Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók fyrir námsefnishöfunda

Gæðaviðmið fyrir námsefni og leiðbeiningar um frágang texta og mynda.

Námsgagnasvið

    Leiðbeiningar um frágang texta og mynda

    Leiðbeiningarnar miða að því að tryggja vandaðan, samræmdan og faglegan frágang á námsefni, hvort sem um er að ræða prentað efni eða stafræna birtingu hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Höfundar, ritstjórar og þau sem vinna með texta og myndefni geta stuðst við þessar leiðbeiningar til að auðvelda alla vinnslu, frá ritun til hönnunar og útgáfu.

    Farið er yfir helstu atriði sem varða innslátt texta, uppsetningu mynda og annað sem hefur áhrif á útlit og framsetningu efnis. Með því að fylgja þessum leiðbeiningum verður efnið faglegra, aðgengilegra og einfaldara í hönnun og umbroti – sem flýtir fyrir ferlinu frá hugmynd að útgefnu efni.

    Efni kaflans

    Réttritun

    Fylgja skal ritreglum íslenskrar málnefndar. Gagnlegt er að fletta upp í malid.is. Starfsfólk hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og höfundar námsefnis skulu fylgja þessum reglum.

    Um greinarmerki skal fylgja ritreglum íslenskrar málnefndar en þessar reglur um greinarmerki byggja á þeim.

    Úrfelling

    Úrfellingarpunktar (...) eru sérstakt tákn.

    • Ctrl + Alt + . (punktur) á PC

    • Option-l á Mac

    Ef heilum orðum eða orðasamböndum er sleppt, skal vera orðabil á undan og eftir punktunum. Dæmi: Þá voru þau mætt ... eins og ekkert hefði í skorist.

    Ef úrfellingarpunktar tákna hluta orðs, skal ekki vera orðabil á undan eða eftir. Dæmi: Hann sagði að þetta væri algj... en hætti við að klára orðið.

    Þankastrik og bandstrik

    Stutt bandstrik (-) er notað milli orðhluta í samsettum heitum:

    • Vestur-Skaftafellssýsla, íslensk-þýsk orðabók

    Þankastrik (–) er notað í stað kommu eða sviga:

    • PC: Sláðu inn tvö bandstrik í röð, t.d. -- og haltu áfram að skrifa. Word breytir þessu oft sjálfkrafa í þankastrik: –­­­­­­­

    • Mac: Option + bandstrik

    • Orðabil skal vera bæði á undan og eftir þankastriki

    • Þankastrik (millistrik) skal notað á milli tölustafa. Dæmi: Bls. 3–4.

    Gæsalappir (tilvitnunarmerki)

    „Íslenskar“ gæsalappir skulu notaðar í íslenskum texta.

    • Mac:

      • Opna gæsalappir („) → Option + ð

      • Loka gæsalappir (“) → Option + Shift + ð

    • PC:

      • Opna gæsalappir („) → Alt + 0132

      • Loka gæsalappir (“) → Alt + 0147

    Samspil gæsalappa og greinarmerkja

    Greinarmerki (komma, punktur, upphrópunarmerki, spurningarmerki) skulu vera innan gæsalappa nema þegar um einstakt orð eða brot úr setningu er að ræða. Dæmi:

    • „Þú sagðir „strax“ – meintirðu þá „eftir klukkutíma“?“

    Gæsalappir eru ekki notaðar við langar tilvitnanir ef þær eru auðkenndar með skáletri, smærra letri eða inndrætti.

    Svigar

    Punkturinn kemur fyrir utan svigann ef innihald svigans er hluti af setningunni. Dæmi:

    • Hann hitti hana í gær (og það var í fyrsta sinn).

    Ef svigar innihalda heila málsgrein, gilda hefðbundnar reglur um greinarmerki.

    • (Dæmi um þetta má finna í ritreglum Íslenskrar málnefndar.)

    Tölur og tölustafir

    Punktur er notaður í háum tölum til að auðvelda lestur: 13.000.000

    Komma er notuð fyrir aukastafi: 1.345,5 kg

    Stuttar tölur og stakar tölur eru skrifaðar með bókstöfum: „Það voru tíu börn á leikvellinum en við þurftum sextán til að hafa fullskipuð lið.“

    Skammstafanir

    Skammstafanir skulu notaðar í hófi, sérstaklega þegar skrifað er fyrir unga lesendur.

    Punktur er notaður í skammstöfunum, nema þar sem hástafir eru notaðir fyrir nöfn félaga eða stofnana:

    • t.d., o.s.frv., f.Kr.

    • HÍ, KR

    Dagsetningar eru ritaðar án bils:

    • 24.11.1993

    • Í skammstöfunum eins og þ. á m. (þar á meðal) er orðabil notað, en ekki punktur á eftir á, þar sem það er ekki stytting.

    Ekki er settur punktur í skammstöfunum í metrakerfinu:

    • kg, g, m

    Punktur er ekki settur inni í orðum þótt fyrri hluti þeirra sé skammstafaður:

    • Khöfn, Rvík, o.þ.h.

    Gráðumerki

    Gráðumerki eru skráð með eftirfarandi hætti:

    • Breiddargráða 25° N

    • Hiti 12 °C