Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

12. september 2025

Nýtt samstarfsverkefni Evrópuríkja til að efla öryggisbirgðahald lyfja og annars nauðsynlegs búnaðar til að bregðast við alvarlegum heilsufarsógnum

Heimsfaraldur COVID-19 leiddi í ljós að styrkja þyrfti viðbúnað Evrópusambandsins (ESB) gagnvart heilbrigðisvám.

Framboð á lækningavörum reyndist takmarkað, veikleikar voru í krísustjórnun og ósamræmi milli aðgerða aðildarríkja. Að auki hafa atburðir á borð við stríðið í Úkraínu, með vaxandi ógn af völdum eiturefna og geislavirkni (CBRN), sem og áhrif loftslagsbreytinga, undirstrikað enn frekar nauðsyn þess að bæta viðbúnað Evrópu í öryggis- og heilbrigðismálum.

Í því skyni hefur nýtt samstarfsverkefni innan ESB verið sett á laggirnar, undir heitinu JA STOCKPILE*. Verkefninu er ætlað að samræma og efla viðbúnað innan ESB/EES-svæðis og nágrennis til að bregðast við alvarlegum heilsufarsógnum sem geta haft áhrif þvert á landamæri. Verkefnið felur meðal annars í sér þróun öryggisbirgða lyfja og annars nauðsynlegs búnaðar svo tryggja megi betra aðgengi og skilvirka dreifingu í neyðarástandi.

Markmiðið er að Evrópa verði betur í stakk búin til að takast á við áföll í framtíðinni með áherslu á betri samhæfingu og meiri getu til að afla, geyma og dreifa nauðsynlegum búnaði til að bregðast við alvarlegum heilsufarsógnum.

JA STOCKPILE stuðlar að auknu samstarfi milli þátttökuríkja og betri yfirsýn yfir stöðu öryggisbirgða lyfja og lækningatækja innan Evrópu. Í verkefninu taka þátt 25 Evrópuríki og alls 54 stofnanir. Verkefnið mun standa yfir í þrjú ár og er styrkt af áætlun ESB á sviði heilbrigðismála (EU4Health).

Upphafsfundur verkefnisins fór fram dagana 9.–10. september 2025 í Helsinki, þar sem fulltrúar þátttökuríkja, helstu hagaðilar og sérfræðingar á þessu sviði komu saman. Á Íslandi eru sóttvarnalæknir og Lyfjastofnun þátttakendur.

Sóttvarnalæknir

Frekari upplýsingar

*JA STOCKPILE (Joint Action on Comprehensive and Sustainable Strategic Stockpiles of Medical Countermeasures Used in Crisis) er fjármagnað og framkvæmt samkvæmt áætlun ESB á sviði heilbrigðismála, EU4Health (2021 – 2027). Skoðanir og álit sem koma fram eru þó eingöngu höfundar og endurspegla ekki endilega skoðanir ESB eða HaDEA (European Health and Digital Executive Agency). Hvorki ESB né styrkveitandi geta borið ábyrgð á þeim.