Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

24. október 2025

Alþjóðlegur dagur tileinkaður mænuveiki

Í dag, 24. október, á alþjóðlegum degi tileinkuðum mænuveiki, leggjum við áherslu á mikilvægi bólusetninga og vöktunar til að ná settu markmiði að útrýma mænuveiki á heimsvísu. Markmið sem Alþjóðaheilbrigðisþingið setti árið 1988.

Staða mála í hnotskurn

  • Mænuveiki (polio, poliomyelitis), er mjög smitandi veirusjúkdómur sem leggst aðallega börn undir fimm ára aldri.

  • Engin meðferð eða lyf eru til sem lækna sjúkdóminn.

  • Um eitt af hverjum 200 smitum leiðir til óafturkræfrar lömunar og meðal þeirra sem lamast deyja 5–10 % þegar öndunarvöðvar lamast.

  • Smitum af völdum villtrar gerðar veirunnar (WPV, wild type polio virus) hefur fækkað um 99% síðan 1988, úr áætluðum 350.000 tilfellum í um 125 ríkjum/svæðum til aðeins tveggja landa þar sem sjúkdómurinn telst enn landlægur.

  • Evrópusvæði WHO var lýst laust við lömunarveiki árið 2002 og hefur haldið þeirri stöðu síðan þá.

  • En svo lengi sem eitt barn er smitað í heiminum er enn hætta á útbreiðslu í öðrum ríkjum.

Á Íslandi

Þó mænuveiki sé í dag afar sjaldgæfur sjúkdómur á Íslandi, þá berum við ábyrgð á því að viðhalda háu bólusetningarhlutfalli, öflugri vöktun og forvörnum svo fullkomin útrýming náist ekki aðeins í einstökum ríkjum heldur í öllum heiminum.

Mikilvægt er að byrja að bólusetja snemma því sjúkdómurinn er hættulegastur yngstu börnunum. Hér á landi eru börn bólusett á fyrsta aldursári og endurbólusett við 14 ára aldur. Bóluefnið verndar ekki lengur en í 10 ár og því er mælt með að fullorðnir láti bólusetja sig gegn mænusótt á 10 ára fresti ef þeir ferðast til landa þar sem hætta er á smiti.

Ráðleggingar

  • Við hvetjum foreldra og forráðamenn til að tryggja að börn fylgi bólusetningaráætlun á Íslandi.

  • Heilbrigðisyfirvöld og heilbrigðisþjónusta þurfa að tryggja öruggt aðgengi að bólusetningum og gott eftirlit.

  • Halda áfram að styrkja alþjóðlegt samstarf við útrýmingu mænuveiki.

  • Viðhalda þekkingu á hættunni sem getur stafað af mænuveiki og mikilvægi forvarna.

Niðurlag

Við stöndum á tímamótum þar sem mænuveiki er næstum útrýmt í heiminum, en markmiðinu er ekki náð fyrr en hún er alveg horfin. Á Íslandi munum við áfram leggja okkar af mörkum til að öll börn eigi örugga og heilbrigða framtíð. Sjá meira um mænuveiki á vef embætti landlæknis og WHO.

Sóttvarnalæknir