Fara beint í efnið

Handbók farsældar - innleiðing farsældarlaganna á landsvísu

Auk þessarar rafrænu útgáfu er einnig til PDF útgáfa af handbókinni.

    Samþætting þjónustu í þágu farsældar barna

    Farsældarlögin

    Upphafið

    Vinna við breytingar í þágu barna hófust á vormánuðum 2018 þegar Ásmundur Einar Daðason, þá félags- og jafnréttismálaráðherra, boðaði til ráðstefnu um snemmtæka íhlutun í málefnum barna sem markaði upphaf að miklu samstarfi og samtali um leiðir til að auka farsæld barna. Í framhaldinu skrifuðu fimm ráðherrar og Samband íslenskra sveitarfélaga undir viljayfirlýsingu í þeim tilgangi að brjóta niður múra á milli kerfa, bæta þjónustu í þágu barna og skapa barnvænt samfélag. Eitt helsta nýmæli farsældarlaganna er að marka samstarfi mismunandi þjónustukerfa skýran farveg í lögum. Frá því að farsældarlögin tóku gildi hefur markvisst verið unnið að innleiðingu þeirra á vegum ríkis og sveitarfélaga um allt land.

    Markmið og grunnstoðir farsældar

    Lögin eiga að tryggja að börn og foreldrar fái rétta aðstoð, á réttum tíma, frá réttum aðilum. Markmiðið er að þau sem vinna með börnum og fjölskyldum þeirra leggi sitt af mörkum til að tryggja að verndandi þættir séu til staðar í lífi allra barna, þættir sem oft eru nefndir fimm grunnstoðir farsældar:

    • Heilsa og vellíðan

    • Menntun

    • Þátttaka og félagsleg tengsl

    • Öryggi og vernd

    • Lífsgæði og félagsleg staða

    Framkvæmd

    Starfsfólki sem vinnur með og fyrir börn ber að vinna saman að farsæld þeirra. Starfsfólk leik-, grunn- og framhaldsskóla, félagsþjónustu, íþrótta- og tómstundastarfs og heilbrigðisþjónustu hefur með lögunum fengið aukna ábyrgð sem felur í sér að koma auga á aðstæður barna og bregðast við með tilteknum hætti ef vísbendingar koma upp um að þörfum barna sé ekki mætt.

    Börn og foreldrar þeirra skulu hafa aðgang að tengilið farsældar í heilsugæslu, skóla eða félagsþjónustu. Þar geta þau fengið aðstoð við að halda utan um og sækja viðeigandi þjónustu, án hindrana. Í málum þar sem börn hafa þörf fyrir fjölþætta þjónustu hafa þau og foreldrar þeirra aðgang að málstjóra farsældar hjá félagsþjónustu eða þar sem þarfir barns liggja hverju sinni.

    Þjónusta fyrir börn er veitt á þremur þjónustustigum. Gott er að hafa í huga að sú þjónusta sem barnið fær er stigskipt en ekki mál barnsins sem slíkt. Þannig geta börn fengið þjónustu á fleiri en einu þjónustustigi á sama tíma.

    Í farsældarlögunum er kveðið á um að samþætting sé þjónustuboð til foreldra og barna sem er að öllu leyti valkvæð. Ef foreldrar óska ekki eftir samþættingu þá eiga þau samt sem áður rétt á þjónustu, eini munurinn er að hún er þá ekki samþætt í skilningi laganna.

    Áhrif á önnur lög er varða þjónustu við börn

    Farsældarlögin hafa haft víðtæk áhrif, þannig hefur ýmsum lögum er varða þjónustu við börn verið breytt til samræmis við farsældarlögin, t.a.m. barnaverndarlögum, lögum um leik-, grunn- og framhaldsskóla og lögum um börn með langvarandi stuðningsþarfir. Einnig tekur ný löggjöf víða mið af farsældarlögunum.

    Innleiðingartímabil

    Það að innleiða nýja hugsun og nýja nálgun í alla stjórnsýslu sveitarfélaga og stofnana tekur tíma og því hefur innleiðingartímabil farsældarlaganna verið áætlað þrjú til fimm ár frá gildistöku þeirra. Á sama tíma hafa sveitarfélög og ríkisstofnanir sem hafa hlutverk samkvæmt farsældarlögum fengið árlega úthlutað fjármagni til að mæta kostnaði vegna samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna. Í aðdraganda lagasetningarinnar var unnin kostnaðargreining sem leiddi m.a. í ljós að hagkvæmni breytinganna mun taka nokkur ár að koma að fullu í ljós, þ.e.a.s. þar til börnin sem fengið hafa þjónustu samkvæmt löggjöfinni ná fullorðinsaldri. Fyrstu árin eftir innleiðingu laganna mun kostnaður vera hærri en ávinningur en til lengri tíma litið vegur ávinningurinn þó mun þyngra en kostnaðurinn. Auk þess munu lögin ekki hafa neikvæð umhverfisáhrif, heldur eingöngu jákvæð áhrif á líf barna og fjölskyldna þeirra, sem leiðir til aukinnar vellíðanar og velmegunar fyrir þjóðina í heild. Það er því ljóst að farsældarlöggjöfin er með arðbærari verkefnum sem íslenska ríkið hefur ráðist í.

    Nytsamlegir hlekkir