Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

24. nóvember 2025

Neysla gjörunninna matvæla á Íslandi – Niðurstöður úr Landskönnun á mataræði fullorðinna 2019-2021

Nýlega birtist vísindagrein í British Journal of Nutrition sem er byggð á landskönnun fullorðinna Íslendinga sem fram fór á árunum 2019-2020.

Í vísindagreininni var skoðað samband gjörunninna matvæla, samkvæmt Nova flokkunarkerfinu, og heilsusamlegs neyslumynsturs (e. dietary quality) í tengslum við ráðleggingar um mataræði sem embætti landlæknis gefur út. Einnig var skoðað samband gjörunninna matvæla við losun gróðurhúsalofttegunda. Fyrsti höfundur greinarinnar er Steina Gunnarsdóttir, doktorsnemi í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands.

Helstu niðurstöður

  • Að meðaltali komu 45% af orkunni (hitaeiningum) úr gjörunnum matvælum. Sá hópur sem borðaði mest af gjörunnum matvælum fékk að meðaltali um 64% af hitaeiningunum úr þessum matvælum

  • Hluti af því sem er ráðlagt að borða flokkast undir gjörunnin matvæli eins og heilkornabrauð og sumar mjólkurvörur. Hins vegar komu aðeins 4% af heildarorku þátttakenda úr gjörunnum matvælum sem ráðlagt er að borða sem hluti að heilsusamlegu mataræði

  • Sá hópur sem neytti minnst af gjörunnum matvælum borðaði meira af ávöxtum, grænmeti og heilkorni og var almennt með heilsusamlegra neyslumynstur

  • Miðgildi losunar gróðurhúsalofttegunda frá gjörunnum matvælum var 21% af heildarlosun. Hér þarf þó að hafa í huga að skilvirkni í framleiðslu getur dregið úr gróðurhúsalofttegundum og þegar kemur að gjörunnum matvælum þarf að hafa í huga önnur umhverfisáhrif eins og til dæmis vatnsnotkun og líffræðilegan fjölbreytileika.

  • Aðeins 1% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda mátti rekja til gjörunninna matvæla sem ráðlagt er að borða. Þetta bendir til þess að meirihluti gróðurhúsaloftegunda sem losna við framleiðslu gjörunninna matvæla sem neytt er á Íslandi komi frá matvælum eins og unnum kjötvörum, ís, sætindum, snakki, gos- og orkudrykkjum. Sé þessara matvæla neytt í miklu magni hefur það ekki aðeins neikvæðar afleiðingar fyrir heilsu, heldur veldur það einnig neikvæðum umhverfisáhrifum.

Niðurstöðurnar sýna tækifæri til að bæta heilsu og draga úr umhverfisáhrifum með því að minnka neyslu á gjörunnum matvælum svo sem unnum kjötvörum, ís, sælgæti, snakki ásamt gos- og orkudrykkjum. Aftur á móti er lögð meiri áherslu á að borða fæðutegundir úr jurtaríkinu eins og ávexti, grænmeti, belgjurtir og heilkornavörur sem meðal annars er mælt með í ráðleggingum um mataræði sem embætti landlæknis gefur út.

Mikilvægt er að til dæmis skólar og íþróttamannvirki skoði vel hvaða vörur eru í boði fyrir börn og ungmenni. Einnig þarf að huga að markaðssetningu gjörunninna matvara þar sem börn og ungmenni eru markhópurinn. Nýlega var samþykkt í Noregi að banna markaðssetningu slíkra vara til barna og ungmenna.

Rannsóknin, sem notaði gögn um mataræði Íslendinga á árunum 2019 til 2021, bendir til þess að landsmenn borði töluvert af gjörunnum matvælum. Þessi matvæli hafa oft langt geymsluþol og geta verið bæði þægileg í notkun og bragðgóð, en innihalda oft mikla orku og lítið af næringarefnum. Þegar leitað er að hollari valkosti þá getur verið gott að horfa eftir vörum sem eru merktar Skráargatinu. Þar undir falla meðal annars heilir ávextir og grænmeti. Hægt er að fá góðar hugmyndir að fljótlegum og hollum uppskriftum á vefsíðunni Gott og einfalt.

Frekari upplýsingar
Jóhanna Eyrún Torfadóttir og Hólmfríður Þorgeirsdóttir, verkefnisstjórar í næringu