Handbók fyrir námsefnishöfunda
Þjónustuaðili:
Gæðaviðmið fyrir námsefni og leiðbeiningar um frágang texta og mynda.
Námsgagnasvið
Leiðbeiningar um frágang texta og mynda
Leiðbeiningarnar miða að því að tryggja vandaðan, samræmdan og faglegan frágang á námsefni, hvort sem um er að ræða prentað efni eða stafræna birtingu hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Höfundar, ritstjórar og þau sem vinna með texta og myndefni geta stuðst við þessar leiðbeiningar til að auðvelda alla vinnslu, frá ritun til hönnunar og útgáfu.
Farið er yfir helstu atriði sem varða innslátt texta, uppsetningu mynda og annað sem hefur áhrif á útlit og framsetningu efnis. Með því að fylgja þessum leiðbeiningum verður efnið faglegra, aðgengilegra og einfaldara í hönnun og umbroti – sem flýtir fyrir ferlinu frá hugmynd að útgefnu efni.
Efni kaflans
Innsláttur
Höfundur skal skila texta á rafrænu formi.
Til að tryggja rétta uppsetningu skal fylgja þessum reglum:
Greinaskil skal slá inn með vendihnappi (Enter).
Inndráttur skal gerður með dálkahnappi (Tab), ekki bilstöng.
Ekki slá inn tvö bil á milli orða.
Ekki bæta við auðum línum til að láta texta færast á réttar síður. Ef nauðsynlegt er að skipta síðum skal nota
föstu síðuskilin (Page Break) í ritvinnsluforritinu.
Myndir: Afmarka skal pláss fyrir myndir með greinilegum merkjum þar sem þær eiga að koma í textanum, ekki með auðum línum. Ef um margar myndir er að ræða er gott að aðgreina þær eftir köflum/síðum.
Ef svo ber undir er gott að gefa upp stærð myndar í sentímetrum (hæð x breidd), t.d.: Mynd nr. 1–6x10 cm og gera ráð fyrir myndatexta.Hafa ber í huga að ef höfundar senda myndir þarf að fylgja með hvaðan þær eru fengnar og að leyfi sé fyrir birtingu. Sjá nánar um frágang á myndefni hér á eftir.
Textauppsetning og lestraraðlögun
Þegar verið er að skrifa námsefni – sérstaklega lestrarbækur eða efni fyrir yngri lesendur – skiptir máli að huga að lestrarflæði og hönnun sem styður við skilning og ánægjulega lestrarupplifun. Hér eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga við textauppsetningu:
Brjóta skal texta upp með lestrarbilum þegar þess er þörf svo texti verði ekki of yfirþyrmandi á síðum eða opnum.
Þess skal gætt að bakgrunnur trufli ekki lestur, t.d. með því að forðast texta yfir mynstri eða myndum.
Forðast skal nástöðu orða.
Ekki ætti að enda línu á smáorði eða forsetningu – betra er að þær fylgi orðinu sem þær stýra, til að tryggja eðlilega hrynjandi og hljómfall, t.d. við upplestur.
Gott er að endurtaka lykilorð/orðmyndir með reglulegu millibili og nota samheiti orða þegar tækifæri gefst í textanum. Það á sérstaklega við í námsefni fyrir yngri nemendur.
Upptalningar í texta
Þegar upptalning felur í sér stök orð eða stuttar setningar, skal skilja eftir auða línu á undan og byrja alltaf fremst í línu. Dæmi:

Ekki þarf punkt aftast í hverja línu en samræmi er lykilatriði.
Þegar upptalningu lýkur heldur næsta efnisgrein áfram án þess að línan sé dregin inn en með auðri línu á milli upptalningar og áframhaldandi texta.
Sé upptalning löng samfelld málsgrein, skal setja greinarmerki eins og í venjulegum texta.
Töflur og dálkar
Nota skal dálkastillingu í ritvinnsluforriti fyrir töflur.
Aðeins skal nota eitt dálkastillimerki á milli dálka.
Ekki nota orðabil til að stilla texta innan taflna.
Höfundur skal ráðfæra sig við sérfræðing í námsgagnagerð eða útgáfustjóra Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu ef vafi er á hvernig á að setja töflur upp.
Letur og leturbreytingar
Allar leturbreytingar þurfa að koma fram í textaskjalinu, s.s. skáletrun (Italic) eða feitletrun (bold).
Auðkenning texta
Skáletrun er aðallega notuð til áherslu og auðkenningar.
Bókatitlar, ljóðabálkar, leikrit, tímarit, dagblöð og kvikmyndir skulu skáletraðar.
Dæmi: Randalín og Mundi, Blái hnötturinn, Fjölnir, Ljósvíkingar.
Vefslóðir eru ekki skáletraðar heldur á vefheiti að vera blátt.
Titlar einstakra ljóða, smásagna og ritgerða mega vera innan gæsalappa en það er ekki nauðsynlegt.
Dæmi: „Grimmd“, „Jón í Brauðhúsum“, „Að hugsa á íslensku“.
Feitletrun á að nota sparlega.
Undirstrikun ætti aðeins að nota í undantekningartilvikum.
Fyrirsagnir
Fyrirsagnir eiga að auðvelda lestur og skilning. Þær sýna hvað er samstætt og hvað er undirskipað öðru. Mikilvægt er að aðgreina:
Aðalfyrirsagnir/Kaflaheiti (Heading 1)
Millifyrirsagnir (Heading 2)
Undirfyrirsagnir ef við á (Heading 3 …)
Til að gera þessa skiptingu sýnilega má nota:
Mismunandi leturstærðir
Skáletrun (sparlega þó)
Feitletrun
Aldrei skal setja punkt á eftir fyrirsögnum.
Æskilegt er að efnisyfirlit fylgi með til að betur sé hægt að átta sig á uppbyggingu efnisins og hvort að fyrirsagnir séu í réttu Heading.
Tilvitnanir, tilvísanir til heimilda og heimildaskrá
Tilvitnanir í texta annarra
Tilvitnanir skulu vera stafréttar, nema annað sé tekið fram (t.d. við forna texta).
Heimildar skal greinilega getið samkvæmt almennum reglum um tilvísanir.
Algengast er að nota tilvísunartölur í meginmáli, sem vísa í neðanmálsgrein eða aftanmálsgrein.
Röðun í heimildaskrá
Heimildaskrá skal fylgja ákveðnu skipulagi: Höfundur, útgáfuár, titill, útgáfustaður, útgefandi.
Samræmi í framsetningu er lykilatriði. Punkt má nota á milli liða en mikilvægt er að halda sig við eina samræmda reglu.
Dæmi um uppsetningu heimilda:
Gibaldi, Joseph og Walter S. Achtert. (1980). MLA Handbook for Writers of Research Papers, Theses, and Dissertations. New York. Modern Language Association.
Halldór Laxness. (1957). Brekkukotsannáll. Reykjavík. Helgafell.
Heimir Pálsson. (1982). Straumar og stefnur í íslenskum bókmenntum frá 1550. 2. útgáfa, endurskoðuð og breytt. Reykjavík. Iðunn.
Heimskringla. Lykilbók. (1991). Ritstjórar: Bergljót S. Kristjánsdóttir, Bragi Halldórsson, Jón Torfason og Örnólfur Thorsson. Reykjavík. Mál og menning.
Höskuldur Þráinsson. (1980). „Leiðbeiningar um frágang handrita.“ Íslenskt mál 2:257–262.
Frágangur rafræns efnis
Þegar texti er skrifaður til birtingar á vef, þarf að hafa eftirfarandi í huga:
Textaskrif
Skrifa skal stutta og hnitmiðaða texta. Texti á vef þarf að vera mun styttri en prentaður texti. Algengt viðmið er að hann eigi að vera helmingi styttri. Rannsóknir sýna að notendur forðast að nota skrunstiku.
Skrifa skal textann út frá þörfum notandans. Flestir notendur skanna texta í stað þess að lesa hann. Fólk vill finna hratt og örugglega svar við því sem það leitar að.
Skipuleggja skal texta með skýrum fyrirsögnum og undirfyrirsögnum.
Nota skal punktalista til að gera efnið skiljanlegra og til að draga fram aðalatriði.
Setja skal mikilvægasta efnið efst á síðuna eða í greinina.
Forðast ber að nota hástafi, slík stílbrigði hægja á lestri.
Síðutitill (Heading 1) / Titill greinar
Gott er að miða við að síðutitill (H1) sé ekki lengri en 65 stafabil (Google birtir eingöngu fyrstu 65 stafabilin).
Titillinn þarf að vera lýsandi um efni síðunnar og geta staðið einn og sér, t.d. í leitarniðurstöðum.
Titillinn ætti að innihalda helstu lykilorð, helst fremst í titlinum.
Fyrirsagnir
Þurfa að vera lýsandi.
Fólk skannar fyrirsagnir og undirfyrirsagnir til að sjá hvort það sé á réttum stað.
Lykilorð
Gott er að taka saman öll lykilorðin eða setningar sem fylgja hverri síðu/grein. Þetta styður við flokkun á efninu og leitarvélabestun.
Stiklutexti getur verið góð lausn en hann krefst meira skipulags en línulegur texti.
PDF-skjöl undanskilin: Reglurnar hér að ofan eiga almennt ekki við PDF-skjöl, þar sem þau eru hönnuð fyrir útprentun.
Beinar tilvitnanir
Þegar notaðar eru beinar tilvitnanir í lestrarbókum eða öðru námsefni er mikilvægt að þær séu settar fram á aðgengilegan og samræmdan hátt. Hér eru nokkrar meginreglur:
Gæsalappir („…“)
Gæsalappir eru notaðar þegar tilvitnun er hluti af samfellu í frásögn og markmiðið er að sýna nákvæmlega hvað persóna segir. Þetta form hentar einkum:
í hefðbundnum skáldsögum og frásögnum í þriðju persónu
þegar frásögn skiptist á milli beins máls og sögumanns
Dæmi:
Hún horfði á hann og sagði: „Ég ætla ekki með.“
Þankastrik (–)
Þankastrik eru oft notuð í stað gæsalappa þegar bein ræða stendur ein og sér, sérstaklega í samtölum. Slík framsetning er einfaldari í lestri og hentar vel yngri lesendum. Algengt er að nota slíkt:
í lestrarbókum fyrir börn eða unglinga
í samtölum þar sem hver lína stendur sjálfstæð
þegar áhersla er á samtalsflæði fremur en sögulegan frásagnarstíl
Dæmi:
– Ætlarðu að koma með?
– Ég veit það ekki enn.
Ekki skal blanda saman þankastrikum og gæsalöppum í sama texta eða kafla. Samræmi er lykilatriði.
Letur og framsetning
Tilvitnun má aðgreina frá megintexta, ef við á, með
skáletri
smærra letri
sérstöðu í umbroti (t.d. inndrætti, aukabili)
Uppruni tilvitnunar
Sé tilvitnun sótt úr annarri bók eða verki en sjálfu námsefninu skal tilgreina skýrt heimild:
Dæmi:
„Ég er ekki að fara aftur þangað,“ hvíslaði hún. (úr Fugl í fótfestu eftir Jónínu Leósdóttur)
„Þetta var versti dagur í lífi mínu – og samt var hann ekki búinn.“ (úr Sagan af Bláa hestinum eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur)
Frágangur tilvitnana: Línubil og inndráttur
Þegar beinar tilvitnanir koma fyrir í texta skal hafa þetta í huga varðandi línubil og inndrátt:
Stutt tilvitnun (innan setningar) á ekki að hafa aukabil á undan eða eftir, né inndrátt. Tilvitnunin er sett innan gæsalappa og er hluti af samfellu.
Dæmi:
Sigrún sagði: „Ég kem seinna í dag.“
„Það er gaman að heyra,“ sagði Páll.
Lengri tilvitnun (tvær til þrjár línur eða lengri), til dæmis úr ljóði eða öðru verki, skal aðgreina með línubili á undan og eftir. Inndráttur (um 0,5–1 cm) er æskilegur. Ekki þarf að nota gæsalappir eða þankastrik ef tilvitnunin er skýrt aðgreind í uppsetningu textans.
Dæmi:
Hún rifjaði upp hvað Pétur hafði skrifað:
Ég sá stjörnurnar blikna þegar ég lokaði augunum.
Þær vissu eitthvað sem við höfum gleymt.
Þetta hafði djúp áhrif á hana.
Samtal með þankastriki sem stendur eitt og sér krefst hvorki inndráttar né aukabila ef það er hluti af samfelldum texta. Línubil má þó nota ef samtalið er sett fram sem sjálfstæð eining, til dæmis í verkefnum eða til áherslu. Samræmi í framsetningu innan verks skiptir höfuðmáli.
Dæmi:
– Hvað ætlaðirðu eiginlega að gera?
– Ég … ég ætlaði bara að skoða.
– Þú mátt ekki fara þangað einn!
Textagerð fyrir lestrarefni
Þegar unnið er með texta, sem ætlaður er til lestraræfinga eða til að efla lesskilning nemenda, skiptir máli hvernig textinn er settur upp og með hvaða hætti hann leiðir lesandann áfram. Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:
Fyrir lestur
Byrja má á örstuttum inngangi með almennum upplýsingum um efnið: tilgang bókarinnar, lestrarráð, kynningu á persónum o.fl.
Útskýra má lykilhugtök eða -orð beint í meginmáli en einnig með neðanmálsgreinum eða á spássíu ef þörf krefur.
Nota má stakar spurningar eða ábendingar sem beina athygli nemenda að ákveðnum orðum, hugtökum eða merkingu.
Á meðan lesið er
Spurningar við texta (á spássíu eða neðanmálsgrein) geta stuðlað að dýpri skilningi og eflt lesskilning. Þær geta meðal annars tengst:
ályktunum eða lestri á milli línanna
eigin reynslu eða veruleika nemenda
orðskilningi og orðasamböndum
staðreyndum eða athugunum sem mikilvægt er að greina
tengingum við annað efni
Eftir lestur – úrvinnsla
Hvetja má til samræðu um efniviðinn þar sem nemendur draga fram aðalatriði, túlka söguþráð og tjá eigin viðhorf.
Bjóða má upp á skapandi eða myndræna úrvinnslu þar sem nemendur vinna með efnið á eigin forsendum.
Vinna með orð og hugtök úr textanum, til dæmis með ritunarverkefnum, teikningum eða sögusmíðum.
Efni kaflans
Réttritun
Fylgja skal ritreglum íslenskrar málnefndar. Gagnlegt er að fletta upp í malid.is. Starfsfólk hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og höfundar námsefnis skulu fylgja þessum reglum.
Um greinarmerki skal fylgja ritreglum íslenskrar málnefndar en þessar reglur um greinarmerki byggja á þeim.
Úrfelling
Úrfellingarpunktar (...) eru sérstakt tákn.
Ctrl + Alt + . (punktur) á PC
Option-l á Mac
Ef heilum orðum eða orðasamböndum er sleppt, skal vera orðabil á undan og eftir punktunum. Dæmi: Þá voru þau mætt ... eins og ekkert hefði í skorist.
Ef úrfellingarpunktar tákna hluta orðs, skal ekki vera orðabil á undan eða eftir. Dæmi: Hann sagði að þetta væri algj... en hætti við að klára orðið.
Þankastrik og bandstrik
Stutt bandstrik (-) er notað milli orðhluta í samsettum heitum:
Vestur-Skaftafellssýsla, íslensk-þýsk orðabók
Þankastrik (–) er notað í stað kommu eða sviga:
PC: Sláðu inn tvö bandstrik í röð, t.d. -- og haltu áfram að skrifa. Word breytir þessu oft sjálfkrafa í þankastrik: –
Mac: Option + bandstrik
Orðabil skal vera bæði á undan og eftir þankastriki
Þankastrik (millistrik) skal notað á milli tölustafa. Dæmi: Bls. 3–4.
Gæsalappir (tilvitnunarmerki)
„Íslenskar“ gæsalappir skulu notaðar í íslenskum texta.
Mac:
Opna gæsalappir („) → Option + ð
Loka gæsalappir (“) → Option + Shift + ð
PC:
Opna gæsalappir („) → Alt + 0132
Loka gæsalappir (“) → Alt + 0147
Samspil gæsalappa og greinarmerkja
Greinarmerki (komma, punktur, upphrópunarmerki, spurningarmerki) skulu vera innan gæsalappa nema þegar um einstakt orð eða brot úr setningu er að ræða. Dæmi:
„Þú sagðir „strax“ – meintirðu þá „eftir klukkutíma“?“
Gæsalappir eru ekki notaðar við langar tilvitnanir ef þær eru auðkenndar með skáletri, smærra letri eða inndrætti.
Svigar
Punkturinn kemur fyrir utan svigann ef innihald svigans er hluti af setningunni. Dæmi:
Hann hitti hana í gær (og það var í fyrsta sinn).
Ef svigar innihalda heila málsgrein, gilda hefðbundnar reglur um greinarmerki.
(Dæmi um þetta má finna í ritreglum Íslenskrar málnefndar.)
Tölur og tölustafir
Punktur er notaður í háum tölum til að auðvelda lestur: 13.000.000
Komma er notuð fyrir aukastafi: 1.345,5 kg
Stuttar tölur og stakar tölur eru skrifaðar með bókstöfum: „Það voru tíu börn á leikvellinum en við þurftum sextán til að hafa fullskipuð lið.“
Skammstafanir
Skammstafanir skulu notaðar í hófi, sérstaklega þegar skrifað er fyrir unga lesendur.
Punktur er notaður í skammstöfunum, nema þar sem hástafir eru notaðir fyrir nöfn félaga eða stofnana:
t.d., o.s.frv., f.Kr.
HÍ, KR
Dagsetningar eru ritaðar án bils:
24.11.1993
Í skammstöfunum eins og þ. á m. (þar á meðal) er orðabil notað, en ekki punktur á eftir á, þar sem það er ekki stytting.
Ekki er settur punktur í skammstöfunum í metrakerfinu:
kg, g, m
Punktur er ekki settur inni í orðum þótt fyrri hluti þeirra sé skammstafaður:
Khöfn, Rvík, o.þ.h.
Gráðumerki
Gráðumerki eru skráð með eftirfarandi hætti:
Breiddargráða 25° N
Hiti 12 °C
Hafa ber í huga varðandi myndir:
Höfundaréttur
Við val og notkun myndefnis í námsefni ber að gæta höfundaréttar og tryggja að allar heimildir séu lögmætar og viðurkenndar.
Höfundur eða Miðstöð menntunar og skólaþjónustu (MMS) skulu hafa fullan rétt til að birta og dreifa myndum sem notaðar eru í námsefni.
Ekki má teikna, birta eða endurgera persónur, fígúrur, vörulógó eða annað sem er tekið úr höfundavörðu efni (t.d. kvikmyndum, bókum eða tölvuleikjum) nema með skriflegu leyfi rétthafa.
Forðast auglýsingar og vörutengingar
Námsefni skal ekki innihalda auglýsingar, hvorki beinar né duldar. Forðast skal að nota myndefni eða textadæmi sem vísa með óbeinum hætti í vörumerki, fyrirtæki eða þjónustu. Dæmi um hvað skal forðast:
Ljósmyndir með áberandi vörulógóum, merkingum eða vörum í forgrunni/bakgrunni.
Verkefni eða texta þar sem kemur fyrir kynning á tiltekinni vöru eða þjónustu.
Nafngreindar sögupersónur sem tengjast þekktum vörum eða viðskiptamerkjum.
Námsefni fyrir börn og ungmenni skal vera óháð hagsmunatengslum og laust við hvers kyns markaðsáhrif. Slík óhlutdrægni styrkir fagmennsku efnisins og verndar sjálfstæði nemenda sem lesenda og þátttakenda.
Þegar myndefni er skilað á rafrænu formi fyrir prentun eða stafræna miðlun skal fylgja þessum leiðbeiningum:
Litastillingar skjás
Tryggja skal að skjárinn sé rétt litastilltur til að litanákvæmni haldist í prentun.
Litakerfi mynda
Litmyndum skal skila í RGB eða CMYK litakerfi.
Ef myndir eru skannaðar af pappír skal bakgrunnur/myndin vera hreinsuð.
Myndir skulu vera í Assign profile – Adobe RGB (1998).
Ekki þarf að breyta RGB-myndum í CMYK, þar sem unnið er í RGB-vinnuflæði.
Vista skal myndir með RGB-prófíl frá Iðunni og Samtökum iðnaðarins.
Nánari upplýsingar um litastillingar má finna hér.
Myndir í tveimur litum
Myndir sem eiga að vera prentaðar í tveimur litum (blanda af tveimur litum) skal vista í DUOTONE-formati.
Aukalit skal skilgreina sem Pantone-lit (nákvæmlega sama lit og verður notaður í umbroti).
Svarthvítar myndir
Svarthvítum myndum skal skila í TIFF-formati vistaðar sem grátóna (greyscale).
Ef svarthvítar myndir fara í fjögurra lita prentun (CMYK), skal vista þær í RGB.
Punktaupplausn (DPI)
Myndir: Punktaupplausn skal vera 300 dpi og 150 dpi fyrir myndir á vefmiðla.
Teikningar: Punktaupplausn skal vera 600 dpi.
Prufuútkeyrsla
Gott er að velja fáeinar myndir til prufuútkeyrslu, til að tryggja rétt gæði og litanákvæmni, áður en öllu efni er skilað.
Skráarsnið
.png: Fyrir myndir með gagnsæi eða skýrum línum.
.jpg/.jpeg: Fyrir myndir með miklum litablæbrigðum.
.svg: Fyrir einfaldar vektormyndir og tákn (sérstaklega gott fyrir vefmiðla).
Heiti myndaskráa
Best er ef nafn myndar lýsir myndinni, t.d. barn_med_bolta.jpg frekar en IMG_6789.jpg
Best er að nota ekki íslenska stafi eða bil. Nota frekar - eða _
Vistun sem PDF
Skjal skal vista sem PDF með réttum stillingum.
Mikilvægt er að nota viðeigandi stillingar þegar PDF-skráin er vistuð úr umbrotsforriti.
Litastillingar fyrir prentun
Frá árinu 2009 hefur íslenskur prentiðnaður notað RGB-myndvinnsluferli við frágang gagna.
Nauðsynlegt er að vista „job options“ sem eru skilgreind í Adobe-forritum.
Notuð skal SI_PDF_Prentun_3.joboptions, sem má nálgast á vef Iðunnar.
Stillingar skjals
Skjal skal skilgreina í réttri síðustærð með skurðarmerkjum og blæðingu, ef við á.
Ekki vista í opnum.
Letur og litir
Svart letur skal hafa stillinguna „overprint on“, þar sem það á við.
Lokaeftirlit í Acrobat Pro
Athuga skal PDF-skjalið í Acrobat Pro áður en það er sent í framleiðslu:
Opna Acrobat Pro.
Fara í Advanced → Print Production → Output Preview.
Ganga úr skugga um að litaskilgreiningar séu réttar:
Aðeins CMYK-litir skulu sjást, nema um sérstaka Pantone-litaprentun sé að ræða.
Þegar kemur að notkun gervigreindar (AI) við gerð námsefnis þurfa námsefnishöfundar og ritstjórar að huga að ýmsum atriðum til að tryggja gæði, fagmennsku og siðferðilega ábyrga notkun.
Skýr markmið með notkun gervigreindar
Hvers vegna er gervigreind notuð? Til aðstoðar við textagerð, hugmyndavinnu, myndsköpun, spurningagerð o.s.frv.?
Hlutverk gervigreindar skal vera viðbót en ekki koma í staðinn fyrir ritsmíðar eða faglegt mat sérfræðinga.
Gæði og áreiðanleiki efnis
Gervigreind getur veitt villandi eða rangar upplýsingar. Höfundar og ritstjórar þurfa alltaf að yfirfara, sannreyna staðreyndir og laga efni sem unnið er með gervigreind. Sérstaklega mikilvægt í fræðilegu efni, s.s. náttúruvísindum, sögulegum staðreyndum og efni sem tengist heilbrigði og velferð.
Höfundaréttur og eignarhald
Textar og myndir sem eru búnar til af gervigreind geta haft óljósa höfundaréttarstöðu.
Ef unnið er úr efni með gervigreind þarf að vera ljóst hver ber ábyrgð á því – og hvort leyfi sé tiltækt til notkunar.
Siðferðileg og fagleg ábyrgð
Forðast skal að nota gervigreind til að búa til efni sem gæti verið villandi eða innihaldið fordóma, staðalmyndir eða hlutdrægni.
Nemendur eiga rétt á gagnsæi: Ef gervigreind hefur verið notuð við gerð efnis, skal geta þess (sérstaklega í opinberu eða viðurkenndu efni).
Tilgreining heimilda og trausts efnis
Gervigreind getur búið til „heimildir“ sem líta út eins og þær séu raunverulegar en eru uppspuni.
Ritstjórar og höfundar þurfa að tryggja að allar heimildir sem notaðar eru í námsefni séu raunverulegar og aðgengilegar.
Persónuvernd og nemendagögn
Ef gervigreind er notað í verkefnagerð sem byggir á upplýsingum um nemendur (t.d. í aðlögun efnis), þarf að fylgja lögum um persónuvernd (t.d. GDPR).
Ekki má deila viðkvæmum upplýsingum með gervigreindarverkfærum sem safna gögnum.
Mat og aðlögun
Gervigreind getur aðstoðað við aðlögun efnis að ólíkum getustigum en það krefst alltaf mannlegrar yfirferðar til að tryggja að efniviðurinn sé viðeigandi, fjölbreyttur og aðgengilegur.
Gæðaprófun: Allt efni sem gervigreind aðstoðar við skal fara í gegnum ritstjórnarferli – rétt eins og annað námsefni.