Fara beint í efnið

26. október 2022

Rannsóknin Heilsa og líðan á Íslandi lögð fyrir í fimmta sinn

Embætti landlæknis stendur um þessar mundir fyrir viðamikilli rannsókn á heilsu og líðan landsmanna. Leitað hefur verið til 17 þúsund einstaklinga og þeir beðnir um að svara rafrænum spurningalista.

Heilsa og líðan logo -  Ísland á hvítum bakgrunni

Embætti landlæknis stendur um þessar mundir fyrir viðamikilli rannsókn á heilsu og líðan landsmanna. Leitað hefur verið til 17 þúsund einstaklinga og þeir beðnir um að svara rafrænum spurningalista.

Meginmarkmið þessarar rannsóknar er að leggja mat á heilsu, líðan og velferð fullorðinna og fylgjast með breytingum sem kunna að verða í tímans rás. Rannsóknin var fyrst framkvæmd árið 2007 og endurtekin árin 2009, 2012 og 2017. Þetta er því í fimmta sinn sem spurningalistinn Heilsa og líðan er lagður fyrir landsmenn og er fólki af erlendum uppruna, sem búsett eru hér á landi, nú boðið að taka þátt í fyrsta sinn.

Niðurstöður fyrri rannsókna hafa reynst dýrmætur efniviður sem nýttur hefur verið af embættinu, stjórnvöldum, háskólasamfélaginu og öðrum sem koma að mikilvægum ákvörðunum, aðgerðum og rannsóknum er varða heilsu og velferð landsmanna.

Það er ósk mín að þeir sem valist hafa til þátttöku í þetta sinn bregðist vel við beiðni embættisins um að svara spurningalista en gögnin eru ópersónugreinanleg þegar þau eru unnin. Með þátttöku fá landsmenn tækifæri til þess að leggja sitt af mörkum til að auka þekkingu á heilsufari fullorðinna en sú þekking mun nýtast til að efla lýðheilsu. Góð þátttaka eykur gildi rannsóknarinnar til muna og er framlag hvers og eins mikils virði og mikils metið.


Alma D. Möller landlæknir