14. október 2025
14. október 2025
Sjálfsvíg og sjálfsvígsforvarnir – ársskýrsla 2025
Embætti landlæknis hefur lokið samantekt á tölum um sjálfsvíg fyrir árið 2024 og birt tölur þess efnis. Samhliða var tölfræði um allar dánarorsakir uppfærð. Sjálfsvíg á síðasta ári voru 48 talsins eða 12,4 á hverja 100.000 íbúa.

Vert er að hafa í huga að vegna fámennis þjóðarinnar þá geta litlar breytingar á fjölda valdið nokkrum sveiflum í dánartíðni milli ára. Því er mikilvægt að túlka ekki tölur fyrir eitt ár sem vísbendingu um aukningu eða samdrátt á tíðni sjálfsvíga heldur horfa frekar á lengra tímabil. Ef horft er til síðustu fimm ára, frá 2020 - 2024 voru að meðaltali 42,8 sjálfsvíg á ári eða 11,5 á hverja 100.000 íbúa.
Gagnvirkt mælaborð og úrvinnsla gagna
Opinber tölfræði um sjálfsvíg byggir á skráðum upplýsingum á dánarvottorðum einstaklinga með lögheimili á Íslandi við andlát, sem skráðar eru í dánarmeinaskrá landlæknis. Fjöldi sjálfsvíga tekur til andláta þar sem undirliggjandi dánarorsök á dánarvottorði er skráð sem vísvitandi sjálfsskaði (ICD-10 kóðar: X60-X84).
Ítarlegar tölur um sjálfsvíg má finna á vef embættis landlæknis, bæði í töflum og í gagnvirku mælaborði.
Ársskýrsla sjálfsvígsforvarna 2025
Hjá Lífsbrú - miðstöð sjálfsvígsforvarna er haldið utan um vinnu við sjálfsvígsforvarnir á Íslandi. Lífsbrú stuðlar að samvinnu meðal þeirra sem vinna að málaflokknum innanlands og er í samstarfi um forvarnir erlendis.
Ný aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi var gefin út í mars á þessu ári. Áætlunin byggist upp á sjö köflum sem innihalda 26 mikilvægar aðgerðir. Fylgjast má með stöðu og framvindu aðgerða í gagnvirku mælaborði, bæði á vef embættis landlæknis og á vef stjórnarráðs Íslands.
Lífsbrú hefur nú birt ársskýrslu fyrir árið 2025. Tilgangurinn með skýrslunni er að gefa heildstæða mynd af stöðu sjálfsvígsforvarna á landsvísu á liðnu ári. Skýrslan dregur fram helstu verkefni, samvinnu og árangur á sviði sjálfsvígsforvarna.
Frekari upplýsingar
Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri Lífsbrúar - miðstöðvar sjálfsvígsforvarna gudrun.j.gudlaugsdottir@landlaeknir.is
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is