Fara beint í efnið

16. júní 2023

Stafræn örorkuskírteini á Ísland.is.

Stafræn örorkuskírteini í Ísland.is appinu og á Mínum síðum Ísland.is.

Thuridur_obi_og_huld_tr

Í dag var opnað fyrir þann möguleika að sækja stafræn örorkuskírteini í Ísland.is appinu og á Minum síðum Ísland.is.

Undir flokknum skírteini hjá Ísland.is var fyrir að finna stafrænt ökuskírteini, vinnuvéla- og ADR réttindi, skotveiði- og skotvopnaleyfi ásamt vegabréfsupplýsingar.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður ÖBÍ var fyrst til að sækja stafræna örorkuskírteinið í snjallsímann sinn.

„Ég trúi því að stafrænt örorkuskírteini verði til þæginda fyrir okkur öll sem notum snjallsíma og það er mjög ánægjulegt að þetta skref hafi nú verið tekið af TR,“

sagði Þuríður af þessu tilefni.

„Bætt aðgengi að þjónustu er okkur hjá TR hugleikið,“ sagði Huld Magnúsdóttir forstjóri TR og bætti því við að með því að hafa örorkuskírteinið í símanum væri það ávallt við hendina og þægilegt að framvísa því. „Það er von okkar að þessi nýbreytni komi sér vel fyrir viðskiptavini okkar“.

Gott samstarf TR og Stafræns Íslands

Hingað til hefur verið hægt að nálgast örorkuskírteinin á Mínum síðum TR og panta plastkort, en nú er einnig hægt að nálgast skírteinið stafrænt á Ísland.is.

"Við hjá Stafrænu Íslandi erum í miklu og góðu samstarfi við Tryggingastofnun. Stafrænt örorkuskírteini er aðeins eitt af fjölmörgum verkefnum sem eru í vinnslu en við vonumst til að það einfaldi líf þeirra sem stofnunin þjónar og vinnu starfsfólksins, "

sagði Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns Íslands.

Ýmis konar afslættir

Þau sem eru með 75% örorkumat eiga rétt á örorkuskírteinum og er gildistími kortanna sá sami og örorkumatsins. Örorkuskírteinin eru ekki ígildi persónuskilríkja en veita handhöfum þeirra ýmis konar afslætti hjá fjölmörgum fyrirtækjum og stofnunum. Hér má sjá yfirlit á vef ÖBÍ yfir þessa aðila.

Um 600 plast örorkuskírteini hafa verið gefin út að meðaltali í hverjum mánuði frá því í ágúst á síðasta ári og því er ljóst að þessi nýjung á eftir að gagnast mörgum.

Myndatexti:

Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður ÖBÍ og Huld Magnúsdóttir forstjóri TR eru ánægðar að fá stafræna örorkuskírteinið í snjallsíma.

Sækja Ísland.is appið

Skoða skírteini á Mínum síðum Ísland.is

Nánar um stafrænt örorkuskírteini á Ísland.is

Frétt um stafrænt örorkuskírteini á vef Tryggingastofnunar