20. mars 2024
20. mars 2024
Norræn könnun á mataræði og hreyfivenjum
Um þessar mundir er að hefjast þriðja umferð stórrar norrænnar könnunar á mataræði, hreyfivenjum og holdafari barna og fullorðinna ásamt áfengis- og tóbaksnotkun fullorðinna. Enskt heiti rannsóknarinnar er Nordic monitoring of diet, physical activity and overweight (NORMO).
Embætti landlæknis stendur að könnuninni hér á landi í samvinnu við rannsóknarfyrirtækið Gallup sem mun sjá um gagnasöfnun. Samstarf er við sérfræðinga frá sambærilegum stofnunum á hinum Norðurlöndunum. Þátttakendur eru valdir af handahófi úr þjóðskrá til þátttöku í könnuninni.
Markmiðið með könnuninni er að fylgjast með breytingum á matar- og hreyfivenjum ásamt holdafari á Norðurlöndunum fimm, Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð og að fá samanburðarhæf gögn milli landanna. Einnig verður könnuð áfengis- og tóbaksnotkun fullorðinna Norðurlandabúa. Mikilvægt er að fá samanburð milli tímabila til að nýta í lýðheilsustarfi næstu árin.
Hvert svar skiptir miklu máli
Góð þátttaka og velvilji almennings hefur mikið að segja til að sem réttust mynd fáist af lifnaðarháttum Norðurlandabúa. Þar sem venjur einstaklinga eru mismunandi tapast upplýsingar með hverjum þeim sem velur að taka ekki þátt í könnuninni. Því vilja skipuleggjendur könnunarinnar hvetja alla sem haft verður samband við til að taka þátt í henni.
Könnunin fer fram í síma en einnig er hægt að svara spurningalistanum á netinu. Símtalið frá Gallup mun taka 10-12 mínútur. Unnið verður með öll gögn í ópersónugreinanlegum gagnagrunni.
Nánari upplýsingar
Hólmfríður Þorgeirsdóttir og Jóhanna Eyrún Torfadóttir
Verkefnisstjórar næringar hjá embætti landlæknis