Nauðsynlegt er að horfa heildstætt á sambandið milli frameiðsluferla skógarplantna í gróðrarstöð og nýskógræktar til þess að hámarka árangur. Eftir því sem lengur er beðið með að gróðursetja frystar trjáplöntur að vori, því meiri líkur eru á að þær nái ekki að mynda nægjanlegt frostþol sama haust og verði fyrir skemmdum. Þetta er meðal rannsóknarniðurstaðna sem fjallað er um í ritrýndri grein sem birtist nýlega í vísindaritinu Forests. Aðalhöfundur greinarinnar er Rakel J. Jónsdóttir, skógfræðingur og doktorsnemi hjá Landi og skógi.