Fara beint í efnið

12. júní 2023

Ávísun ópíóðalyfja

Ópíóðar eru mikilvæg lyf fyrir þá sjúklinga sem þá þurfa, en um leið eru þeir sérstaklega vandmeðfarin lyf. Ópóíðar falla í flokk ávana- og fíknilyfja og notkun þeirra getur leitt til ávanabindingar og líkamlegrar fíknar. Stórir skammtar geta valdið öndunarstoppi og dauða.

Talnabrunnur mynd með fréttum

Vegna eftirlitshlutverks embættisins með ávísunum hefur embættið árlega framkvæmt greiningu á notkun lyfja í þessum flokki. Í ljósi frétta af lyfjatengdum andlátum, var greiningin að þessu sinni unnin í tengslum við vinnuhóp sem embætti landlæknis, embætti ríkislögreglustjóra, Lyfjastofnun, Sjúkratryggingar og Skatturinn settu á laggirnar í apríl síðastliðnum með það að marki að kortleggja dreifingu á ópíóíðum á Íslandi.

Greiningu vinnuhópsins má nálgast í nýútkomnum Talnabrunni.

Ávísanir

Þegar borin er saman þróun í notkun ópíóíða á fyrstu fimm mánuðum ársins 2023 samanborið við sömu mánuði áranna 2014-2022 má sjá að fjöldi einstaklinga sem leysti út a.m.k. eina ávísun á tímabilinu janúar til maí 2023 er svipaður því sem var árin 2020 og 2021. Þrátt fyrir að fjölgað hafi nokkuð í hópi þeirra sem leystu út lyf í flokki ópíóíða árið 2022 þá varð ekki aukning í afgreiddu magni ópíóíða árið 2022 samanborið við fyrri ár.

Frá árinu 2020 hefur einstaklingum fjölgað sem leyst hafa út lyfjaávísun á ópíóíða, frá því að vera 157 á hverja 1.000 íbúa árið 2020 í 181 á hverja 1.000 árið 2022. Hafa ber í hug að 10 stykkja pakkningar af Parkódín, sem er ópíóði í flokki kódeins og parasetamóls, voru afgreiddar án ávísunar í kjölfar mikillar útbreiðslu COVID-19 árið 2022. Þetta samsvarar því að ríflega 69 þúsund einstaklingar hafi leyst út að minnsta kosti eina ávísun á ópíóíða á árinu 2022 samanborið við ríflega 57 þúsund árið 2020. Af þeim ríflega 69 þúsund einstaklingum sem leystu út ópíóíða árið 2022 voru ríflega 5.600 sem leystu eingöngu út 10 stykkja pakkningu af Parkódín. Fjölgun þeirra sem leystu út ópíóíða árið 2022 má því að umtalsverðum hluta til rekja til þessa.

Lyfjatengd andlát

Ekki liggja fyrir staðfestar upplýsingar um lyfjatengd andlát fyrir árið 2022 fyrr en réttarkrufningum, lyfjamælingum og rannsóknum lögreglu er lokið. Hér er um að ræða tímafrekt ferli sem jafnan tekur marga mánuði. Staðfestar upplýsingar um lyfjatengd andlát eru birtar einu til tvisvar sinnum á ári, síðast fyrir fyrra hluta árs 2022.

Samantekt

Þrátt fyrir að fjölgað hafi í hópi þeirra sem leystu út lyf í flokki ópíóíða árið 2022 þá varð ekki aukning í afgreiddu magni ópíóíða á milli ára. Fjölgunina má að miklu leyti rekja til tímabundinnar heimildar til afgreiðslu Parkódín í tengslum við COVID-19. Tölur fyrir fyrstu fimm mánuði ársins 2023 gefa ekki til kynna notkunin sé frábrugðin fyrri árum.

Embætti landlæknis hefur, ásamt öðrum stofnunum, beitt sér fyrir aðgerðum til að bæta öryggi verkjalyfjameðferðar á Íslandi sem og mótvægisaðgerðum til að sporna við ofnotkun ópíóíða. Þegar kemur að fíkn í ópíóíðalyf, önnur lyf og efni, þarf víðtæka nálgun margra aðila. Huga þarf að greiningu vandans, eftirliti á landamærum, forvörnum, meðferð, skaðaminnkun, eftirfylgni og langtíma úrræðum. Ljóst er að það liggur á lausnum til skemmri tíma litið, auk þess sem ráðast þarf í heildstæða stefnumótun til framtíðar.

Alma D. Möller landlæknir
mottaka@landlaeknir.is