Handbók farsældar - innleiðing farsældarlaganna á landsvísu
Þjónustuaðili:
Auk þessarar rafrænu útgáfu er einnig til PDF útgáfa af handbókinni.
Inngangur
Markmið með handbók um farsæld
Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021 tóku gildi í janúar 2022, lög sem oft eru nefnd farsældarlögin til einföldunar.
Það kom fljótt í ljós þörf fyrir fræðslu- og stuðningsefni vegna innleiðingar farsældarlaganna frá þeim sem hafa hlutverki að gegna samkvæmt lögunum. Til að svara þeirri eftirspurn hefur Barna- og fjölskyldustofa (BOFS) búið til ýmiss konar stuðningsefni þ.m.t. rafræn námskeið, gátlista, matsblöð, skapalón og leiðbeiningar fyrir tengiliði og málstjóra farsældar.
Á vormánuðum 2024 ákvað BOFS að hefja vinnu við gerð handbókar farsældar til að styðja enn betur við sveitarfélög og ríkisstofnanir sem hafa hlutverk samkvæmt farsældarlögunum. Handbókin er unnin í samvinnu við Mennta- og barnamálaráðuneytið (MRN) og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) á Íslandi. Samvinnan við UNICEF byggir á reynslu þeirra og þekkingu við að innleiða verkefnið Barnvæn sveitarfélög og er handbók þeirra fyrirmynd Handbókar farsældar. Handbækurnar byggja á breytingarkenningunni (e. Theory of Change) og innleiðingarfræðum þar sem lögð er áhersla á þverfaglega samvinnu milli stjórnvalda, sveitarfélaga og samfélagsins í heild.
Handbók farsældar
Handbók farsældar er rafræn en einnig er hægt að nálgast hana á PDF formi. Hún inniheldur gagnleg ráð við innleiðingu ásamt leiðbeiningum, fræðsluefni og öðru stuðningsefni sem BOFS hefur gefið út í tengslum við farsældarlögin. Hér er því allt efnið dregið saman á einn stað sem ætti að auðvelda aðgengi að upplýsingum og gagnlegum skjölum. Handbókin ætti að nýtist bæði þeim sem bera ábyrgð á innleiðingu farsældarlaganna hjá sveitarfélögum og ríkisstofnunum, en einnig öðrum sem hafa hlutverki að gegna samkvæmt lögunum.
Eitt af markmiðum farsældarlaganna er að öll börn á Íslandi fái sömu þjónustu óháð búsetu og með tilkomu handbókar farsældar aukast líkur á samræmdum vinnubrögðum á landsvísu þegar kemur að vinnslu mála í samþættingu þjónustu. Einnig er handbókin grunnur fyrir starfsfólk BOFS, MRN og annarra leiðbeinandi stofnana til að tryggja samræmda ráðgjöf og handleiðslu þessara aðila. Þá er handbók farsældar ætlað að stuðla að gæðaviðmiðum og eftirfylgd með innleiðingu farsældarlaganna á landsvísu.
Horft er á handbókina sem lifandi skjal sem getur tekið breytingum með aukinni reynslu og þekkingu á framkvæmd farsældarlaganna. Það er einlæg ósk starfsfólks BOFS og MRN sem að þessari vinnu komu að handbók farsældar komi að góðum notum.