Fuglainflúensa
Inflúensuveirur sem sýkja dýr eru ekki sömu veirur og valda árstíðabundinni inflúensusýkingu hjá fólki. Dýrainflúensuveirur eru súnur, en súnur eru sýklar sem geta borist milli dýra og fólks, með beinum eða óbeinum hætti. Fólk sem smitast af dýrainflúensu getur fengið mismikil sjúkdómseinkenni. Veikindi geta verið væg, eða alvarleg og jafnvel leitt til dauða.
Sýkingar hjá fólki af völdum dýrainflúensuveira eru sjaldgæfar og orsakast oftast af beinni snertingu fólks við sýkt dýr, hræ dýra eða mengað umhverfi. Ekkert bendir til að þær dýrainflúensuveirur sem nú eru í dreifingu á milli dýra berist manna á milli.
Nauðsynlegt er að vakta hugsanleg smit hjá fólki af völdum dýrainflúensuveira og rannsaka nánar ef grunur vaknar en einkenni geta verið óvanaleg. Það þarf að fá faraldsfræðilegar upplýsingar varðandi nálægð eða snertingu við dýr og ferðalög og, ef ástæða er til, grípa til aðgerða til verndar heilsu almennings.
Fjórir stofnar inflúensuveira eru þekktar: A, B, C og D. Þrír þeirra geta sýkt fólk: A (geta valdið heimsfaröldrum og árstíðabundnum faröldrum), B (geta valdið árstíðabundnum faröldrum) og C (valda litlum veikindum og ekki faröldrum). Inflúensu A veira getur smitað ýmsar tegundir dýra og eru þá nefndar eftir viðkomandi hýsli, til dæmis fugla-, svína-, hrossa- eða hundainflúensuveirur.
Inflúensuveirur eru einnig flokkaðar eftir tegund mótefnavaka á yfirborði þeirra, sem eru auðkenndir með H (hemagglútínín) og N (neuramínídasi). Sem dæmi orsakaðist svínainflúensan árið 2009 af inflúensu A(H1N1) inflúensuveiru sem hafði hemagglútínín af gerð 1 og neuramínídasa af gerð 1.
Inflúensu A veirur stökkbreytast auðveldlega og geta einnig skipst á erfðaefnisbútum þegar fleiri en ein veirugerð smitar sama einstakling á sama tíma (endurröðun, e. reassortment) með hættu á tilkomu nýrra skæðra stofna. Hættan er sérstaklega mikil ef fuglainflúensuveira smitar fólk sem einnig er smitað af mannainflúensu. Sama hætta er einnig fyrir hendi þegar fleiri en einn stofn inflúensu smitar mink, svín eða önnur spendýr. Þessi hæfileiki inflúensu A til endurröðunar og þróunar nýrra undirstofna sem fólk hefur lítið ónæmi fyrir getur leitt til heimsfaraldra á borð við spænsku veikina árið 1918 og svíninflúensu árið 2009.
Andfuglar eru taldir náttúrulegir hýslar inflúensuveiru af A stofni og talið er að uppruni nær allra tegunda inflúensuveira sé hjá fuglum. Fuglainflúensa veldur oftast vægum sjúkdómi hjá villtum fuglum en veldur frekar alvarlegri sýkingu hjá alifuglum, svo sem kjúklingum. Veiran getur einnig borist í ýmis spendýr, svo sem minka, refi, svín, seli, hvali, hunda og kattardýr.
Fuglainflúensa flokkast sem annaðhvort væg eða skæð fuglainflúensa (e. low or high pathogenic avian influenza; LPAI or HPAI) eftir því hvort veiran veldur engum/vægum einkennum eða alvarlegum sjúkdómi og fugladauða. Þessi flokkun á ekki við alvarleika sjúkdóms hjá fólki. Hingað til hafa aðeins undirstofnar H5 og H7 valdið skæðri fuglainflúensu. Skæð fuglainflúensa veldur miklum skaða meðal villtra fuglastofna, getur borist víða með farfuglum og valdið tjóni á alifuglabúum ef berst í þau.
Skæð fuglainflúensa A hefur endurtekið komið upp í heiminum á undanförnum áratugum. Sumir inflúensustofnanna hafa náð töluverðri útbreiðslu meðal fugla og jafnvel valdið staðbundnum hópsýkingum hjá fólki. Þessir stofnar hafa þó ekki aðlagast mönnum nægilega vel til að smitast milli manna og valda faröldrum meðal fólks.
Frá 2021 hefur skæð fuglainflúensa A af H5N1 stofni breiðst verulega út í Evrópu og um allan heim. Tugir milljóna fugla hafa smitast í Evrópu, aðallega villtir vatna- og sjófuglar en einnig alifuglar. Smit hafa einnig greinst hjá spendýrum, aðallega villtum rándýrum sem eru í náinni snertingu við villta fugla, en einnig sérstaklega á loðdýrabúum. Hérlendis greindist H5N1 stofn fyrst í villtum fuglum í apríl 2022 og að auki í heimilishænum á einum stað.
H5N1 stofninn hefur ekki oft greinst hjá fólki og smithætta fyrir almenning í Evrópu af núverandi H5N1 stofni er talin lítil. Engin tilfelli H5N1 sýkinga hjá fólki hafa verið staðfest í löndum ESB/EES hingað til. Alvarleg veikindi og jafnvel andlát hafa orðið hjá fólki í öðrum heimshlutum, einkum í Asíu og S-Ameríku en flestir einstaklinganna virðast hafa verið í langvarandi eða náinni snertingu við veika fugla í tengslum við fuglahald við heimili.
Helsta smitleið á milli fugla er með fugladriti (saur) þar sem sýktir fuglar skilja út mikið magn veirunnar í driti. Smit getur þó einnig verið loftborið, með hósta og hnerra. Villt spendýr sem eru í návígi við eða veiða sýkta fugla geta auðveldlega smitast en einnig getur drit smitaðra fugla borist inn á reiti þar sem spendýr dvelja utandyra.
Öll tilfelli skæðrar fuglainflúensu hjá fólki hafa tengst miklu návígi við sýkta alifugla eða líkamsvessa þeirra. Snerting við menguð yfirborð búra eða búnaðar og annað umhverfi getur leitt til þess að smit berst með höndum í slímhúðir í augum, munni eða nefi. Ryk úr fjöðrum eða umhverfi veikra fugla, sem þyrlast um í lokuðu rými, svo sem við vængjaslátt fugla, hamfletting, háþrýstiþvottur, eða sópun geta aukið líkur á smiti til fólks.
Aukin hætta er á smiti frá sýktum fuglum til fólks við eftirfarandi athafnir:
Návígi við alifugla, afurðir og úrgang, t.d. vinna á alifuglabúum.
Handfjötlun fuglahræja, sérstaklega við hamflettingu.
Förgun hænsnfugla og eyðing hræja og úrgangs.
Þrif og sótthreinsun mengaðra svæða.
Sýnataka frá fuglum og menguðu umhverfi.
Skoðun dýralæknis.
Greining veirunnar á rannsóknarstofu.
Ekki er talin hætta á smiti við handfjötlun eða neyslu vel eldaðra eggja eða kjöts þar sem veiran drepst við hitun við 56°C í þrjár klst., 60°C í 30 mínútur og 70°C í eina mínútu. Almennur þvottur á menguðum fatnaði drepur inflúensuveiru.
Einkenni sem eru tilefni til sýnatöku hjá einstaklingum undir eftirliti vegna fuglainflúensu eru m.a. hiti, roði í augum, hósti, kvef, bein- og vöðvaverkir, niðurgangur, lungnabólga, öndunarerfiðleikar og taugaeinkenni (höfuðverkur, flog, breytt meðvitund).
Mikilvægt er að halda vöku sinni og sinna forvörnum til að lágmarka áhættu vegna fuglainflúensu.
Grundvallarvarúð gegn sýkingu
Grundvallarvarúð skal viðhafa við öll störf þar sem fólk er í snertingu við dýr, óháð því hvort grunur er um smitsjúkdóm eða ekki. Með mengun er hér á eftir átt við líkamsvessa dýra eða fólks.
Það er á ábyrgð atvinnurekanda að sjá til þess að starfsfólk fái nauðsynlega kennslu og þjálfun í að framkvæma störf sín á þann hátt að ekki stafi hætta af (sbr. 14 gr. Laga nr. 46/1980).
Þeir sem í starfi sínu geta komist í snertingu við sýkta fugla, afurðir þeirra eða úrgang eða mengun í umhverfi skulu fá fræðslu um einkenni og smitleiðir skæðrar fuglainflúensu og hvernig verjast má smiti.
Sérstök áhersla er lögð á mikilvægi vandaðrar handhreinsunar (með handþvotti og handspritti) eftir snertingu við fugla (sýkta og ósýkta), eftir snertingu við menguð svæði og eftir notkun hanska.
Með vönduðum handþvotti er átt við þvott með vatni og sápu á öllum svæðum beggja handa í 30 sekúndur sem fylgt er eftir með notkun á einnota þurrkum. Ef engin sjáanleg óhreinindi eru á húð handa má nota viðurkennt sótthreinsandi efni, s.s. handspritt (70% - 85% etanól).
Bólusetning fólks gegn árlegum inflúensufaraldri
Hin hefðbundna árlega inflúensubólusetning fyrir fólk getur dregið úr líkum á þróun nýrra/skæðra inflúensustofna af gerð A þegar fuglainflúensuveira smitar einstaklinga sem samtímis eru smitaðir af mannainflúensu.
Árleg inflúensubólusetning er sérstaklega mikilvæg fyrir þá einstaklinga sem eru í aukinni hættu á snertingu við fuglainflúensu vegna umgengni við fugla.
Hefðbundin bólusetning gegn árstíðabundinni inflúensu veitir ekki vörn gegn smiti af fuglainflúensu og því skal eftir sem áður fylgja ráðleggingum og reglum um sýkingavarnir.
Eftirtöldum hópum í aukinni áhættu á útsetningu vegna fuglainflúensu skal boðin bólusetning gegn árlegri inflúensu (viðauki við forgangshópa)
Starfsfólki alifuglabúa, svínabúa og loðdýrabúa.
Dýralæknar sem sinna ofangreindum búum eða tengdum verkefnum.
Starfsfólki sem kemur að flutningi eða aflífun alifugla, svína og loðdýra.
Starfsfólki sem kemur að förgun eða krufningu veikra dýra þar sem hætta er á smiti.
Starfsfólk húsdýragarða þar sem eru fuglar, svín, selir eða loðdýr.
Þegar grunur vaknar um fuglainflúensu skal hafa eftirfarandi í huga:
Vakta möguleg sjúkdómseinkenni fólks sem er í snertingu við annaðhvort dýr eða annað fólk með fuglainflúensu.
Samhæfa aðgerðir og upplýsingamiðlun milli stofnana sem hafa eftirlit með heilsu fólks annars vegar og dýra hins vegar (Ein Heilsa).
Rannsaka öll tilvik fuglainflúensu hjá fólki og gæta þess að rannsóknarstofur noti viðeigandi rannsóknaraðferðir sem geta greint fuglainflúensu.
Tilkynna öll tilfelli fuglainflúensu hjá fólki til alþjóðlegra eftirlitsstofnana.
Mikilvægt er að rannsaka öll hugsanleg smit fuglainflúensu hjá fólki til þess að geta:
Hugað að einangrun smitaðra til að minnka líkur á dreifingu.
Boðið viðeigandi eftirlit og meðferð.
Skipulagt smitrakningu og greint aðra útsetta einstaklinga.
Metið hvort smit á milli fólks eigi sér stað og hvort líkur séu á hópsýkingu.
Fuglainflúensa er tilkynningarskyldur sjúkdómur til sóttvarnalæknis. Sé grunur um að einstaklingur sé smitaður af fuglainflúensu er mikilvægt að tilkynna tilvikið án tafar. Starfsfólk heilbrigðisstofnana þarf að vera upplýst um möguleg einkenni fuglainflúensu og hvernig eigi að meta hugsanlega útsetningu þ.m.t. umgengni við fugla (ferðasögu o.fl.). Nauðsynlegt er að tryggja viðeigandi smitrakningu, rannsóknir, mat á alvarleika sjúkdóms, þörf á einangrun og veita einstakling meðferð (t.d. með veirulyfi).
Aukin vöktun fuglainflúensu hjá fólki
Þegar fólk hefur orðið útsett fyrir fuglainflúensu, eða þegar um staðfesta greiningu á fuglainflúensu hjá fólki er að ræða, er nauðsynlegt að efla eftirlit með þeim sem eru í aukinni áhættu. Eftirfarandi getur verið hluti af aukinni vöktun:
Virk skimun þ.m.t. á sjúkrahúsum, sérstaklega á bráðamóttökum og sjúkradeildum sem gætu haft sjúklinga með fuglainflúensu.
Samvinna við heilbrigðisþjónustu og rannsóknastofur.
Virk skimun meðal starfsfólks atvinnugreina sem eru í aukinni áhættu, svo sem heilbrigðisþjónustu og landbúnaði (í samvinnu við MAST o.fl.).
Vöktun einkenna og einangrun vegna fuglainflúensu
Allir einstaklingar útsettir fyrir fuglainflúensu með einhverjum hætti (snerting við smituð dýr eða fólk) ættu að fylgjast með heilsufari sínu í 10-14 daga eftir útsetningu: Mæla líkamshita tvisvar á dag og vera vakandi gagnvart einkennum s.s. hitahækkun >38°C, hósta, mæði.
Þeir einstaklingar sem hafa verið í snertingu við fólk með staðfesta fuglainflúensu eru í sérstakri áhættu.
Til greina kemur að nota veirulyf í fyrirbyggjandi skyni hjá einstaklingum sem hafa verið útsettir fyrir fuglainflúensu.
Einstaklingur með einkenni fuglainflúensu skyldi án tafar hafa samband við lækni á næstu heilsugæslu. Taka skal sýni til greiningar á fuglainflúensu ef einkenni eru til staðar.
Læknir sem grunar fuglainflúensu skal tilkynna tilvikið til umdæmislæknis sóttvarna eða sóttvarnalæknis. Grunur um fuglainflúensu er tilkynningarskyldur sjúkdómur sbr. sóttvarnalög og reglugerð nr. 848/2023.
Við hugsanlega fuglainflúensu ber einstaklingi að gæta varúðar og forðast dreifingu smits til annarra, sbr. sóttvarnalög.
Einstaklingar með staðfesta fuglainflúensu skulu vera í einangrun í 14 daga. Þó má stytta einangrun ef einkenni hafa gengið yfir og ef tvö PCR próf í röð eru neikvæð, tekin með eins dags millibili og minnst 7-8 dögum eftir upphaf einkenna.
Einungis umdæmislæknir sóttvarna, meðhöndlandi smitsjúkdómalæknir eða sóttvarnalæknir geta aflétt einangrun þegar skæð fuglainflúensa hefur verið útilokuð eða sýking er yfirstaðin.
Meta skal hvort rannsaka eigi einkennalausa einstaklinga m.t.t. fuglainflúensusmits eftir áhættugreiningu (til dæmis í tengslum við mögulega hópsýkingu).
Matvælastofnun
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis