Fara beint í efnið

2. september 2022

Úttekt embættis landlæknis á Heilsuvernd – læknisþjónusta við hjúkrunarheimili

Samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007 ber embætti landlæknis að fylgjast með gæðum og öryggi heilbrigðisþjónustunnar og stuðla að umbótum.

Landlæknir logo

Úttektir eru hluti af eftirliti embættis landlæknis með heilbrigðisþjónustu og eru þær einkum áhættutengdar og gagnadrifnar, þ.e. þegar gögn eða ábendingar gefa tilefni til að ætla að umbóta sé þörf.

Gerð var úttekt á þeim þætti í starfsemi Heilsuverndar, sem er læknisþjónusta á hjúkrunarheimilum. Úttektin var að frumkvæði embættis landlæknis. Tilefni úttektarinnar var að fyrirkomulag læknisþjónustu Heilsuverndar við hjúkrunarheimili er nýtt af nálinni í íslensku heilbrigðiskerfi og af vaxandi umfangi. Sömuleiðis hafði verið tilkynnt um alvarleg atvik sem embættinu þótti ástæða til að fylgja eftir með þessum hætti.

Úttektin tók til atriða er varða stefnumörkun, stjórnun, þjónustu, starfshætti, gæðastarf, öryggismenningu og mönnun. Úttektin afmarkaðist við læknisþjónustu sem Heilsuvernd sinnir á hjúkrunarheimilum. Í skýrslunni er með Heilsuvernd átt við þá einingu Heilsuverndar, sem sér um læknisþjónustu á hjúkrunarheimilum. Við gerð úttektarinnar áttu starfsmenn embættisins fundi með stjórnendum Heilsuverndar, læknum o.fl. en jafnframt var stuðst við gögn um starfsemina og fyrirliggjandi gögn hjá embættinu skoðuð. Embættið þakkar stjórnendum og starfsfólki Heilsuverndar sem og stjórnendum og starfsfólki Hrafnistu, Vigdísarholts og Sjálfsbjargarheimilisins góða samvinnu við úttektina.

Ábendingar embættisins taka meðal annars til að hafa þurfi Áætlun um gæðaþróun í heilbrigðisþjónustu 2019-2030 til hliðsjónar í starfseminni, Heilsuvernd þurfi að setja sér valgæðavísa, leggja fyrir þjónustukannanir og að efla þurfi þekkingu lækna á mikilvægi atvikaskráningar og tryggja að atvik séu skráð.

Embætti landlæknis mun fylgja framangreindum ábendingum eftir. Heilsuvernd mun senda embættinu umbótaáætlun í lok nóvember 2022 og framgangsskýrslu í apríl 2023.

Nánari upplýsingar veitir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis.

kjartanh@landlaeknir.is