Fara beint í efnið

30. mars 2023

Bráðabirgðaniðurstöður rannsóknar dönsku lyfjastofnunarinnar á sýklalyfinu Dicillin/Staklox

Lyfjastofnun hefur birt frétt um bráðabirgðaniðurstöður rannsóknar dönsku lyfjastofnunarinnar á bakteríumengun í sýklalyfinu Dicillin (hérlendis sérlyfið Staklox) sem bendir til að uppspretta mengunar sé í tækjabúnaði við framleiðslu á árinu 2022. Um var að ræða bakteríu sem er ónæm fyrir ýmsum sýklalyfjum en ekki öllum (karbapenemasa-myndandi).

Sóttvarnalæknir - logo

Í dönsku rannsókninni var staðfest mengun í sjö framleiðslulotum lyfsins en þar af var ein í dreifingu á Íslandi. Einnig er verið er að rannsaka aðrar lotur sem voru í dreifingu hérlendis. Enn hefur aðeins einn einstaklingur á Íslandi greinst með þessa tilteknu bakteríu í kjölfar inntöku á Staklox á síðasta ári en allar greiningar á karbapenemasa-myndandi sýklum eru tilkynntar til sóttvarnalæknis.

Sóttvarnalæknir gaf árið 2019 út leiðbeiningar um „Skimun, smitrakningu og sýkingavarnir vegna sýklalyfjaónæmra baktería í heilbrigðisþjónustu“. Markmið leiðbeininganna er að samræma stefnu innan heilbrigðisþjónustunnar um hvernig og hverja skuli skima fyrir ónæmum bakteríum og hvernig skuli bregðast við þegar þær greinast.

Í undirbúningi er tímabundin aðgerð við innlögn á sjúkrahús þar sem bætt verður við skimun fyrir ónæmum sýklum hjá einstaklingum sem notað hafa Staklox á ákveðnu tímabili. Frekari aðgerðir munu ráðast af niðurstöðum þeirra skimana.

Tenglar á fréttir og vefsíður með gagnlegum upplýsingum:

Sóttvarnalæknir