Fara beint í efnið

7. maí 2024

Lykilvísar heilbrigðisþjónustu – uppfærðar tölur og nýtt mælaborð

Embætti landlæknis gefur í annað sinn út lykilvísa heilbrigðisþjónustu með nýrri tölum sem oftast eru frá árinu 2022 fyrir Ísland. Markmið útgáfunnar er að hafa á einum stað mælivísa sem gefa vísbendingar um lykilþætti í heilbrigðisþjónustu og sem hægt er að nota til samanburðar milli landa.

Mynd með frétt. Lykilvísar heilbrigðisþjónustu - mælaborð

Birtar eru mælingar fyrir Ísland og til samanburðar er sýnt meðaltal Norðurlanda í þeim tilvikum sem það liggur fyrir. Frekari umfjöllun, skilgreiningar og rökstuðning fyrir vali vísa má finna í ritinu Lykilvísar heilbrigðisþjónustu.

Til þess að auðvelda aðgengi að lykilvísunum eru þeir nú birtir í mælaborði sem annars vegar veitir yfirsýn yfir nýjustu mælingar á öllum vísum og hins vegar þróun hvers vísis fyrir sig nokkur undanfarin ár.

Fyrirhugað er að uppfæra mælaborðið einu sinni á ári með nýjustu mælingum sem liggja fyrir á hverjum tíma.

Lykilvísar heilbrigðisþjónustu – staðan 2022

  • Útgjöld til heilbrigðismála, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafa dregist saman frá 2021eftir að hafa hækkað COVID árin. Heildarútgjöld á mann hafa hækkað á Íslandi og á öðrum Norðurlöndum undanfarin ár, ekki síst COVID árin. Útgjöld til heilbrigðismála á Ísland eru áfram undir meðaltali Norðurlandanna samkvæmt báðum vísum.

  • Skortur er á heilbrigðisstarfsfólki um allan heim en á Íslandi hefur verið svipaður heildarfjöldi lækna á hverja 1.000 íbúa og að meðaltali á Norðurlöndum og hefur ekki orðið breyting á frá síðustu mælingu. Á Íslandi hafa hins vegar verið talsvert færri heimilislæknar á hverja 100.000 íbúa en að meðaltali á Norðurlöndum og hefur staðan lítið breyst síðustu ár. Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar hafa samanlagt verið heldur fleiri á hverja 1.000 íbúa á Íslandi en að meðaltali á Norðurlöndum en hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar eru teknir saman vegna þess hve menntun þessara starfshópa er mismunandi milli OECD landa sem torveldar samanburð. Starfsfólk í heilbrigðis- og félagsþjónustu sem hlutfall af heildarvinnuafli er og hefur verið talsvert undir meðaltali Norðurlanda. Hvað varðar aðra innviði heilbrigðisþjónustu þá eru sjúkrarúm á 1.000 íbúa álíka mörg á Íslandi og á öðrum Norðurlöndum en myndgreiningartæki fleiri.

  • Brýnt er að þátttaka einstaklinga í kostnaði við heilbrigðisþjónustu sé ekki svo mikil að það hefti aðgengi að þjónustunni og fólk fresti því að leita sér nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu. Einn mælikvarði á aðgengi að heilbrigðisþjónustu er hlutur heimila í heilbrigðisútgjöldum. Þetta hlutfall var 14,9% á Íslandi árið 2022 sem er ríflega einu prósentustigi yfir meðaltali Norðurlanda.

  • Góð þátttaka í bólusetningum barna vitnar um árangur heilsugæslu og hefur þátttaka á Íslandi verið svipuð eða heldur undir meðaltali Norðurlandanna þótt gera þurfi betur eins og bent hefur verið á nýlega. Þátttaka í skimunum fyrir brjóstakrabbameini og leghálskrabbameini hefur verið heldur undir meðaltali Norðurlandanna og farið lækkandi en stöðugt er unnið að umbótum þar á.

  • Ísland er um eða yfir meðaltali Norðurlanda er varðar marga vísa um árangur og gæði heilbrigðisþjónustu. Þannig er dánartíðni vegna dauðsfalla, sem hefði mátt koma í veg fyrir með árangursríkum lýðheilsuaðgerðum og fyrsta stigs forvörnum, og dánartíðni vegna meðhöndlanlegra sjúkdóma undir meðaltali Norðurlandanna. Dánartíðni vegna dauðsfalla sem hefði mátt koma í veg fyrir hækkaði heldur milli áranna 2020 og 2021. Dánartíðni vegna bráðrar kransæðastíflu innan 30 daga frá innlögn á sjúkrahús var heldur lægri á Íslandi en að meðaltali á Norðurlöndum. Hins vegar var dánartíðni heldur hærri vegna heilablóðfalls innan 30 daga frá innlögn en hefur lækkað frá 2020.

  • Hlutfall þeirra sem eru á lífi fimm árum eftir að hafa greinst með brjóstakrabbamein (91,5%), ristilkrabbamein (68,2%) og leghálskrabbamein (68,6%) á Íslandi er nálægt meðaltali Norðurlandanna. Sjúkrahúsinnlagnir vegna tiltekinna langvinnra sjúkdóma sem hefði mátt koma í veg fyrir með árangursríkri meðferð í heilsugæslu eru talsvert færri á Íslandi en að meðaltali á Norðurlöndunum.

  • Á Íslandi er talsvert meira ávísað af sterkum verkjalyfjum en að meðaltali á öðrum Norðurlöndum en það skýrist einkum af Parkódíni og meira um langtímanotkun benzódíazepínlyfja meðal aldraða. Ávísanir á sýklalyf á Íslandi eru yfir meðaltali Norðurlandanna, ávísunum fækkaði á COVID árunum en ávísanir á 1.000 íbúa eru nú aftur svipaðar og fyrir COVID.

  • Tíðni keisaraskurða á Íslandi er innan alþjóðlegra viðmiða og hefur tíðnin lækkað frá síðustu mælingu. Hlutfall fæðinga þar sem urðu alvarlegar spangarrifur var 3,8% árið 2021 og hafði heldur hækkað frá árinu áður eftir að hafa farið lækkandi í nokkur ár. Hlutfallið er yfir meðaltali Norðurlanda sem var 2,4% árið 2021.

Frekari upplýsingar
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is