Fara beint í efnið

30. apríl 2024

Þátttaka í almennum bólusetningum

Almennar bólusetningar eru þær bólusetningar sem sóttvarnalæknir skipuleggur og samræmir um land allt samanber sóttvarnalög. Heilsugæslan sér síðan um framkvæmdina.

Mynd. Barn fyrir frétt um bólusetningar.

Samkvæmt reglugerð skulu bólusetningar sem sóttvarnalæknir skipuleggur vera börnum með lögheimili á Íslandi þeim að kostnaðarlausu. Allar bólusetningar á Íslandi eru valfrjálsar.

Gagnsemi bólusetninga

Bólusetning er besta vörnin gegn smitsjúkdómum. Bólusetningar virka með því að kenna ónæmiskerfinu hvernig á að berjast gegn sjúkdómi ef það kemst í snertingu við hann. Þetta dregur mjög úr hættu á að veikjast alvarlega eða dreifa sjúkdómi til annarra. Stundum er hægt að gefa mörg bóluefni í einu til að vernda gegn nokkrum sjúkdómum en til eru bóluefni gegn fjölmörgum sjúkdómum.

Flest bóluefni innihalda veikt eða óvirkt form veiru eða bakteríu, eða lítinn hluta hennar, sem kallast mótefnavaki. Við bólusetningu greinir ónæmiskerfið mótefnavakann sem aðskotaefni. Þetta virkjar ónæmisfrumur til að framleiða mótefni og minnisfrumur til að muna eftir aðskotaefninu. Síðar, ef einstaklingurinn kemst í snertingu við raunverulegu veiruna eða bakteríuna, framleiðir ónæmiskerfið rétt mótefni og virkjar réttu ónæmisfrumurnar fljótt til að drepa veiruna eða bakteríuna, sem ver einstaklinginn gegn sjúkdómnum.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) áætlar að bólusetning komi í veg fyrir 3,5 til 5 milljónir dauðsfalla á hverju ári á heimsvísu af völdum sjúkdóma eins og barnaveiki, stífkrampa, kíghósa og mislingum. Áður en bólusetning varð almenn gegn mislingum geisuðu faraldrar á 2–3 ára fresti með um 2,5 milljón dauðsföllum hvert ár. Auk þess að koma í veg fyrir dauðsföll vernda bólusetningar gegn veikindum og alvarlegum fylgikvillum sjúkdóma s.s. lungnabólgu, heilabólgu, blindu, heyrnarleysi o.fl.

Öryggi bóluefna

Bóluefni undirgangast viðamiklar og strangar rannsóknir hjá mörg þúsund einstaklingum hvað varðar öryggi og árangur áður en þau eru tekin í notkun. Algengar aukaverkanir eru viðbrögð ónæmiskerfis við bólusetningunni svo sem hiti, útbrot, bein- og vöðvaverkir. Sjaldgæfari aukaverkun eru ofnæmisviðbrögð.

Áfram er fylgst náið með hugsanlegum aukaverkunum bóluefna eftir að þau hafa verið tekin í notkun, sérstaklega til að missa ekki af afar sjaldgæfum aukaverkunum. Milljónum bólusetninga er því fylgt eftir við raunverulegar aðstæður og athugað hvort eitthvað kemur upp á. Með þessu móti er hægt að finna mjög sjaldgæfar aukaverkanir.

Niðurstöður slíkra rannsókna hafa sýnt að alvarlegar aukaverkanir bóluefna sem notuð eru í almennum bólusetningum eru afskaplega fátíðar, eða um 1 aukaverkun á hverjar 500 þúsund til milljón bólusetningar. Þetta þýðir að á Íslandi má búast við 1 alvarlegri aukaverkun á um 40 ára fresti, sem er óverulegur fjöldi í samanburði við þann árangur sem sést af bólusetningum. Setja þarf það einnig í samhengi við alvarlega fylgikvilla þeirra sjúkdóma sem verið er að bólusetja gegn, svo sem mislinga.

Alvarlegir fylgikvillar sjúkdóma sem bólusett er gegn

Mislingar eru dæmi um sjúkdóm sem bólusett er gegn í almennum bólusetningum. Mislingar geta haft alvarlegar afleiðingar. Oftast batna mislingar án þess að valda meiri vandamálum. Þeir sem eru í mestri hættu á fá fylgikvilla eru m.a. börn sem eru yngri en 1 árs og börn með veiklað ónæmiskerfi. Ef barnshafandi kona fær mislinga er mikil hætta á fósturláti, fyrirburafæðingu og fleiri vandamálum hjá móður og barni.

Algengir fylgikvillar mislinga eru:

  • Niðurgangur (1 af hverjum 10 tilfellum)

  • Eyrnabólga (1 af 10)

  • Augnsýkingar (1 af 10, sérstaklega vannærð börn)

  • Lungnabólga (1 af hverjum 20 en mislingalungnabólga getur verið lífshættulegt ástand).

  • Aukin tíðni ýmissa bakteríusýkinga fylgir mislingum í a.m.k. nokkra mánuði eftir mislingaveikindin.

Óalgengir alvarlegir fylgikvillar eru:

  • Blinda (2 af hverjum 1.000 tilfellum, sérstaklega vannærð börn)

  • Heilabólga (hjá 1 af hverjum 1.000 og er lífshættulegt ástand)

    • Hæggeng tegund heilabólgu getur komið fram seinna, oftast 7–10 árum eftir mislingasýkinguna og er banvæn.

  • Dauði en ein af hverjum 1.000 mislingasýkingum hjá börnum veldur dauða (mest börn yngri en 5 ára).

Skráning bólusetninga

Rétt skráning bólusetninga er forsenda þess að hægt sé að leggja mat á líkurnar á að faraldur brjótist út berist til landsins smitandi sjúkdómur sem bólusett er gegn í almennum bólusetningum.

Allar bólusetningar skal skrá og sóttvarnalæknir heldur skrá um bólusetningar samkvæmt reglugerð. Sóttvarnalæknir fylgist þannig með þátttöku í almennum bólusetningum og gefur út samantekt ár hvert. Rauntímaeftirlit með bólusetningum barna er hins vegar í höndum heilsugæslunnar, sem sér um framkvæmdina. Mælt er með að almennar bólusetningar sem gerðar eru erlendis séu einnig skráðar, til dæmis þegar barn flytur milli landa til að þátttökutölur séu sem réttastar.

Þátttaka í almennum bólusetningum barna

Bólusetningar barna eru fyrst og fremst til að verja barnið fyrir alvarlegum veikindum. Fyrir almennar bólusetningar fást hins vegar mest áhrif ef sem flestir þiggja bólusetninguna því með nægri þátttöku verndum við einnig samfélagið. Ef næg þátttaka fæst verndum við einnig þau börn sem geta ekki fengið bólusetningar, til dæmis ungbörn, og einnig börn og fullorðna, sem hafa undirliggjandi ástand eða sjúkdóma til dæmis ónæmisbælingu.

Fyrir almennar bólusetningar eru til viðmiðunarmörk um hvað telst næg þátttaka. Fyrir sum bóluefni eru mörkin vel skilgreind og vitað að hætta er á að faraldrar brjótist út ef þeim er ekki náð í samfélaginu (til dæmis MMR bóluefni gegn mislingum). Fyrir önnur byggja mörkin á hefð eða útreikningum.

Þrátt fyrir að bólusetningar gegn smitsjúkdómum sé ein farsælasta og hagkvæmasta lýðheilsuaðgerðin sem er notuð í heiminum, er þátttaka á sumum stöðum umtalsvert áhyggjuefni. Bólusetning gegn mislingum er mikilvægt dæmi, en árið 2023 náðu aðeins 4 af 30 ESB/EES-ríkjum 95% takmarkinu, varðandi bólusetningarþekju fyrir mislinga fyrir báða skammta (fyrsta og annan).

Ef þátttaka er undir viðmiðunarmörkum er mikilvægt fyrir heilbrigðisyfirvöld að vita ástæður þess og reyna að bregðast við á markvissan hátt. Árin 2021 og 2022 dalaði þátttaka í seinni skammti MMR bólusetningar gegn mislingum hér á landi og var þátttakan undir 90% bæði árin (sjá mynd). COVID-19 faraldurinn setti mikið álag á samfélög og heilbrigðisþjónustu árin 2020 til 2022 en bráðabirgðatölur fyrir árið 2023 gefa til kynna að þátttakan þá var ekki mikið betri. Við erum því enn að vinna okkur út úr þessu ástandi. Ljóst er að með ónógri þátttöku er hætta á að mislingar breiðist hér út berist smit til landsins. Við þurfum því að gera betur. Full ástæða er til að grípa til bólusetningarátaks nú en síðan þarf að fylgja því eftir með upplýsingagjöf og frekari aðgerðum til að bæta þátttökuna áfram.

Mynd. Þátttaka barna í MMR bólusetningum.

Sóttvarnalæknir

Tilvísanir: