16. maí 2024
16. maí 2024
Öndunarfærasýkingar. Vikur 18 og 19 árið 2024
Í nýrri samantekt er farið yfir tíðni öndunarfærasýkinga hérlendis og innlagna vegna þeirra í viku 18 og 19 og staðan í Evrópu reifuð.
Fjöldi inflúensutilfella er á niðurleið eftir að hafa sveiflast nokkuð í vetur. Fáir greinast með COVID-19 og enginn með RSV um þessar mundir.
Í viku 18 lágu 20 einstaklingar á Landspítala með eina af sex algengustu öndunarfæraveirunum, þar af sex með inflúensu og í viku 19 voru 16 einstaklingar inniliggjandi, þar af fjórir með inflúensu.
Frá byrjun apríl þessa árs, til og með 15. maí sl., hafa 43 einstaklingar greinst með kíghósta hér á landi, staðfest með PCR prófi. Þar að auki hafa 36 einstaklingar fengið klíníska greiningu. Eru þetta fyrstu tilfellin sem greinst hafa hérlendis síðan 2019.
Tvö tilfelli mislinga greindust hér nýlega, þau fyrstu síðan árið 2019, en engin önnur tilfelli hafa greinst út frá þeim.
Þetta verður síðasta tölublað öndunarfærasýkinga þetta flensutímabil en sóttvarnalæknir mun áfram birta stakar fréttir ef tilefni er til vegna sýkinga sem varða almannaheill.
Sóttvarnalæknir