Fara beint í efnið

6. nóvember 2024

Vitundarvakning um sýklalyfjaónæmi: Málþing 18. nóvember 2024

Dagurinn 18. nóvember er sérstaklega helgaður vitundarvakningu um sýklalyf hjá Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC). Sama dag hefst vitundarvika um skynsamlega notkun sýklalyfja á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).

Mynd. Sýklalyfjaónæmi þýðir

Tilgangur þessarar vitundarvakningar er að minna almenning, stjórnvöld og heilbrigðisstarfsmenn á þá ógn sem stafar af útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería í heiminum.

Málþing sóttvarnalæknis þann 18. nóvember 2024

Í tilefni af evrópska sýklalyfjadeginum (European Antibiotic Awareness Day) mun sóttvarnalæknir halda málþing um sýklalyf og sýklalyfjaónæmi mánudaginn 18. nóvember næstkomandi kl. 13:00–15:00 í húsnæði Landspítala í Fossvogi, Blásölum, sjá dagskrá. Hámarksfjöldi í sal er 50 manns en einnig verður hægt að tengjast fjarfundi með Teams. Vinsamlegast tilkynnið þátttöku fyrir 14.11.2024 með tölvupósti á netfangið juliana.hedinsdottir@landlaeknir.is og takið fram hvort þið hyggist mæta á staðinn eða hlusta á fundinn í streymi. Hlekkur til að tengjast fundinum verður sendur til þeirra sem hafa skráð sig, þegar nær dregur.

Sýklalyfjanotkun og sýklalyfjaónæmi á Íslandi

Orsakir sýklalyfjaónæmis eru margvíslegar en óvarleg notkun sýklalyfja er ein sú mikilvægasta. Heildarsala sýklalyfja fyrir menn á Íslandi árið 2023 var svipuð sölu áranna 2019 og 2022. Salan var töluvert lægri á meðan COVID-19 faraldurinn stóð sem hæst, árin 2020 og 2021, sjá ársskýrslu. Um 90% af heildarsölu sýklalyfja hjá mönnum skýrist af notkun utan sjúkrahúsa (lyfjaávísanir). Notkun sýklalyfja hjá mönnum á Íslandi er meiri en á öðrum Norðurlöndunum en í kringum meðaltal ESB/EES þjóða.

ESBL/AmpC-myndandi bakteríur eru algengasta tegund tilkynningarskyldra sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi. Tilkynningar meir en tvöfölduðust á árunum 2015–2019 en fækkaði árin 2020–2022 á meðan COVID-19 faraldur stóð yfir. Árið 2023 fjölgaði tilfellum á ný og greindust þá 500 einstaklingar með ESBL/AmpC. Mikilvægt er að vinna gegn þeirri þróun að algengi ónæmra sýkla aukist enn frekar.

Sóttvarnalæknir

Sjá nánar: