20. nóvember 2024
20. nóvember 2024
Ekki má bíða of lengi með gróðursetningu frystra skógarplantna
Nauðsynlegt er að horfa heildstætt á sambandið milli frameiðsluferla skógarplantna í gróðrarstöð og nýskógræktar til þess að hámarka árangur. Eftir því sem lengur er beðið með að gróðursetja frystar trjáplöntur að vori, því meiri líkur eru á að þær nái ekki að mynda nægjanlegt frostþol sama haust og verði fyrir skemmdum. Þetta er meðal rannsóknarniðurstaðna sem fjallað er um í ritrýndri grein sem birtist nýlega í vísindaritinu Forests. Aðalhöfundur greinarinnar er Rakel J. Jónsdóttir, skógfræðingur og doktorsnemi hjá Landi og skógi.
Titill greinarinnar er Autumn Frost Hardiness in Six Tree Species Subjected to Different Winter Storage Methods and Planting Dates in Iceland. Hún birtist í fimmtánda tölublaði tímaritsins Forests. Meðhöfundar Rakelar eru Erla Sturludóttir, dósent við LbhÍ, Inger Sundheim Fløistad, vísindamaður við NIBIO í Noregi, og Brynjar Skúlason, skógerfðafræðingur og sviðstjóri rannsókna hjá Landi og skógi.
Í Skandinavíu eru skógarplöntur í miklum mæli geymdar frystar við -3°C yfir vetrartímann í stað útigeymslu. Þannig eru gæði skógarplantna frekar varin fyrir kalskemmdum á yfirvexti og rótum, auðveldara verður að flytja þær til skógræktenda að vori auk þess sem frystingin leiðir af sér hagræðingu á ýmsum verkferlum í gróðrarstöð.
Frystar plöntur seinni af stað á vorin
En það eru ekki bara kostir við að nota frystingu sem yfirvetrunaraðferð. Skógarplöntur sem geymdar eru úti við fá lengri vaxtarlotu en þær sem geymdar eru á frysti. Frystar plöntur eru enn í dvala þegar þær eru gróðursettar og þannig má segja að vaxtarlota þeirra styttist við frystinguna. Það tekur plöntur nefnilega tíma að vakna af vetrardvala. Of stutt vaxtarlota hefur þau áhrif að hætta á haustkali eykst því plönturnar fá ekki þann tíma sem þær þurfa til að ljúka öllum ferlum sem mynda gott haustfrostþol fyrir veturinn, svo sem að ná að ljúka lengdarvexti. Byrjun frostþolsmyndunar síðsumars er háð því að vaxtarstöðnun hafi náðst. Plöntum sem geymdar eru á frysti hættir því til að vaxa lengur fram í sumarið og mynda frostþolið of seint, sem leiðir af sér aukna hættu á haustkali.
Markmið verkefnisins var að finna þá tegund sem þyldi best að vera yfirvetruð á frysti í gróðrarstöð með tilliti til haustfrostþolsmyndunar á fyrsta vaxtartímabili eftir gróðursetningu. Þar var borið saman haustfrostþol plantna sem geymdar höfðu verið úti við og á frysti. Tegundir í verkefninu voru birki, rússalerki, lerkiblendingurinn Hrymur, sitkagreni, sitkabastarður og tvö kvæmi af stafafuru, Närlinge og Skagway. Gróðursett var í felttilraun á fjórum mismunandi tímum yfir sumarið. Hinn 24. maí 2022 voru bæði plöntur af frysti og af plani gróðursettar í felttilraun í Teigi í Eyjafirði. Frystar plöntur voru svo gróðursettar 7. júní, 21. júní og 5. júlí sama ár. Plöntur af plani gróðursettar 24. maí þjónuðu hlutverki viðmiðs í tilrauninni.
Meiri skemmdir eftir því sem gróðursett var seinna
Í ljós kom að eftir því sem frystu plönturnar voru gróðursettar seinna því meiri líkum á skemmdum mátti búast við í frostþolsprófunum sem fóru fram 12. og 26. september. Plöntur sem geymdar höfðu verið á plani sýndu almennt minnstar líkur á skemmdum. Aftur á móti var mismunandi eftir tegundum hversu mikið frostþol plönturnar höfðu náð að byggja upp. Hrymur hafði minna frostþol en rússalerki. Sitkagreni hafði minna frostþol en sitkabastarður. Stafafura og birki höfðu mest frostþol í september og eru því þær tegundir sem eru best fallnar til þess að geymast á frysti yfir vetrartímann.
Mynd 1. Meðalupphafshæð (blár hluti, n = 60) og árlegur vöxtur sjö tegunda/kvæma sem mæld voru 13. júní (gulur), 5. júlí (rauður) og 19. júlí (grænn). Mælingar á ársvexti voru gerðar á plöntum sem geymdar voru utandyra (n = 40). Mismunandi stafir í bláum hlutum gefa til kynna marktækan mun á upphafshæð milli tegunda (p ≤ 0,05).
Mismunandi vaxtartaktur
Skýringar á þessum mismun á milli tegundanna má finna m.a. í vaxtartakti þeirra. Vöxtur á árssprota var mældur í gróðrarstöðinni í byrjun vaxtartímabils þannig að meðalhæð þeirra í upphafi var þekkt (sjá mynd 1). Ársvöxtur var svo mældur 13. júní, 5. júlí og 19. júlí á plöntum sem voru í gróðrarstöðinni. Stafafurukvæmin uxu hratt í byrjun sumars þannig að 13. júní höfðu þau þegar náð um 83%-84% af heildarársvexti sínum. Því má búast við að snemmbær vaxtarstöðvun, og þar með byrjun frostþolsmyndunar, hafi orðið til þess að frostþol var best í stafafuru í september. Öðru máli gegndi um lerkitegundirnar sem voru enn í góðum vexti 19. júlí. Birkið var það að vísu líka en er greinilega það vel aðlagað íslensku sumri að það reynir að nýta út úr vaxtarlotunni eins og hægt er án þess að það komi verulega niður á frostþoli eins og það gerði hjá minna aðlöguðu tegundunum eins og lerki. Sitkabastarður og sitkagreni uxu lítið sem ekki neitt eftir 5. júlí og virðast þá hafa náð lengdarvexti að mestu leyti.
Verkefnið sýnir fram á nauðsyn þess að horfa heildstætt á sambandið milli frameiðsluferla skógarplantna í gróðrarstöð og árangurs í nýskógrækt en jafnframt mikilvægi þess að þetta samband sé haft í huga við áætlanagerð í skógrækt.