Fara beint í efnið

18. apríl 2023

Lykilvísar heilbrigðisþjónustu

Lykilvísar heilbrigðisþjónustu eru gefnir út í fyrsta sinn í dag og er fjallað um vísana í nýútkomnum Talnabrunni.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Embætti landlæknis gefur nú í fyrsta sinn út lykilvísa heilbrigðisþjónustu. Markmið útgáfunnar er að auðvelda aðgengi að mælikvörðum sem gefa vísbendingar um tiltekna lykilþætti er varða heilbrigðisþjónustu á Íslandi og hvernig þeir eru í samanburði við nágrannalöndin. Það er von embættisins að útgáfa á lykilvísum heilbrigðisþjónustu muni styðja við ákvarðanatöku heilbrigðisyfirvalda og stjórnenda í heilbrigðisþjónustu með það að markmiði að hámarka árangur og gæði þjónustunnar.

Lykilvísar heilbrigðisþjónustu bætast nú við aðrar útgáfur embættisins á mælikvörðum. Frá árinu 2016 hefur embættið til að mynda gefið út árlega lýðheilsuvísa sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar á hverjum tíma. Lýðheilsuvísar eru greindir eftir búsetusvæðum, þ.e. heilbrigðisumdæmum og fjölmennustu sveitarfélögunum, þannig að unnt sé að bera saman búsetusvæði. Í lykilvísum heilbrigðisþjónustu er hins vegar sett fram heildartala fyrir allt landið og áhersla lögð á samanburð við nágrannalöndin. Þá hefur embættið einnig birt tiltekna lykilvísa úr rannsókninni Heilsa og líðan á Íslandi sem veita yfirsýn yfir heilsufarslegan ójöfnuð. Þar eru vísar greindir eftir kyni, menntun og erfiðleikum við að ná endum saman því ójöfnuður í heilsu og vellíðan er ekki sýnilegur ef eingöngu er litið á landsmeðaltöl.

Val á lykilvísum

Valdir voru vísar sem skilgreindir höfðu verið af OECD og byggja á gagnreyndri þekkingu. Valinn var takmarkaður fjöldi lykilvísa, eða 34 lykilvísar og er þeim skipt í þrjá meginflokka. Flokkarnir eru a) fjárfesting í heilbrigðisþjónustu, b) aðgengi og forvarnir og c) árangur og gæði heilbrigðisþjónustu.

Vísanir eru aðgengilegir í yfirlitstöflu og sýna breytingu milli mælinga og samanburð við önnur Norðurlönd eins og gögn leyfa. Taflan verður uppfærð árlega. Síðar verða vísanir settir fram í gagnvirku mælaborði, þar sem sjá má þróun þeirra yfir tíma. Á vef embættisins er stutt umfjöllun um hvern valinn lykilvísi og vísað í nánari umfjöllun á vefsíðu OECD.

Fjallað er um vísana í nýjasta Talnabrunni embættis landlæknis en þar kemur í stuttu máli fram eftirfarandi mynd af stöðu lykilvísa samkvæmt nýjustu upplýsingum, oftast 2020 eða 2021.

Lykilvísar heilbrigðisþjónustu - staðan 2020

  • Útgjöld til heilbrigðismála, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu og heilbrigðisútgjöld á mann hafa hækkað á Íslandi og á öðrum Norðurlöndum undanfarin ár, ekki síst COVID árið. Útgjöld til heilbrigðismála á Ísland eru samt sem áður undir meðaltali Norðurlandanna samkvæmt báðum vísum.

  • Skortur er á heilbrigðisstarfsfólki um allan heim en á Íslandi er svipaður heildarfjöldi lækna á hverja 1.000 íbúa og að meðaltali á Norðurlöndum. Á Íslandi eru hins vegar talsvert færri heimilislæknar á hverja 100.000 íbúa en að meðaltali á Norðurlöndum. Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar eru samanlagt heldur fleiri á hverja 1.000 íbúa á Íslandi en að meðaltali á Norðurlöndum en hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar eru teknir saman vegna þess hve menntun þessara starfshópa er mismunandi milli OECD landa sem torveldar samanburð. Hvað varðar aðra innviði heilbrigðisþjónustu þá eru sjúkrarúm á 1.000 íbúa álíka mörg á Íslandi og á öðrum Norðurlöndum en myndgreiningartæki fleiri.

  • Mikilvægt er að þátttaka einstaklinga í kostnaði við heilbrigðisþjónustu sé ekki það mikil að það hefti ekki aðgengi að þjónustunni og fólk fresti því að leita sér nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu. Einn mælikvarði á aðgengi að heilbrigðisþjónustu er hlutur heimila í heilbrigðisútgjöldum. Þetta hlutfall var 14,8% á Íslandi árið 2021 sem er nærri meðaltali Norðurlanda. Þessi mælikvarði segir þó ekki alla söguna því rannsóknir sýna að kostnaðarbyrði vegna heilbrigðisþjónustu er mismunandi milli þjóðfélagshópa. Aðgengi að þjónustu er einnig oft mælt í biðtíma eftir tiltekinni þjónustu. Samanburðarhæfar mælingar á biðtíma eru af skornum skammti en tölur um biðtíma eftir gerviliðaaðgerð á hné sýna að biðin var lengri á Íslandi en í Svíþjóð árið 2022, en almennt hefur langur biðtími eftir valaðgerðum á borð við liðskipti verið langvarandi vandamál í mörgum OECD ríkjum. Faraldur COVID-19 hefur aukið vandann enn frekar þar sem iðulega þurfti að fresta aðgerðum sem ekki voru lífsnauðsynlegar á meðan stærstu bylgjurnar gengu yfir.

  • Góð þátttaka í bólusetningum barna, sem er sambærileg við það sem gerist á öðrum Norðurlöndum, vitnar um árangur heilsugæslu. Þátttaka í skimunum fyrir brjóstakrabbameini og leghálskrabbameini hefur verið heldur undir meðaltali Norðurlandanna.

  • Ísland er um eða yfir meðaltali Norðurlanda er varðar marga vísa um árangur og gæði heilbrigðisþjónustu. Þannig er dánartíðni vegna dauðsfalla sem hefði mátt koma í veg fyrir með árangursríkum lýðheilsuaðgerðum og fyrsta stigs forvörnum og dánartíðni vegna meðhöndlanlegra sjúkdóma undir meðaltali Norðurlandanna. Dánartíðni vegna bráðrar kransæðastíflu innan 30 daga frá innlögn á sjúkrahús var heldur lægri á Íslandi en að meðaltali á Norðurlöndum en dánartíðni heldur hærri vegna heilablóðfalls innan 30 daga frá innlögn.

  • Hlutfall þeirra sem eru á lífi fimm árum eftir að hafa greinst með brjóstakrabbamein (91,2%), ristilkrabbamein (65%) og leghálskrabbamein (68,6%) á Íslandi er nálægt meðaltali Norðurlandanna. Sjúkrahúsinnlagnir vegna tiltekinna langvinnra sjúkdóma sem hefði mátt koma í vef fyrir með árangursríkri meðferð í heilsugæslu eru færri á Íslandi en að meðaltali á Norðurlöndunum.

  • Á Íslandi er talsvert meira ávísað af sterkum verkjalyfjum en að meðaltali á öðrum Norðurlöndum, langtímanotendur sterkra verkjalyfja eru hér hlutfallslega fleiri og meira um langtímanotkun benzódíazepínlyfja meðal aldraða. Ávísanir á sýklalyf á Íslandi eru yfir meðaltali Norðurlandanna en talan hefur lækkað talsvert milli ára á Íslandi.

  • Tíðni keisaraskurða á Íslandi er nálægt alþjóðlegum viðmiðum og fæðingum þar sem verða alvarlegar spangarrifur fer fækkandi og þær nálgast nú meðaltal Norðurlandanna.

Nánari upplýsingar veitir:
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is