24. mars 2025
24. mars 2025
Alþjóðlegur berkladagur 2025
24. mars er alþjóðlegi berkladagurinn, en þann dag árið 1882 lýsti Dr. Robert Koch því yfir að hann hefði uppgötvað orsök berklasjúkdómsins, berklabakteríuna Mycobacterium tuberculosis.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO velur þema dagsins ár hvert, 2025 er þemað „Jú! Við getum bundið enda á berkla! - Skuldbindum - Fjárfestum - Framkvæmum"
Berklar eru fremur sjaldgæfir hér en um það bil eitt tilfelli greinist mánaðarlega eða annan hvern mánuð (6–20 tilfelli á ári). Á tímabilinu 2015–2024 var tilkynnt um 109 tilfelli berklaveiki hér á landi. Þar af greindust 22 við skimun vegna dvalarleyfis (20%), 23 einstaklingar (21%) með íslenskt ríkisfang og 64 einstaklingar (59%) af erlendum uppruna búsettir hér á landi greindust vegna eigin einkenna eða berklaveiki hjá heimilisfólki. Flestir með íslenskt ríkisfang eru taldir hafa smitast hér, ýmist á yngri árum (fólk fætt fyrir 1960) eða nýlega, fremur sjaldgæft er að íslenskir ríkisborgarar geti með vissu rakið sýkinguna til dvalar erlendis.
Berklar eru tilkynningarskyldir hér á landi og tilkynntir héðan áfram til Sóttvarnastofnunar Evrópu (ECDC) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Ef berklaveiki greinist hjá börnum eða smitandi berklar greinast eftir kynþroska fer fram rakning, þá er leitað að þeim sem smitaði líklega barnið eða þeim sem smitast hafa af einstaklingi með virka berkla í öndunarfærum. Árið 2024 voru tilfelli hér á landi 8, mun færri en 2022–2023, álíka mörg og 2021. Ekkert tilfelli ónæmra berkla kom upp á árinu, en öll tilfellin voru staðfest með ræktun og því næmisupplýsingar fyrir hendi við val á meðferð. Smitandi berklar komu upp meðal heimilislausra, en heimilislausir eru víðast hvar í heiminum sérlega viðkvæmur hópur hvað berkla varðar, vegna ótryggs aðgengis að heilbrigðisþjónustu og oft á tíðum lélegs næringarástands. Töf á greiningu, minnkað mótstöðuafl gegn sýkingunni þrátt fyrir meðferð og aukin hætta á misbresti í meðferð, vegna aukaverkana eða minnkaðrar getu til að sinna meðferðinni gera berkla sérstaklega varasama hjá fólki í viðkvæmri félagslegri stöðu, ekki síst ef geðsjúkdómar, s.s. fíknisjúkdómar, eru fyrir hendi.
Hvernig getum við dregið enn frekar úr berklasjúkdómi hér á landi?
Skuldbindum - fjárfestum - framkvæmum
Skuldbindum
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hvetur samstarfslönd til að taka í notkun leiðbeiningar og stefnu WHO í baráttunni gegn berklum, til að styrkja viðbragð innanlands gegn berklum og tryggja fjármagn til aðgerða gegn berklum.
Hér á landi eru leiðbeiningar WHO lagðar til grundvallar leiðbeiningum til heilbrigðisstarfsfólks en áherslur litast mjög sterkt af þeirri forréttindastöðu sem við höfum, sem land með afar lága tíðni berklasmita. Afar mikilvægt er samt sem áður að berklar gleymist ekki, en smit hafa komið upp í viðkvæmum hópum undanfarin ár og hætt er við dreifingu ef smit dyljast lengi eftir að einkenni hafa komið fram hjá fólki í viðkvæmri stöðu, ef fólk hefur ekki örugga aðstöðu til einangrunar eða ef misbrestur verður í meðferð.
Fjárfestum
WHO hvetur til fjárfestinga í nýjungum. Nýstárlegar aðferðir til greininga, ný lyf og ný bóluefni hafa verið í þróun en sum komast ekki á markað, meðal annars vegna skorts á fjárfestingum til að auka framleiðslugetu og fleira.
Sú bylting hefur orðið á undanförnum árum að aðgengi að nákvæmari rannsókn við leit að berklasmiti er nú fyrir hendi innanlands. Þessi rannsókn er sérstaklega mikilvæg við skimun hjá ónæmisbældum einstaklingum og ef fólk hefur fengið berklabólusetningu, en sú bólusetning er ein sú útbreiddasta í heiminum þótt hún hafi aldrei verið almenn hér á landi. Sóttvarnalæknir og Landspítali hafa einnig unnið að því að tryggja aðgengi að nýlegum lyfjum gegn ónæmum berklum og hafa þau reynst vel undanfarin ár.
Framkvæmum
Það er ekki nóg að eiga leiðbeiningar, það þarf að framkvæma það sem í þeim stendur eftir því sem við á. Áhersluatriði WHO eru meðal annars að finna berklasmit og nota fyrirbyggjandi meðferð, að greina fólk með berklaveiki snemma og að vanda til meðferðar berklaveikra, þar með talið að tryggja að meðferð sé sem minnst íþyngjandi fyrir berklaveika og að fólk sé læknað áður en eftirliti er hætt.
Mikið er lagt í rakningar þegar upp koma tilfelli smitandi berkla hér á landi. Heilsugæslan og Landspítali sinna þeim verkefnum, með aðkomu sóttvarnalæknis eftir atvikum hvað varðar ákvarðanatöku og álitamál. Öllum sem greinast með berklasmit hér á landi er boðin meðferð, nema rík ástæða sé til að nota ekki lyfjameðferð, en þá er lagt upp með eftirlit í 1–2 ár með lungnamyndatökum og veitt berklameðferð ef smit leiðir til sýkingar.
Fremur algengt er að fólk sem greinist með smitandi berkla hér á landi hafi verið með einkenni í þrjá mánuði eða lengur, sem eykur líkur á að berklar hafi smitast til annarra. Minnst þrír einstaklingar sem greinst hafa með berkla undanfarin fimm ár höfðu sennilega smitast hér á landi innan fárra ára án þess að vitað væri um tengsl við þekkt berklatilfelli og að minnsta kosti tveir aðrir höfðu tengsl við tilfelli en fundust ekki við rakningu, tóku ekki þátt í rakningu eða afþökkuðu fyrirbyggjandi meðferð. Utanumhald með eftirliti og aðgengi að mati með tilliti til berkla þegar þannig stendur á þarf að tryggja, en eins og er eru engar skýrar reglur um merkingar í sjúkraskrá sem allar stofnanir sem sinna bráðaþjónustu hafa aðgang að.
Flestir sem þurfa berklalyfjameðferð, hvort sem er vegna berklasmits eða berklaveiki, fá hana hjá smitsjúkdómalæknum Landspítala. Flestir fá meðferðina að mestu eða öllu leyti gegnum göngudeildir. Fyrir kemur að fólk sé svo veikt að það þurfi sjúkrahúsinnlögn eða þurfi lyf gegn ónæmum berklum sem erfitt er að nota utan sjúkrahúsa, en nokkur hluti þeirra sem fá meðferð að einhverju eða jafnvel öllu leyti á sjúkrahúsum eru þar vegna skorts á heppilegri aðstöðu til einangrunar utan sjúkrahúsa. Landspítali hefur tryggt nokkrum aðilum húsnæði til einangrunar utan legudeilda undanfarin tvö ár, en ef fólk hefur ekki öruggt húsaskjól þótt ekki þurfi einangrun, er hætt við að meðferð fari út um þúfur eða að grípa þurfi til nýstárlegra aðferða til að tryggja áframhaldandi aðgang að meðferðinni og að henni sé sinnt sem skyldi. Víða erlendis er meðferð undir beinu eftirliti (ensku directly observed therapy; DOT) mikið notuð en hér á landi hefur fremur sjaldan verið gripið til slíkrar meðferðar og mjög óljóst hver ætti helst að sinna henni. Mikil hætta er á útbreiðslu og nokkur hætta á þróun ónæmis ef meðferð er ekki sinnt á tilhlýðilegan hátt og því mikið í húfi ef ekki er hægt að tryggja aðgengi og viðeigandi stuðning við meðferð berkla.
Á Íslandi erum við í forréttindastöðu hvað varðar berkla, með lága tíðni og mjög lágt hlutfall ónæmra berkla, en mikilvægt er að sinna berklum áfram af vandvirkni til að viðhalda árangrinum.
Sjá einnig:
World TB Day 2025. Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO).
Cost-effectiveness of active tuberculosis screening among high-risk populations in low tuberculosis incidence countries: a systematic review, 2008 to 2023. Grein í Eurosurveillance í tilefni af alþjóðlega berkladeginum 2023.
Berklagreiningar í Evrópu eru aðgengilegar á vef Sóttvarnastofnunar Evrópu (ECDC).
Berklar. Leiðbeiningar fyrir starfsfólk í heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og þrifum.
Sóttvarnalæknir