Fara beint í efnið

Bólusetning gegn árlegri inflúensu veturinn 2024-2025

3. september 2024

Inflúensubóluefni verður tilbúið til afhendingar frá dreifingaraðila frá og með 1. október næstkomandi.

Mynd. Bólusetning

Bóluefni sem notað verður í bólusetningum veturinn 2024–2025 samkvæmt samningum sóttvarna­læknis við Vistor er Vaxigrip Tetra, 90.000 skammtar samkvæmt samningi við útboð 2019 og viðaukasamningum 2021.

Eins og undanfarin ár verður dreifingu forgangsraðað til hjúkrunarheimila og heilbrigðisstofnana sem bólusetja forgangshópa fyrstu vikurnar. Þess er vænst að bólusetningar forgangshópa geti hafist um allt land í byrjun október en aðrir sem fá úthlutað bóluefni fá það væntanlega síðar í október, þar með talið aðilar sem sinna almennum vinnustaðabólusetningum.

Dreifing bóluefnis til aðila sem sinna bólusetningum miðast við það magn sem pantað var eða skráð notað síðastliðinn vetur nema annað hafi komið fram í samskiptum sóttvarnalæknis við ábyrgðaraðila bólusetninga.

Sóttvarnalæknir mælist til að eftirtaldir áhættuhópar njóti forgangs við inflúensubólusetningar:

  • Allir einstaklingar 60 ára og eldri.

  • Öll börn fædd 1.1.2020–30.6.2024, sem hafa náð 6 mánaða aldri þegar bólusett er.

  • Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, offitu, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.

  • Barnshafandi konur.

  • Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.

Fólk í starfstengdri áhættu vegna samsmits árlegrar inflúensu og fuglainflúensu samanber frétt 2023.

Bóluefnið er forgangshópum að kostnaðarlausu.

Sóttvarnalæknir