Fara beint í efnið

27. september 2022

Klínískar leiðbeiningar birtar um aðgerðir á tunguhafti

Undanfarin ár hefur borið á umræðu um stutt tunguhöft og efrivararhöft í börnum og um þörfina á aðgerðum vegna þess. Þessi umræða hefur einkennst af óvissu um eðli þeirra vandamála sem inngripinu er ætlað að lækna og skort hefur skýr viðmið við mat, greiningu og meðferð þessa tiltölulega algenga fráviks í festu tungunnar við munnbotninn.   

Landlæknir logo

Athygli landlæknis var vakin á umtalsverðri margföldun á fjölda aðgerða á stuttu tímabili sem staðfest var með gögnum frá Sjúkratryggingum Íslands, sem sýndu allt að áttföldun aðgerða í vissum hópum, miðað við fyrri tímabil.

Að beiðni embættis landlæknis var því ákveðið að kalla saman þverfaglegan hóp sérfræðinga Landspítala og heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands til þess að meta núverandi stöðu sannreyndrar þekkingar og staðfestrar reynslu með það fyrir augum að semja klínískar leiðbeiningar með svipuðu sniði og gert hefur verið víða annars staðar af sambærilegu tilefni. 

Klínískar leiðbeiningar um aðgerðir á stuttu tunguhaft og efrivarahafti eru afrakstur þeirrar vinnu. Þær hafa nú verið birtar á heimasíðu Landspítala.