6. mars 2025
6. mars 2025
Öndunarfærasýkingar – Vika 9 2025
Mælaborð sóttvarnalæknis um öndunarfærasýkingar hefur verið uppfært með gögnum út viku 9 ársins 2025 (24. febrúar-2. mars 2025).
Staðan á Íslandi
Fjöldi greininga á bæði inflúensu og RS-veirusýkinga stefnir niður á við. Áfram greinast fáir með COVID-19. Fjöldi greininga á öðrum öndunarfæraveirum hefur sveiflast undanfarnar vikur. Stöku tilfelli kíghósta greinast áfram en þó í mun minna mæli en þegar faraldur gekk yfir síðastliðið vor.
Inflúensa, RS-veirusýking og COVID-19
Fjöldi greininga á inflúensu stefnir rólega niður á við. Samtals greindust 28 einstaklingar í viku 9, þar af 17 með inflúensutegund A(pdm09), fimm með tegund A(H3) og sex með inflúensutegund B. Þeir sem greindust voru í öllum aldurshópum en tveir einstaklingar voru undir fimm ára aldri, þrír voru í aldurshópnum 5–14 ára, 11 voru 15–64 ára og 12 voru 65 ára eða eldri.
Átta einstaklingar voru inniliggjandi á Landspítala með inflúensu í viku 9, þar af fimm í aldurshópnum 65 ára og eldri, tveir 15–64 ára og eitt barn undir 5 ára. Þá dvöldu 11 einstaklingar á bráðamóttökum í lengri eða skemmri tíma með inflúensu, en þessum fjölda hefur farið fækkandi undanfarnar vikur.
Fjöldi greindra RS-veirusýkinga fer áfram fækkandi. Í viku 9 greindust fimm einstaklingar, þar af tveir í aldurshópnum 15–64 ára, eitt barn 1–2 ára og tvö börn undir eins árs aldri. Tvö börn lágu á Landspítala með RS-veirusýkingu, bæði á fyrsta ári.
Einn einstaklingur á aldrinum 15–64 ára greindist með COVID-19. Enginn lá á Landspítala með COVID-19.
Aðrar öndunarfærasýkingar
Fjöldi greininga á öndunarfæraveirum, öðrum en inflúensu, RSV og SARS-CoV-2, hefur sveiflast undanfarnar vikur. Áfram greinist stærstur hluti með rhinoveiru (kvef), en í viku 9 var kórónaveira öðrum en SARS-CoV-2 næst algengasta greiningin. Líkt og í viku 8 greindist einnig meira af Human Metapneumoveiru í viku 9 samanborið við undangengnar vikur þessa vetrar. Heldur færri öndunarfærasýni voru greind í viku 9 samanborið við undanfaranar vikur eða 191 sýni. Hlutfall jákvæðra sýna hefur sveiflast frá lokum ársins 2024 og var það 46% í viku 9.
Fjöldi greininga á Mycoplasma bakteríusýkingu (greiningar lækna óháð rannsóknarniðurstöðu) var svipaður og verið hefur en í viku 9 greindust tveir einstaklingar. Einn á aldrinum 5–14 ára greindist með kíghósta í viku 9. Tveir bættust við greiningar viku 8 og greindust þá samtals þrír í þeirri viku, allir á aldrinum 15–64 ára.
Staðan í Evrópu
Áfram er talsvert um öndunarfærasýkingar í ríkjum ESB/EES.
Inflúensufaraldur virðist hafa náð hámarki í meirihluta ríkja en tilfellum fer þó fjölgandi í einhverjum ríkjum. Tíðni innlagna á sjúkrahús, sem hefur verið mjög há undanfarið, virðist nú fara lækkandi. Tíðni innlagna er hæst meðal einstaklinga 65 ára og eldri.
Staðan á RS-veirusýkingum er misjöfn eftir ríkjum en heilt yfir fer tíðnin lækkandi. Innlagnir á sjúkrahús vegna RS-veirusýkinga eru tíðastar meðal barna undir fimm ára aldri.
Tíðni COVID-19 (SARS-CoV-2 sýkinga) er mjög lág í flestum ríkjum ESB/EES.
Sjá frekari upplýsingar á vef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins.
Almennar sóttvarnir, við minnum á að:
Varast umgengni við aðra sem eru með einkenni sýkingar.
Vera heima á meðan þú hefur einkenni og þangað til vel á batavegi og hitalaus í sólarhring.
Hylja munn og nef við hósta og hnerra.
Sýna sérstaka varúð í nánd við viðkvæma einstaklinga ef þú ert með einkenni sýkingar.
Þvo hendur oft og vel.
Þrífa sameiginlega snertifleti og lofta út í sameiginlegum rýmum eins og hægt er.
Íhuga notkun andlitsgrímu í fjölmenni.
Grímunotkun í heilbrigðisþjónustu á meðan inflúensufaraldur er í hámarki getur dregið úr útbreiðslu til viðkvæmra einstaklinga.
Sóttvarnalæknir