Fara beint í efnið

17. október 2024

Öndunarfærasýkingar. Vika 41 2024

Sóttvarnalæknir birtir reglulega samantektir á tíðni öndunarfærasýkinga yfir vetrartímann. Einnig er fyrirhuguð birting á mælaborði með tölulegum upplýsingum um öndunarfærasýkingar í vetur og undangengna vetur.

Mynd. Kona með flensu

COVID-19, inflúensa og RS-veira

Einstaklingum sem greinst hafa með COVID-19 í viku hverri hefur fækkað í haust eftir tímabundna aukningu á greiningum í sumar. Í viku 41 (7. –13. október) greindust 25 einstaklingar með COVID-19, annað hvort með PCR-prófi eða klínískri greiningu (greining læknis án rannsóknar).

Stöku tilfelli inflúensu greindust í sumar og í byrjun hausts. Einn greindist í viku 41 og hafði þá enginn greinst síðan í viku 36 (byrjun september). Sá sem greindist í viku 41 var í aldurshópnum 65 ára og eldri og greindist með inflúensutegund A(pdm09).

Stöku tilfelli RS-veiru greindust í sumar. Eitt barn á aldrinum á aldrinum 1–2 ára greindist í viku 39 og hafði þá enginn greinst síðan í viku 32 (byrjun ágúst). Eitt barn undir eins árs aldri greindist með RS-veiru í viku 41.

Haustbólusetningar eru hafnar á heilsugæslustöðvum og víðar. Sóttvarnalæknir hvetur einstaklinga í áhættuhópum til þess að þiggja bólusetningu gegn inflúensu og COVID-19.

Kíghósti

Kíghóstagreiningum hefur fækkað mikið frá því faraldur braust út í vor. Frá byrjun september hafa á bilinu þrír til átta einstaklingar greinst vikulega með kíghósta, annað hvort með PCR-prófi eða klínískri greiningu. Í viku 41 greindust þrír með kíghósta, einn á aldrinum 1–2 ára og tveir á aldrinum 15–64 ára.

Aðrar öndunarfæraveirur

Í sumar og á fyrstu vikum haustsins greindist mest af rhinoveiru (kvefi) af öndunarfæraveirum á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Sjá frekari upplýsingar á vef Landspítala.

Innlagnir á Landspítala

Í viku 41 lágu níu einstaklingar á Landspítala með COVID-19, þar af átta 65 ára eða eldri. Eitt barn undir eins árs aldri var inniliggjandi með RS-veiru.

Staðan í Evrópu

Líkt og hér á landi hefur greiningum á COVID-19 fækkað í ESB/EES-ríkjum í haust í kjölfar tímabundinnar aukningar í sumar. Greiningar á inflúensu og RS-veiru eru í lágmarki um þessar mundir. Haustbólusetningar eru farnar af stað í mörgum löndum og eru eldri einstaklingar og aðrir áhættuhópar sérstaklega hvattir til þess að þiggja bólusetningu. Sjá frekari upplýsingar á vef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins.

Sóttvarnalæknir