Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

25. ágúst 2025

Embætti landlæknis og Hagstofa Íslands í samstarfi um fyrstu landskönnun á hreyfingu, kyrrsetu og svefni

Í dag undirrituðu María Heimisdóttir landlæknir og Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri samkomulag um samstarf við framkvæmd evrópsku heilsufarsrannsóknarinnar (EHIS) og nýrrar Landskönnunar á hreyfingu, kyrrsetu og svefni á Íslandi (Landskönnun HKS).

EHIS er samræmd rannsókn á heilsufari og heilsutengdri hegðun sem er framkvæmd af hagstofum á Evrópska efnahagssvæðinu. Hagstofa Íslands sendir fyrstu boð um þátttöku í EHIS á Íslandi út í dag. Þátttaka í EHIS felur í sér svörun spurningalista og boð um að taka einnig þátt í Landskönnun HKS, sem felur meðal annars í sér að ganga með hreyfimæla í sjö sólarhringa og fylla út svefndagbók.

Landskönnun HKS er hluti af þátttöku Íslands í samevrópska verkefninu JA PreventNCD, sem hefur það meginmarkmið að innleiða árangursríkar aðgerðir til að koma í veg fyrir ósmitbæra sjúkdóma eins og krabbamein, sykursýki og hjarta- og æðasjúkdóma. Þetta er í fyrsta sinn sem hreyfimælar eru notaðir til að fá upplýsingar um hreyfingu, kyrrsetu og svefn 20-69 ára einstaklinga á landsvísu. Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík koma einnig að framkvæmd rannsóknarinnar.

Áreiðanleg gögn eru grundvöllur markvissrar stefnumótunar í lýðheilsumálum og rannsóknir sem þessar auka þekkingu okkar á lifnaðarháttum og líðan landsmanna. Með þessu samstarfi er stigið mikilvægt skref í að sameina enn frekar krafta Hagstofu Íslands og embættis landlæknis á sviði hagskýrslugerðar og lýðheilsurannsókna.

Frekari upplýsingar
Hildur Guðný Ásgeirsdóttir, hildur.gudny.asgeirsdottir@landlaeknir.is
Guðríður Hlíf Sigfúsdóttir, gudridur.h.sigfusdottir@landlaeknir.is