11. desember 2018
11. desember 2018
Staða á biðlistum eftir völdum skurðaðgerðum í október 2018
Embætti landlæknis ber lögum samkvæmt að hafa eftirlit með heilbrigðissþjónustu og fylgist embættið reglulega með aðgengi að þeirri þjónustu.
Embætti landlæknis ber lögum samkvæmt að hafa eftirlit með heilbrigðissþjónustu og fylgist embættið reglulega með aðgengi að þeirri þjónustu. Í því skyni er kallað eftir upplýsingum um stöðu á biðlistum eftir völdum skurðaðgerðum þrisvar á ári.
Aðgerðarstaðir eru beðnir um upplýsingar um sautján aðgerðarflokka, sem sumir hverjir eru hluti af svokölluðu biðlistaátaki. Viðmiðunarmörk Embættis landlæknis um ásættanlegan biðtíma eftir aðgerð eru 90 dagar (3 mánuðir) og er miðað við að 80% komist í aðgerð innan þess tíma. Í þessari greinargerð er til viðmiðunar skoðað hvort a.m.k. 80% hafi verið á biðlista skemur en 3 mánuði.
Bið eftir skoðun hjá sérfræðingi, sem metur þörf á aðgerð og skráir einstakling á biðlista, er ekki meðtalin, en hún getur verið löng. Biðtími eftir skoðun bæklunarskurðlæknis, sem er nauðsynleg til að einstaklingur geti farið á biðlista eftir liðskiptaaðgerð er afar misjafn eftir aðgerðarstöðum eins og sjá má í greinargerðinni.
Staða á biðlistum eftir aðgerðum sem eru hluti af biðlistaátaki hefur lagast töluvert frá upphafi átaksins. Á heildina litið hefur biðlistaátakið skilað miklum árangri. Aðgerðum hefur fjölgað mikið og biðtími hefur styst þrátt fyrir að hann sé enn of oft yfir viðmiðunarmörkum. Á sama tíma og átakið hefur staðið yfir hefur þörfin fyrir sumar aðgerðir aukist sem lýsir sér í auknu innflæði sjúklinga á biðlista eftir þeim aðgerðum. Þá hafa ýmsir þættir dregið úr afkastagetu sjúkrahúsanna, s.s. lokun rúma, skortur á hjúkrunarfræðingum og frestun aðgerða. Einnig hefur áhrif hversu margir þeir einstaklingar eru sem lokið hafa meðferð á Landspítala og bíða eftir þjónustu annars staðar, svo sem hjúkrunarrými, endurhæfingu eða búsetuúrræði.
Lesa nánar: Staða á biðlistum eftir völdum skurðaðgerðum í október 2018
Nánari upplýsingar veitir Laura Sch. Thorsteinsson, teymisstjóri úttekta á sviði eftirlits og gæða.