Eldgos - ráðleggingar vegna heilsufarslegra áhrifa
Gosmóða
Hvað er gosmóða?
Gosmóða (e. volcanic smog) er loftmengun sem verður til þegar að brennisteinsdíoxíð (SO2) frá eldgosi, önnur gös og agnir hvarfast við súrefni og raka í andrúmsloftinu fyrir tilstuðlan sólarljóssins. Við þetta umbreytist brennisteinsdíoxíð gasið (SO2) í súlfatagnir (SO4) sem eru þá ekki lengur gastegund heldur fastar agnir. Mengun vegna gosmóðu er því ekki greinanleg á venjulegum SO2 gasmælum. Gosmóða er gjarnan kölluð blámóða vegna einkennandi blágrás litar.
Hvernig er gosmóða mæld?
Til að meta hvort gosmóða sé til staðar er best að fylgjast með mælingum á svifryki og skoða þá sérstaklega PM1, sem er mjög fínt svifryk. Þá gefa mælingar á PM2,5 einnig ákveðnar vísbendingar um hvort gosmóða sé til staðar. Þessar mælingar eru birtar í rauntíma á vef Umhverfisstofnunar og eru þær einfaldaðar og litaðkóðaðar, sbr. mynd:
Hver eru heilsufarsleg áhrif gosmóðu?
Gosmóða er almennt meira ertandi en annað svifryk, t.d. sem kemur til vegna bílaumferðar. Hún getur valdið sleni, höfuðverk, ertingu í augum og hálsi auk annarra einkenna frá öndunarfærum. Minnstu svifryksagnir (PM1 og PM2,5) eru hættulegar heilsunni þar sem þær eiga auðvelt með að ná djúpt niður í lungun og þar með fara um líkamann. Allir geta fundið fyrir einhverjum áhrifum af gosmóðu en börn og fullorðnir einstaklingar með undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma ættu að forðast áreynslu utandyra sem og útivist í lengri tíma þar sem loftmengun er.
Hvað á ég að gera ef ég finn fyrir óþægindum vegna gosmóðu?
Ef einstaklingur finnur fyrir einkennum gosmóðu er mikilvægt að takmarka áreynslu, halda sig innandyra og loka gluggum. Ef einkenni eru þrálát eða hverfa ekki ætti að leita á heilsugæslu eða hafa samband við Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar í síma 1700.
Mikilvægt er að þeir einstaklingar sem notast við innúðalyf vegna astma- og lungnasjúkdóma gæti þess að eiga þau til og noti samkvæmt þeim leiðbeiningum sem lyfinu fylgja. Viðbúið er að einstaklingar gætu þurft að auka við skammta sína af innúðalyfjum ef gosmóða er mikil eða einkenni þrálát en slíkt ætti ætíð að gera í samráði við lækni.
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis