Skipulag er viðunandi en nokkurt ósamræmi eða óskýrleiki. | |
3 „Vel“ Skipulag efnisins er skýrt. Efniseiningar tengjast vel og eðlilegt flæði er milli kafla/þátta. Auðvelt er að fylgja efninu eftir í réttri röð. | |
4 „Mjög vel“ Skipulag efnis er mjög vel útfært: uppbyggingin er rökrétt, skýr og styður afar vel við nemendur. |
2.3 Aðgengi og læsileiki námsefnis
GÆÐAVIÐMIÐ: Námsefnið er vel skrifað og skýrt, með vandað málfar og gott aðgengi fyrir markhópinn. Nánari útskýring á kröfu: Framsetning námsefnis er þannig að nemendur geta auðveldlega lesið það og skilið. Orðaval og setningagerð er sniðin að viðeigandi markhópi (aldurs- og þroskastigi nemenda) og tryggir að efnið sé aðgengilegt, skýrt og skiljanlegt. Það er einnig laust við ónákvæmni, stafsetningar- eða málfræðivillur sem annars gætu dregið úr gildi þess eða valdið misskilningi.
Matskvarði | Lýsing á matskvarða |
1 „Ófullnægjandi“ Málfar efnisins er óskiljanlegt eða mjög óvandað. Textinn kann að vera stirður eða innihalda mikið af óskýrum setningum og/eða villum sem gera nemendum erfitt fyrir. | |
2 „Sæmilega“ Efnið er almennt skiljanlegt en sumir hlutar eru óskýrir, ruglandi eða innihalda villur sem þarf að laga. | |
3 „Vel“ Efnið hentar markhópnum að mestu leyti, þó það megi bæta við smáatriðum. | |
4 „Mjög vel“ Efnið er sérsniðið að markhópnum og hentar honum fullkomlega hvað varðar málfar og uppsetningu. |
Efni kaflans
Námsefnið skal vandað í framsetningu, skipulega framsett og miðlað á fjölbreyttan hátt. Texti, myndefni og verkefni eiga að styðja hvert annað og höfða til nemenda í samræmi við aldur og þekkingarstig þeirra. Rafrænt viðbótarefni (ef við á) skal einnig efla skilning og gera námið aðgengilegra.
3.1 Áhugahvetjandi og aðlaðandi framsetning
GÆÐAVIÐMIÐ: Námsefnið er áhugahvetjandi, aðlaðandi og styður við jákvætt viðhorf nemenda til náms. Nánari útskýring á kröfu: Námsefnið er framsett á þann hátt að það vekur áhuga og forvitni nemenda. Það gefur nemendum tækifæri til að nálgast viðfangsefnið á margvíslegan hátt út frá ólíkum áhugasviðum og stuðlar að virkri þátttöku þeirra í náminu. Myndræn útfærsla (s.s. uppsetning og notkun mynda) styður vel við innihald efnisins og gerir námið aðgengilegra.
Áhugahvetjandi námsefni auðveldar nemendum að tileinka sér nýja þekkingu og færni. Rannsóknir sýna að áhugi nemenda hefur jákvæð áhrif á lesskilning og því mikilvægt að efnið sé hvetjandi, sjónrænt aðlaðandi og framsett á fjölbreyttan hátt sem styður við hæfniviðmið og grunnþætti menntunar. Einnig skiptir máli að samræmi sé í framsetningu efnisins (stíll, letur, litir, notkun mynda, uppsetning verkefna o.s.frv.) svo það sé notendavænt og faglegt.
Matskvarði | Lýsing á matskvarða |
1 „Ófullnægjandi“ Efnið er ekki áhugahvetjandi, takmarkar þátttöku nemenda og hefur litla sjónræna eða fjölbreytta framsetningu. | |
2 „Sæmilega“ Efnið er að hluta áhugahvetjandi en skortir fjölbreytni í framsetningu eða er ekki nægilega aðlaðandi. | |
3 „Vel“ Efnið er áhugahvetjandi, gefur nemendum möguleika á mismunandi nálgunum og er sjónrænt aðgengilegt. | |
4 „Mjög vel“ Efnið er mjög áhugahvetjandi, vekur forvitni, nýtir fjölbreytta framsetningu og styður jákvætt viðhorf til náms. |
3.2 Nemendamiðað nám / Markhópur
GÆÐAVIÐMIÐ: Námsefnið er sniðið að þörfum og hæfni markhópsins. Nánari útskýring á kröfu: Námsefnið er viðeigandi miðað við aldur, þekkingu og færni nemenda sem eiga að nota það. Efnið tekur mið af mismunandi námsþörfum innan markhópsins (t.d. býður það upp á viðbótarstuðning eða áskoranir eftir þörfum) og er aðgengilegt öllum nemendum, óháð bakgrunni eða fyrri þekkingu. Með öðrum orðum er námsefnið sveigjanlegt og gerir ráð fyrir fjölbreytileika nemendahópsins.
Matskvarði | Lýsing á matskvarða |
1 „Ófullnægjandi“ Efnið er alls ekki sniðið að markhópnum og þarfnast verulegra endurbóta. | |
2 „Sæmilega“ Efnið hentar markhópnum að hluta til en þarfnast endurbóta. | |
3 „Vel“ Efnið er almennt viðeigandi fyrir markhópinn en þarf einhverja aðlögun. | |
4 „Mjög vel“ Efnið mætir þörfum og hæfni markhópsins. Það er mjög nemendamiðað, kemur til móts við ólíkar námsþarfir og nær til allra nemenda í markhópnum. |
3.3 Útlit og frágangur
GÆÐAVIÐMIÐ: Efnið er faglega sett fram með góðu útliti og vönduðum frágangi. Nánari útskýring á kröfu: Útlit og frágangur námsefnisins er í samræmi við fagleg viðmið. Efnið er skipulega uppsett, með skýru leturvali, góðri og viðeigandi notkun mynda/greiningar og samræmdri hönnun. Þessi sjónrænu atriði auðvelda lestur, auka skilning og gera námsefnið aðlaðandi. Faglegt útlit og frágangur eykur einnig trúverðugleika efnisins og gerir notendum kleift að einbeita sér að innihaldinu án truflunar.
Matskvarði | Lýsing á matskvarða |
1 „Ófullnægjandi“ Efnið hefur slæmt útlit og frágang. | |
2 „Sæmilega“ Efnið hefur ófullnægjandi útlit eða er illa uppsett. | |
3 „Vel“ Efnið hefur gott útlit en suma sjónræna þætti mætti bæta. | |
4 „Mjög vel“ Efnið er faglegt útlits og vel framsett með myndrænum og sjónrænum þáttum. |
3.4 Fjölbreytt miðlun
GÆÐAVIÐMIÐ: Efnið býður upp á fjölbreytta nálgun og miðlun. Nánari útskýring á kröfu: Námsefninu er miðlað með margvíslegum hætti, t.d. með texta, myndefni, hljóði, myndböndum og/eða gagnvirkum þáttum. Fjölbreytt miðlun tryggir að námsefnið nái til sem flestra nemenda með ólíka styrkleika og áhugasvið. Með blöndu ólíkra miðla verður námið lifandi og nemendur fá fleiri en eina leið til að nálgast og skilja efnið.
Matskvarði | Lýsing á matskvarða |
1 „Ófullnægjandi“ Efnið býður ekki upp á neina fjölbreytni í miðlun. Það notast nær eingöngu við einn miðil (t.d. bara texta) og nær því illa til nemenda með ólíkar þarfir. | |
2 „Sæmilega“ Efnið býður upp á nokkra fjölbreytni í miðlun (t.d. texta og myndefni) en nýtir ekki að fullu þá möguleika sem mismunandi miðlar bjóða upp á. Sumir nemendur fá því ekki nægilegt val eða fjölbreyttar leiðir til að læra efnið. | |
3 „Vel“ Efnið er fjölbreytt í miðlun. Það notar marga mismunandi miðla (texta, myndir, hljóð o.s.frv.) til að koma efninu til skila og nær þannig til flestra nemenda. | |
4 „Mjög vel“ Efnið nýtir fjölbreytta miðlun afar vel. Texti, myndir, hljóð, myndbönd og/eða gagnvirkni vinna saman í vel útfærðri heild til að hámarka skilning og áhuga allra nemenda. Ólíkir nemendur geta valið mismunandi leiðir til að tileinka sér efnið og allir fá jafnt tækifæri til náms. |