Fara beint í efnið

21. nóvember 2022

Vel heppnað málþing á Sýklalyfjadeginum 18. nóvember og tengill á upptöku

Föstudaginn 18. nóvember var haldið málþing á vegum sóttvarnalæknis í tilefni Evrópudags vitundarvakningar um sýklalyf í húsnæði embættis landlæknis. Málþingið var tekið upp til að gera sem flestum kleift að horfa og hlusta á erindin.

Vitundarvakning um sýklalyf - logo

Föstudaginn 18. nóvember var haldið málþing á vegum sóttvarnalæknis í tilefni Evrópudags vitundarvakningar um sýklalyf í húsnæði embættis landlæknis að Katrínartúni 2. Málþingið var tekið upp til að gera sem flestum kleift að horfa og hlusta á erindin.

Margt áhugavert kom fram í erindum og umræðum á málþinginu. Notkun sýklalyfja hefur dregist töluvert saman á síðustu árum hérlendis þó notkun hafi aukist nokkuð á ný síðasta árið. Ljóst er að COVID-19 faraldurinn hafði mikil áhrif á tíðni sýkinga í samfélaginu og notkun sýklalyfja.

Heilsugæslan hefur um árabil rekið verkefni (Strama) um allt land til að bæta sýklalyfjanotkun utan sjúkrahúsa, en verkefnið er að sænskri fyrirmynd. Verkefnið hefur borið góðan árangur og hefur ávísunum heimilislækna á sýklalyf fækkað síðustu ár.

Sýklalyfjagæsla á sjúkrahúsum felst í virku eftirliti með notkun sýklalyfja og getur umtalsvert fjármagn sparast með slíku aðhaldi. Barnaspítali Hringsins hefur í nokkur ár rekið virka sýklalyfjagæslu og hefur almenn ánægja verið með verkefnið.

Staðan hvað varðar ónæma sýkla er nokkuð góð hér á landi miðað við mörg önnur Evrópulönd en þó hefur tíðni ýmissa ónæmra sýkla aukist á síðustu árum. Meðal annars greindust í fyrsta sinn á þessu ári einstaklingar hérlendis með karbapenemasa-myndandi sýkla með uppruna innanlands.

Sýkingavarnir eru lykilatriði til þess að koma í veg fyrir sýkingar á sjúkrahúsum sem og í samfélaginu, eins og COVID-19 faraldurinn leiddi í ljós.

Hugtakið Ein Heilsa (One Health) á vel við sýklalyfjaónæmi því ónæmir sýklar geta borist milli manna, dýra, matvæla og umhverfis. Notkun sýklalyfja fyrir dýr og algengi ónæmra sýkla hefur verið lágt á Íslandi samanborið við önnur Evrópulönd.

Fundargestir voru sammála um mikilvægi þess að stjórnvöld setji fram hnitmiðaða landsáætlun um aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmi sem fyrst.

Sóttvarnalæknir