30. maí 2024
30. maí 2024
Eldgos á Reykjanesi og heilsufarsleg áhrif
Í gær, þann 29. maí hóst eldgos á Reykjanesi að nýju með kröftugum hætti með tilheyrandi gasmengun. Gasmengun frá eldgosinu er fyrst og fremst í formi brennisteinsdíoxíðs (SO2).
Brennisteinsdíoxíð er litlaust en hefur svipaða lykt og frá flugeldum. Það getur valdið sleni, höfuðverk, ertingu í augum og hálsi auk annarra einkenna frá öndunarfærum. Þar sem loftmengunar verður vart ættu börn og einstaklingar sem eru með undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma að forðast útivist í lengri tíma sem og áreynslu utandyra, auk þess að hafa glugga lokaða.
Almenningur, sérstaklega á Suðvesturhluta landsins, er hvattur til að kynna sér reglulega gasdreifingarspá Veðurstofu Íslands og fylgjast með mælingum á gasmengun á vef Umhverfisstofnunnar, loftgaedi.is. Þar eru birtar rauntímamælingar á loftgæðum og mengun, meðal annars af völdum brennisteinsdíoxíðs (SO2). Niðurstöður mælinganna eru einfaldaðar og litakóðaðar og á síðunni má jafnframt finna töflu með hagnýtum leiðbeiningum um hvernig bregðast skal við hækkuðum gildum brennisteinsdíoxíðs og versnandi loftgæðum.
Þá vill sóttvarnalæknir vekja athygli á fræðslubæklingi um hugsanlega hættu á heilsutjóni vegna loftmengunar í nágrenni eldstöðva. Bæklingurinn var unnin í sameiningu af ýmsum stofnunum og félagasamtökum en í honum eru áhrif loftmengunar á heilsufar manna útskýrðar og þar má finna upplýsingar um hvernig helst má verja sig gegn loftmengun vegna eldgosa.
Sjá nánar:
Sóttvarnalæknir