21. nóvember 2024
21. nóvember 2024
Öndunarfærasýkingar – Vika 46 2024
Mælaborð sóttvarnalæknis um öndunarfærasýkingar hefur verið uppfært með gögnum út viku 46 (11.–17. nóvember 2024).
RS-veirusýkingar stefna áfram upp á við en 15 einstaklingar greindust í viku 46, meirihluti þeirra tveggja ára eða yngri. Fimm einstaklingar lágu inni á Landspítala með RS-veirusýkingu, þar af fjögur börn á aldrinum tveggja ára eða yngri.
Inflúensugreiningum fækkaði milli vikna en þrír einstaklingar greindust í viku 46, tveir með inflúensutegund A(H3) og einn með tegund A(pdm09). Þeir sem greindust voru allir í sitt hvorum aldurshópnum. Enginn lá á Landspítala með inflúensu.
Í viku 46 greindust átta einstaklingar með COVID-19. Meirihluti þeirra var í aldurshópnum 65 ára og eldri og sex lágu inni á Landspítala þessa viku.
Tæpur helmingur sem greindist með öndunarfæraveirusýkingu, aðra en COVID-19, inflúensu eða RS-veirusýkingu, greindist með rhinoveiru (kvef). Fjöldi öndunarfærasýna sem fór í veirugreiningu hefur verið stöðugur undanfarnar vikur. Hlutfall jákvæðra sýna af heildarfjölda sýna hefur þokast upp á við á haustmánuðum og var rúm 34% í viku 46.
Staðan í Evrópu
Tíðni öndunarfærasýkinga er svipuð og á þessum árstíma undanfarna vetur. Enn er almennt lítið um inflúensu og RS-veirusýkingar í ríkjum ESB/EES en þó er sums staðar farið að bera á aukningu. Áfram er lítið um COVID-19 í samanburði við fjölda greininga í sumar. Sjá frekari upplýsingar á vef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins.
Forvarnir
Bólusetningar eru áhrifaríkasta vörnin gegn alvarlegum veikindum vegna öndunarfæraveirusýkinga. Haustbólusetningar vegna COVID-19 og inflúensu eru í gangi og einstaklingar eldri en 60 ára og aðrir einstaklingar í áhættuhópum eru hvattir til að þiggja bólusetningu en þeir eru í mestri hættu á alvarlegum veikindum. Þátttaka 60 ára og eldri hér á landi í bólusetningum gegn inflúensu er nú rúmlega 40%, sem er töluvert undir viðmiði.
Við minnum einnig á almennar sóttvarnir, sjá upplýsingar á vef embættis landlæknis.
Sóttvarnalæknir