Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

15. desember 2025

RSV bólusetningar hafa gengið vel

Í október var sett af stað átak í RSV bólusetningum barna sem fæðst hafa eftir lok síðasta RSV tímabils, eða frá 1. maí 2025.

Mynd 1. Þátttaka í RSV bólusetningunum hefur verið mjög góð og einna best hjá þeim sem hafa fengið bólusetningu skömmu eftir fæðingu.

Börn fædd áður en mótefnið kom til landsins hafa flest fengið bólusetninguna í ungbarnavernd sem var á áætlun í október eða nóvember. Börn fædd 3. október og síðar hafa verið bólusett eins fljótt og kostur hefur gefist eftir fæðingu, mörg á fæðingarstað en önnur í heilsugæslunni eða heimaþjónustu. Í einhverjum tilvikum hefur bólusetning ekki farið fram vegna skorts á réttum skammti af mótefninu þar sem skammtar fyrir börn sem náð hafa 5 kg þyngd kláruðust um miðjan nóvember. Tekið verður mið af þeirri staðreynd við undirbúning átaksins sem fram fer næsta vetur og óskað verður eftir við framleiðanda að fá hlutföllum skammta breytt í sendingu sem berast mun til landsins haustið 2026.

Börn fædd í október−janúar eru að meðaltali yfir 60% þeirra barna á fyrsta ári sem þurfa innlögn vegna RSV. Það er því sérstaklega mikilvægt að ná til þeirra barna sem ekki hafa fengið bólusetningu við fæðingu sem allra fyrst til að draga úr líkum á að þau smitist af RSV áður en bólusetning er gefin og virðist það ganga vel (sjá mynd 1). Mjög lítið er um skráðar hafnanir, en skylt er að skrá ástæðu í miðlægan bólusetningagrunn ef barn er ekki bólusett samkvæmt almennu skipulagi sóttvarnalæknis.

Átaki til að ná til barna sem fæddust áður en mótefnið barst til landsins er nú lokið og verður bólusetningum þeirra ekki haldið áfram á nýju ári heldur færist áhersla í bólusetningum alfarið yfir á bólusetningu við fæðingu meðan RSV er enn í gangi hér.

RSV greiningar hjá Sýkla- og veirufræðideild LSH

Mynd 2. RSV greiningar hjá sýkla- og veirufræðideild LSH hafa verið fremur fáar undanfarnar vikur miðað við sömu tímabili síðastliðna tvo vetur

RSV dreifing í vetur

RSV hefur stungið sér niður hér undanfarnar vikur en útbreiðsla er mun minni en á sama tíma síðustu tvö ár (mynd 2). Þekkt er að RSV faraldrar eru mjög misþungir milli ára og er ekki hægt að eigna bólusetningum ungbarna minni útbreiðslu í öðrum aldurshópum. Hlutfallslega minna er um sýkingar hjá börnum á fyrsta æviári en við höfum vanist en vegna fárra greininga er ekki tímabært að áætla virkni bólusetninganna. Sýkingar hjá börnum í markhópi bólusetninga eru örfáar enn sem komið er og þau börn voru ekki bólusett. Nánari upplýsingar um RSV faraldur þessa tímabils og fyrri tímabila er að finna í mælaborði sem er aðgengilegt á vef embættis landlæknis.

Sóttvarnalæknir