Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók fyrir námsefnishöfunda

Gæðaviðmið fyrir námsefni og leiðbeiningar um frágang texta og mynda.

Námsgagnasvið

    Gæðaviðmið fyrir námsefni

    Gæðaviðmiðin eru sett fram til að styðja við höfunda, ritstjóra og aðra sem koma að gerð námsefnis fyrir íslenskt skólakerfi. Þau byggja á gildandi lögum um námsgögn, aðalnámskrá grunnskóla og menntastefnu til ársins 2030. Viðmiðin ná yfir allt ferlið frá hugmyndavinnu að fullbúnu námsefni og eru flokkuð í þrjá flokka: kennslufræðileg og fagleg atriði, efnistök og skipulag og svo framsetning og miðlun. Með því að fylgja þessum viðmiðum aukast líkur á að námsefnið verði hágæða, aðlaðandi og í samræmi við settar kröfur.

    Viðmiðin eru flokkuð í þrjá meginflokka:

    1. Kennslufræðileg og fagleg atriði

    2. Efnistök og skipulag

    3. Framsetning og miðlun

    Í hverjum flokki eru 3–4 gæðaviðmið, lýsing á þeim og matskvarði. Þannig er hægt að meta efnið með markvissum hætti og sjá hvar styrkleikar liggja og hvar bæta má úr.

    Efni kaflans

    Námsefnið skal vera skýrt uppbyggt og auðvelt í notkun. Röðun efnisþátta, flæði, samfella og tengsl milli kafla þurfa að styðja við árangursríkt nám. Verkefni, texti og myndefni skulu mynda heild þar sem stígandi er eðlileg og efnið aðgengilegt fyrir markhóp sinn.

    2.1 Markmið og tilgangur

    GÆÐAVIÐMIÐ: Markmið og tilgangur námsefnisins eru skýr. Nánari útskýring á kröfu: Markmið og tilgangur námsefnisins koma skýrt fram, t.d. í formála, inngangi eða kennsluleiðbeiningum, þar sem einnig kemur fram hverjum efnið er ætlað og hvaða hæfni eða þekkingu nemendur eiga að öðlast. Námsefnið sjálft er auðskilið og hefur greinilegan tilgang sem nemendur og kennarar átta sig strax á frá upphafi.

    Matskvarði

    Lýsing á matskvarða

    1 „Ófullnægjandi“ Markmið námsefnisins eru óskýr eða alls ekki til staðar.

    2 „Sæmilega“ Markmið eru til staðar en gætu verið betur útskýrð eða skiljanlegri. Tilgangur efnisins kemur að hluta fram en ekki nógu greinilega.

    3 „Vel“ Markmið eru skýr og hjálpa til við að afmarka námsefnið og bæta námsferlið.

    4 „Mjög vel“ Markmið og tilgangur eru mjög skýr. Þau vekja áhuga og hvetja nemendur til virks náms og djúps skilnings á efninu.

    2.2 Skipulag námsefnis

    GÆÐAVIÐMIÐ: Uppbygging námsefnis er vel skipulögð og í góðu samhengi. Nánari útskýring á kröfu: Efnið er vel uppbyggt þannig að hver kafli eða námseining tengist eðlilega því sem á undan kemur og því sem á eftir fer. Röð kafla eða verkefna fylgir rökréttri framvindu (stígandi) sem auðveldar nemendum að byggja ofan á fyrri þekkingu. Upplýsingar um heildaruppbyggingu námsefnisins og tengsl milli hluta þess koma fram á einfaldan og skiljanlegan hátt, þannig að bæði kennarar og nemendur geti auðveldlega áttað sig á strúktúr efnisins.

    Matskvarði

    Lýsing á matskvarða

    1 „Ófullnægjandi“ Skipulag efnisins er óskýrt og ruglingslegt. Framvinda eða röð efniseininga virðist tilviljanakennd og erfitt er að sjá samhengi.

    2 „Sæmilega“ Skipulag er viðunandi en nokkurt ósamræmi eða óskýrleiki.

    3 „Vel“ Skipulag efnisins er skýrt. Efniseiningar tengjast vel og eðlilegt flæði er milli kafla/þátta. Auðvelt er að fylgja efninu eftir í réttri röð.

    4 „Mjög vel“ Skipulag efnis er mjög vel útfært: uppbyggingin er rökrétt, skýr og styður afar vel við nemendur.

    2.3 Aðgengi og læsileiki námsefnis

    GÆÐAVIÐMIÐ: Námsefnið er vel skrifað og skýrt, með vandað málfar og gott aðgengi fyrir markhópinn. Nánari útskýring á kröfu: Framsetning námsefnis er þannig að nemendur geta auðveldlega lesið það og skilið. Orðaval og setningagerð er sniðin að viðeigandi markhópi (aldurs- og þroskastigi nemenda) og tryggir að efnið sé aðgengilegt, skýrt og skiljanlegt. Það er einnig laust við ónákvæmni, stafsetningar- eða málfræðivillur sem annars gætu dregið úr gildi þess eða valdið misskilningi.

    Matskvarði

    Lýsing á matskvarða

    1 „Ófullnægjandi“ Málfar efnisins er óskiljanlegt eða mjög óvandað. Textinn kann að vera stirður eða innihalda mikið af óskýrum setningum og/eða villum sem gera nemendum erfitt fyrir.

    2 „Sæmilega“ Efnið er almennt skiljanlegt en sumir hlutar eru óskýrir, ruglandi eða innihalda villur sem þarf að laga.

    3 „Vel“ Efnið hentar markhópnum að mestu leyti, þó það megi bæta við smáatriðum.

    4 „Mjög vel“ Efnið er sérsniðið að markhópnum og hentar honum fullkomlega hvað varðar málfar og uppsetningu.