Mest mengun og hætta á heilsufarslegum áhrifum af hennar völdum eru í grennd við eldgos en fylgst er náið með loftgæðum í byggð á áhrifasvæði mengunar. Veðurfar, sérstaklega vindur og vindátt en einnig úrkoma hafa mikil áhrif á dreifingu mengunar. Gagnlegt er fyrir almenning á áhrifasvæði mengunar að fylgjast með loftgæðum, gasmengunarspá og þekkja til helstu varnaraðgerða sem unnt er að grípa til þegar líkur eru á mengun í byggð.
Loftgæði á Íslandi. Umhverfisstofnun. Gögn uppfærast á 10 mínútna fresti.
Gasmengunarspá. Veðurstofa Íslands. Kort sýnir svæði á landinu þar sem von er á brennisteinsmengun næstu 48 tíma.
Skráningarform vegna gasmengunar í byggð. Veðurstofa Íslands.
Hætta á heilsutjóni
Hætta á heilsutjóni vegna loftmengunar frá eldgosum. Leiðbeiningar fyrir almenning. 4. útgáfa. Nóvember 2022.
Health hazards due to air pollution from volcanic eruptions. A guide for the public. 4th edition. November 2022
Niebezpieczne dla zdrowia zanieczyszczenie powietrza spowodowane erupcja wulkanu. Wytyczne dla społeczeństwa. Wydanie 4, listopad 2022 r
Gasgildi
Gasgildi - Loftmengun í nágrenni gosstöðva. Útgefið maí 2021.
Gas concentration values – Air pollution in the vicinity of eruption sites
Wartości stężeń gazów — zanieczyszczenie powietrza w pobliżu miejsc erupcji
Hver eldstöð er sérstök og áhrif eldgosa eru ekki alltaf þau sömu. Frá eldgosi geta komið ýmiss konar mengunarefni sem er einkum að finna í nálægð við eldgosið. Algengasta loftmengunin er vegna brennisteinsdíoxíðs (SO2) sem dreifist með ríkjandi vindátt en styrkur þess er mestur í næsta nágrenni við eldstöðina.
Gös tengd eldgosum eru litlaus en hafa sum einkennandi lykt. Brennisteinsdíoxíð hefur svipaða lykt og frá flugeldum en brennisteinsvetni (H2S) lyktar svipað og á hverasvæði. Koltvísýringur og kolmónoxíð eru hins vegar lyktarlaus gös en hættuleg. Vetnisflúor (HF) og vetnisklóríð (HCl) hafa ertandi, sterka og beiska lykt en gasmengun vegna þeirra er helst þegar hraun og sjór mætast.
Gosmóða er loftmengun sem verður til þegar að brennisteinsdíoxíð (SO2), önnur gös og agnir hvarfast við súrefni og raka í andrúmsloftinu með tilstuðlan sólarljóss. Við þetta umbreytist brennisteinsdíoxíð (SO2) í súlfat (SO4). Gosmóða er líka kölluð blámóða vegna einkennandi blágrás litar. Mengun vegna gosmóðu er ekki greinanleg á venjulegum loftgæðamælum sem mæla brennisteinsdíoxíð. Til að meta hvort gosmóða sé til staðar er best að fylgjast með mælingum á PM1, sem er mjög fínt svifryk.
Brennisteinsdíoxíð (SO2) í háum gildum getur haft áhrif á heilsufar eftir aðeins skamman tíma, 10-15 mínútur. Sjá bækling Hætta á heilsutjóni vegna loftmengunar frá eldgosum.
Þegar fólk verður fyrir mengun af völdum brennisteinsdíoxíð (SO2), breytist það á röku yfirborði slímhúða í brennisteinssýru sem veldur ertingu í augum, nefi og koki. Mest af því SO2 sem berst inn í líkamann í gegnum öndunarveg (nef og munn) safnast þó ekki fyrir og skaða á innri líffærum er ekki lýst. Vegna þess er mikilvægt í viðbrögðum við SO2 mengun að fólk andi rólega, í gegnum nefið og forðist áreynslu.
Skaðleg áhrif SO2 eru tengd því þegar efnið kemst í neðri öndunarveginn, í lungun. Þá geta komið fram alvarlegri einkenni svo sem astmi og bólgja/bjúgur í lungum.
Áhrifum af SO2 má skipta í skammtíma áhrif vegna skyndilegrar mengunar sem stendur stutt yfir (mínútur, klukkustundir), og langtíma áhrif sem geta komið fram þegar mengun er viðvarandi (dagar, mánuðir, ár).
Skaðlegur styrkur brennisteinsdíoxíðs
Þegar metin er áhætta og viðbrögð við mengun af völdum SO2 hafa verið gefin út heilsuverndarmörk fyrir styttri tíma (mínútur, klukkustundir), sem eru 350 µg/m3, og fyrir lengri tíma (sólarhring eða meira) 125 µg/m3. Hins vegar er erfitt að tengja ákveðin gildi beint við tiltekin einkenni þar sem áhrif af völdum SO2 eru mjög einstaklingsbundin.
Skammtíma áhrifin þegar styrkur er lágur, eru fyrst og fremst erting í augum, nefi og koki og jafnvel höfuðverkur. Ef gildin fara hærra, til dæmis yfir 600 µg/m3 getur borið á hósta, sérstaklega hjá viðkvæmum einstaklingum* eða einstaklingum með undirliggjandi sjúkdóma.
Þegar styrkurinn er kominn yfir 2600 µ/m3 koma fram einkenni hjá öllum, erting í öndunarvegi, hósti og höfuðverkur. Heilbrigðir einstaklingar er ólíklegir til þess að fá alvarleg einkenni fyrr en styrkurinn fer upp undir 9000 µ/m3. Lífshættuleg einkenni koma ekki fram fyrr en styrkurinn fer yfir 150.000 µ/m3.
Börn
Margt bendir til þess að börn séu almennt viðkvæmari en fullorðnir, börn anda bæði hraðar og rúmmál þess lofts sem þau draga að sér, miðað við líkamsþyngd, er meira en hjá fullorðnum. Börn anda auk þess frekar í gegnum munn en í gegnum nef. Börn eru því látin njóta vafans og áhætta þeirra skilgreind eins og einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma.
Margar rannsóknir (þó ekki allar) sýna einnig að SO2 mengun getur valdið vaxtarskerðingu hjá fóstrum þungaðra kvenna og einnig að börn fæðist fyrir tímann.
*Viðkvæmir einstaklingar: Börn, barnshafandi konur, fullorðnir með astma, langvinna lungnateppu og hjarta- og æðasjúkdóma og fólk sextíu ára og eldri.
Hvað er gosmóða?
Gosmóða (e. volcanic smog) er loftmengun sem verður til þegar að brennisteinsdíoxíð (SO2) frá eldgosi, önnur gös og agnir hvarfast við súrefni og raka í andrúmsloftinu fyrir tilstuðlan sólarljóssins. Við þetta umbreytist brennisteinsdíoxíð gasið (SO2) í súlfatagnir (SO4) sem eru þá ekki lengur gastegund heldur fastar agnir. Mengun vegna gosmóðu er því ekki greinanleg á venjulegum SO2 gasmælum. Gosmóða er gjarnan kölluð blámóða vegna einkennandi blágrás litar.
Hvernig er gosmóða mæld?
Til að meta hvort gosmóða sé til staðar er best að fylgjast með mælingum á svifryki og skoða þá sérstaklega PM1, sem er mjög fínt svifryk. Þá gefa mælingar á PM2,5 einnig ákveðnar vísbendingar um hvort gosmóða sé til staðar. Þessar mælingar eru birtar í rauntíma á vef Umhverfisstofnunar og eru þær einfaldaðar og litaðkóðaðar, sbr. mynd:
Hver eru heilsufarsleg áhrif gosmóðu?
Gosmóða er almennt meira ertandi en annað svifryk, t.d. sem kemur til vegna bílaumferðar. Hún getur valdið sleni, höfuðverk, ertingu í augum og hálsi auk annarra einkenna frá öndunarfærum. Minnstu svifryksagnir (PM1 og PM2,5) eru hættulegar heilsunni þar sem þær eiga auðvelt með að ná djúpt niður í lungun og þar með fara um líkamann. Allir geta fundið fyrir einhverjum áhrifum af gosmóðu en börn og fullorðnir einstaklingar með undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma ættu að forðast áreynslu utandyra sem og útivist í lengri tíma þar sem loftmengun er.
Hvað á ég að gera ef ég finn fyrir óþægindum vegna gosmóðu?
Ef einstaklingur finnur fyrir einkennum gosmóðu er mikilvægt að takmarka áreynslu, halda sig innandyra og loka gluggum. Ef einkenni eru þrálát eða hverfa ekki ætti að leita á heilsugæslu eða hafa samband við Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar í síma 1700.
Mikilvægt er að þeir einstaklingar sem notast við innúðalyf vegna astma- og lungnasjúkdóma gæti þess að eiga þau til og noti samkvæmt þeim leiðbeiningum sem lyfinu fylgja. Viðbúið er að einstaklingar gætu þurft að auka við skammta sína af innúðalyfjum ef gosmóða er mikil eða einkenni þrálát en slíkt ætti ætíð að gera í samráði við lækni.
Eldgos á Reykjanesi - ráðleggingar vegna gosmengunar. Umhverfisstofnun.
Leiðbeiningar á tímum eldgosa. Umhverfisstofnun
Hvað getur hver og einn gert til að verja sig gegn loftmengun í eldgosi?
Kynna sér loftgæðakort Umhverfisstofnunar, gasmengunarspá Veðurstofu og fylgja ráðgjöf heilbrigðisyfirvalda.
Þekkja helstu viðbrögð, svo sem að vera inni og loka gluggum ef mengun er mikil. Allt sem minnkar viðveru í mengun hjálpar. Ef nauðsynlegt er að vera utandyra í stutta stund í mjög mikilli mengun gagnast vel að anda gegnum blautan klút. Andið rólega í gegnum nefið. Hefðbundnar andlitsgrímur duga lítið sem ekkert gegn loftmengun frá eldgosum en ekki er mælt með notkun gasgríma fyrir almenning.
Viðkvæmir einstaklingar eiga að ráðfæra sig við heilsugæslu hvað varðar lyf og annað sem mögulega kemur að gagni.
Ráðstafanir til varnar brennisteinsdíoxíð (SO2) mengun innandyra
Loka gluggum og minnka umgengni um útidyr.
Slökkva á loftræstingu þar sem það á við.
Lofta út um leið og loftgæði batna utandyra.
Gosaska - hætta á heilsutjóni. Leiðbeiningar fyrir almenning. 3. útgáfa. Nóvember 2023
Volcanic Ash - Health Hazards. A guide for the public. 3rd edition. November 2023
Popiół wulkaniczny – zagrożenia dla zdrowia. Wytyczne dla ludności. Wydanie 3. Listopad 2023 r.
Gashitun húsa. Leiðbeiningar almannavarna (aðeins breytt). Útgefið febrúar 2024
Eðlilegt er að finna fyrir kvíða og áhyggjum þegar atburðir sem við höfum litla stjórn á eiga sér stað. Þetta hafa margir reynt í því ástandi sem skapast hefur vegna COVID-19 og eins finna margir fyrir óróleika í þeim jarðhræringum sem gengið hafa yfir Reykjanesið, höfuðborgarsvæðið og fleiri svæði. Á tímum sem þessum er einkar mikilvægt að hlúa að andlegri heilsu og styðja við þá sem standa manni nærri.
Á vefsíðunni www.heilsuvera.is er að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar um hvernig hægt er að hlúa að eigin geðheilsu, t.d. þegar við upplifum mikla streitu. Upplýsingar um aðferðir til að draga úr streitu. Einnig er bent á mikilvægi samveru með börnum, sem er ekki hvað síst mikilvæg á óvissutímum til að halda ró og rútínu.
Eðlilegt að finna fyrir kvíða og áhyggjum
Það fyrsta sem er gott að hafa í huga er að áhyggjur og kvíði eru eðlileg viðbrögð í aðstæðum sem þessum. Í gegnum tíðina hefur heilbrigður ótti og kvíði kennt okkur að forðast hættur og þannig bjargað lífi okkar. Það er því fullkomlega eðlilegt að finna fyrir þessum tilfinningum núna en jafnframt mikilvægt að láta þær ekki taka yfir.
Við þurfum að vinna á uppbyggilegan hátt úr þessum áhyggjum, hlusta vel á fyrirmæli og einbeita okkur að þeim þáttum sem við höfum stjórn á fremur en þeim sem við getum ekki stýrt.
Ef þú finnur fyrir stöðugum einkennum s.s. skorti á einbeitingu, doða, ótta, svefnvanda, kvíða, líkamlegri og/eða andlegri örmögnum og/eða grátköstum er mikilvægt að leita sér hjálpar.
Mörgum nægir að tala við sína nánustu, aðrir þurfa meiri stuðning og þá er gott að leita til heilsugæslunnar.Hægt er að panta tíma á sinni heilsugæslustöð eða hafa beint samband við hjúkrunarfræðing í gegnum netspjall á www.heilsuvera.is
Einnig er hægt að hafa samband við Hjálparsíma Rauða krossins 1717 sem er opinn allan sólarhringinn.
Kynnum okkur rétt viðbrögð
Mikilvægt að huga að öryggi á heimili eins og ráðlagt er á vefsíðu Almannavarna og kynna sér rétt viðbrögð í jarðskjálfta og eldgosi. Það að afla sér upplýsinga er eitthvað sem við getum haft stjórn á. Við getum aftur á móti ekki stýrt því hvort eða hvenær náttúruöflin taka yfir og því ekki hjálplegt að festa hugann við það.
Dagleg rútína er mikilvæg
Það er hjálplegt að huga vel að daglegri rútínu, borða hollan mat, fá nægan svefn, hreyfa sig daglega og vera í nærandi samskiptum við aðra. Finna sér eitthvað skemmtilegt að gera eða hlakka til á hverjum degi, hvort sem það er morgundrykkurinn, síðdegisgöngutúrinn, gæðastundir með fjölskyldunni, samtal við góðan vin eða vinkonu, sundferð eða lestur góðra bóka. Gagnleg verk, eins og að sinna húsverkum og viðhaldi, eitthvað sem skilur eftir sig sýnilegan árangur, hafa líka jákvæð áhrif á líðan. Þessi atriði eru mikilvæg alla daga en alveg sérstaklega á tímum sem þessum.
Munum að ótti og áhyggjur umfram eðlilegar forvarnaraðgerðir bæta ekki öryggi okkar. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að jákvæðar tilfinningar geta eflt andlegan styrk og þrautseigju og því rík ástæða til að týna ekki gleðinni á óvissutímum heldur finna leiðir til að huga að því sem gefur lífinu gildi.
Verum upplýst og tölum saman
Upplifun barna er oft öðruvísi en fullorðinna. Þau geta orðið meira kvíðin, óörugg og sýnt ýmiskonar hegðunarvanda. Mikilvægt er að fullorðnir séu meðvitaðir um hvernig þeir tala í návist barna, fræði þau um það sem er að gerast og segi þeim frá að landið búi yfir ýmsum kröftum sem við þurfum að læra að lifa með. Leggja þarf áherslu á að börn fái að spyrja og þeim sé svarað á einföldu máli eftir því á hvaða aldri þau eru. Börn eru næm á líðan og viðbrögð fullorðinna og því mikilvægt að halda ró sinni eftir megni, útskýra ástandið, leyfa þeim að tala um ótta sinn og hughreysta þau. Ef um lagvarandi ástand er að ræða og barnið upplifir stöðuga ógn og kvíða sem hefur veruleg áhrif á lífsgæði þeirra er mikilvægt að leita aðstoðar.
Á vefsíðu Reykjanesbæjar má finna gagnlegar upplýsingar og góð ráð til foreldra varðandi kvíða og óöryggi hjá börnum og unglingum.
Almannavarnir. Upplýsingar frá Almannavörnum.
Háskóli Íslands. Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.
Matvælastofnun. Upplýsingar sem snerta dýr og matvæli vegna gosmengunar.
Umhverfisstofnun. Loftgæði á Íslandi.
Veðurstofa Íslands. Upplýsingar um dreifingu ösku og/eða gasmengunar frá eldgosum.
Greinar og rannsóknir
Áhrif Holuhraunsgossins á umhverfi og heilsu. Landbúnaðarháskóli Íslands og Veðurstofa Íslands 2017.
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis